Skýr skilaboð um stöðugleika

20. sep. 2021

Árni Sigurjónsson og Sigurður Hannesson skrifa í Morgunblaðið um stöðugleika.

Sóknarfærin til bættra lífsgæða landsmanna felast í leiðum til að auka stöðugleika. Stöðugt starfsumhverfi er lykillinn að samkeppnishæfu atvinnulífi en samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Atvinnulíf sem býr við stöðugleika er best til þess fallið að skapa störf og verðmæti fyrir fólkið í landinu. Með stöðugu starfsumhverfi skapast skilyrði til aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma. Stöðugleikinn skapar fyrirsjáanleika og eykur fjárfestingu í þáttum sem auka framleiðni. Spurningin um hvernig við sköpum stöðugt starfsumhverfi er því spurningin um hvernig við aukum lífsgæði til framtíðar. 

Í nýrri könnun sem gerð var meðal stjórnenda iðnfyrirtækja kemur fram að 98% þeirra segja að stöðugt starfsumhverfi skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja og sama hlutfall segir að næsta ríkisstjórn eigi að leggja mikla áherslu á stöðugleika í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Þetta háa hlutfall undirstrikar mikilvægi stöðugleika fyrir samkeppnishæfni atvinnulífsins og getu þess til að skapa störf og verðmæti. 

Stöðugleikinn sem stjórnendur fyrirtækja sækjast eftir er fjölþættur. Krafan um stöðugleika felur m.a. í sér að hagsveiflur séu ekki miklar, verðbólga lág og gengi gjaldmiðilsins stöðugt. Einnig er krafan sú að vinnumarkaðurinn sé stöðugur, í landinu sé pólitískur stöðugleiki og laga- og reglugerðarumhverfi sé stöðugt. Víðtækur stöðugleiki er því forsenda blómlegs atvinnulífs. Fullyrða má að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja hafi ekki verið stöðugt í gegnum tíðina þó að með bættri hagstjórn hafi dregið úr óstöðugleikanum. Til að ná fram stöðugleika er mikilvægt að hagstjórnartækjum sé beitt með samstilltum og réttum hætti. Má segja að í undanfarinni niðursveiflu hafi þetta tekist betur en oft áður. Góð skuldastaða hins opinbera ásamt verðbólguvæntingum við markmið Seðlabankans hafa gefið bæði hinu opinbera og Seðlabanka tækifæri til að beita opinberum fjármálum og peningamálum af þunga til að vinna gegn niðursveiflunni. 

Þó hagstjórnin undanfarið hafi verið betri en oft áður stendur eftir sú staðreynd að hagkerfið er að koma út úr einni mestu niðursveiflu sögunnar sem reynt hefur verulega á viðnámsþrótt atvinnulífsins. Í mótvægisaðgerðum hafa því miður ekki allir hagstjórnaraðilar gengið í takt. Má þar nefna skort á lóðaframboði að hálfu sumra sveitarfélaga sem þrýstir verðbólgu og vöxtum upp um þessar mundir. Einnig má nefna launahækkanir hjá hinu opinbera sem á tímabili núverandi lífskjarasamninga hafa verið langt umfram einkageirann. 

Undanfarin niðursveifla undirstrikar mikilvægi fjölbreytts efnahagslífs fyrir stöðugleikann. Hagkerfi sem byggir á fáum atvinnugreinum er líklegra til þess að verða fyrir sveiflum. Auka má stöðugleikann með því að fjölga stoðum gjaldeyrisöflunar. Í því ljósi er afar jákvætt að sjá vöxt hugverkaiðnaðar um þessar mundir. Sú grein er orðin ein af fjórum meginstoðum gjaldeyristekna þjóðarbúsins og gæti orðið sú öflugasta ef stjórnvöld kjósa svo. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór skref til að efla hvata og skilyrði til nýsköpunar. Mikilvægt er að næsta ríkisstjórn haldi áfram á þeirri braut. 

Eftir fáeina daga er gengið til alþingiskosninga. Átta af níu flokkum sem tóku þátt í kosningafundi SI svöruðu könnun sem sneri að þeim þáttum sem mest áhrif hafa á samkeppnishæfni fyrirtækja. Áhugavert og jákvætt er að allir átta flokkarnir sem svöruðu könnuninni áforma að skapa stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja á næsta kjörtímabili. Þessir flokkar eru Flokkur fólksins, Framsókn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og VG. 

Stjórnendur íslenskra iðnfyrirtækja vilja stöðugleika. Það eru skýr skilaboð til næstu ríkisstjórnar. Með aðgerðum sem auka stöðugleika efla stjórnvöld samkeppnishæfni atvinnulífsins, framleiðni eykst og efnahagsleg lífsgæði landsmanna batna. Látum næsta kjörtímabil verða tíma stöðugleika.

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 18. september 2021.