Skóli án kennara

22. nóv. 2019

Þú heldur eflaust, lesandi góður, að það sé óhugsandi að skóli geti verið án kennara en það er nú samt raunin að slíkir skólar eru til.

Þú heldur eflaust, lesandi góður, að það sé óhugsandi að skóli geti verið án kennara en það er nú samt raunin að slíkir skólar eru til. Stjórn Samtaka iðnaðarins átti þess kost fyrir skömmu að heimsækja skóla í París sem nýtur þeirra sérstöðu að þar eru engir kennarar! Námið í 42 skólanum fer fram í gegnum jafningjafræðslu sem byggir á þátttöku og framlagi hvers og eins nemanda, án námskeiða og án kennara, sem gerir nemendum kleift að virkja sköpunargáfu sína í verkefnamiðuðu námi.

Ég var full tilhlökkunar er við gengum inn í skólabygginguna og skynjaði um leið að þetta væri sérstakur staður í nútímalegu andrúmslofti. Nemandi við skólann sá um leiðsögn og var gaman að heyra hversu ánægður og stoltur hann var af skólanum sínum. Skólinn, sem er sjálfseignarstofnun, var stofnaður 2013. Stofnandi skólans, Xavier Niel, taldi nauðsynlegt að koma breytingum að í menntakerfinu sem miðuðu að því að mennta fólk með þarfir atvinnulífsins í huga og ýttu undir mismunandi hæfileika nemenda á sem flestum sviðum sem og sjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum.

Eingöngu er kennd forritun við skólann og komast færri að en vilja. Allir sem náð hafa 18 ára aldri geta sótt um inngöngu og eru inntökupróf rafræn. Engin skólagjöld eru við skólann, engir prófessorar né kennarar og skólinn gefur ekki út neinar prófgráður.

Það var upplifun að koma í 42 skólann og kynnast nýjum aðferðum við kennslu. Ljóst er að skóli sem þessi hentar ekki öllum en gleymum því heldur ekki að skólakerfið okkar eins og við höfum byggt það upp hentar heldur ekki öllum. Í síkvikum heimi verðum við að vera reiðubúin til að líta til nýrra aðferða við að mennta kynslóðir framtíðarinnar fyrir ný viðfangsefni. Aðferðafræði 42 skólans er í senn áhugaverð og gagnleg viðbót við hefðbundið skólahald sem líta mætti til hér á landi.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 22. nóvember 2019.