Snúa þarf hækkun langtímavaxta í lækkun

18. nóv. 2020

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um vexti í ViðskiptaMogganum.

Langtímavextir hafa verið að hækka hér á landi undanfarið. Hækkunin er alls ekki það sem hagkerfið þarf í þessu árferði og andstæð þeim markmiðum hagstjórnar að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Vextir hafa síðustu þrjá mánuði hækkað um nær eitt prósentustig sem verður að teljast umtalsvert. Vaxtahækkunin á sér stað á sama tíma og fyrirtæki og heimili landsins eru að takast á við einn dýpsta og snarpasta samdrátt í íslenskri efnahagssögu. Hún á sér einnig stað nú þegar dregur úr óvissu í kjölfar frétta af bóluefnum gegn COVID-19 sem hvetur til þess að farið sé af stað í auknar fjárfestingar. Vaxtahækkunin hægir því á efnahagsbatanum. Hækkun langtímavaxta dregur frekar úr innlendri eftirspurn, eykur dýpt niðursveiflunnar og ýtir undir fækkun starfa. Mikilvægt er að hagstjórnartækjum sé beitt til að snúa þessari óheillaþróun vaxtahækkunar í lækkun. 

Húsnæðisvextir að hækka í niðursveiflunni 

Tveir bankar hafa nú á stuttum tíma brugðist við hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði með því að hækka vexti sína á húsnæðislánum. Þróunin er dæmi um það hvernig hækkun langtímavaxta er að koma niður á heimilum landsins. Hækkun langtímavaxta dregur úr fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og atvinnusköpun á því sviði en nú þegar sjást umtalsverð merki um samdrátt í íbúðarbyggingum, sérstaklega á fyrstu byggingarstigum. Síðast hækkaði Landsbankinn vexti sína nú í vikunni um 0,15-0,2 prósentustig en áður hafði Íslandsbanki hækkað sína húsnæðisvexti. 

Orðum Seðlabankans þurfa að fylgja efndir 

Segja má að hækkun langtímavaxta undanfarið sé samspil tveggja samverkandi þátta. Umtalsvert aukinn halli á hinu opinbera á auknar lántökur þrýstir langtímavöxtum upp. Reiknað er með að halli ríkisins verði 269 ma.kr. í ár og 264 á næsta ári. Lánsfjárþörf ríkisins er því umtalsverð. Þó svo að ríkið sé ekki þegar farið í viðamikla útgáfu ríkisbréfa til að fjármagna hallann þá hafa væntingar um það þau áhrif að langtímavextir hækka. 

Seðlabankinn boðaði í mars og apríl síðastliðnum, þegar ljóst var í hvað stefndi með afkomu hins opinbera, að hann hygðist vinna á móti áhrifum hallans á langtímavexti með uppkaupum á ríkisbréfum fyrir allt að 150 ma.kr., svokallaðri magnbundinni íhlutun. Af því ætlaði bankinn að kaupa fyrir um 60 ma.kr. á þessu ári. Héldu væntingar um þessi kaup langtímavöxtum niðri um hríð. Lítið hefur hins vegar verið um efndir af hálfu bankans hvað þetta varðar en hann hefur einungis keypt bréf fyrir um ríflega tvo milljarða króna frá því hann boðaði þessar aðgerðir. Aftur hafa væntingar áhrif en lítil kaup bankans grafa undan trú fjárfesta á að hann ætli að fylgja eftir orðum sínum með aðgerðum. Afleiðingin er ofangreind hækkun langtímavaxta með slæmum áhrifum á efnahagslífið. 

Seðlabankinn þarf að vinna með stjórnvöldum 

Mikilvægt er að Seðlabankann beiti stýritækjum sínum til að snúa hækkun langtímavaxta í lækkun. Töf í þessu er kostnaður fyrir fyrirtæki og heimili í landinu og kemur ekki síst fram í því að atvinnuleysi heldur áfram að aukast. Með skjótum aðgerðum af hálfu bankans má hins vegar tryggja lækkun langtímavaxta og milda þannig þessa djúpu niðursveiflu. 

Stjórnvöld hér á landi hafa búið vel að því að fremur góð skuldastaða ríkissjóðs í sögulegu og alþjóðlegu ljósi hefur gefið svigrúm til að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að vinna á móti neikvæðum efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs. Mikilvægt er að Seðlabankinn standi með stjórnvöldum í þeirri vegferð, ekki bara með lækkun stýrivaxta heldur einnig með því að beita stýritækjum sínum til þess að tryggja að aukinn halli ríkissjóðs birtist ekki í hækkun langtímavaxta og vinni þannig á móti meginmarkmiði hagstjórnar um þessar mundir sem er að skapa kröftuga efnahagslega viðspyrnu til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ViðskiptaMoggi, 18. nóvember 2020.