Snúum vörn í sókn

27. des. 2019

Við kveðjum nú krefjandi ár í íslensku atvinnulífi.

Við kveðjum nú krefjandi ár í íslensku atvinnulífi. Eftir langt hagvaxtarskeið hefur tekið við samdráttur með tilheyrandi áskorunum. Í megingreinum iðnaðar – byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði og hugverkaiðnaði – fækkaði starfsfólki á árinu samhliða óvissu og erfiðari rekstrarskilyrðum en undanfarin ár. Ef ekkert verður að gert má búast við frekari fækkun starfa og fyrirtækja. Lausnin felst í atvinnustefnu sem ætti að vera rauði þráðurinn í annarri stefnumótun stjórnvalda. Um það hafa Samtök iðnaðarins fjalla ítarlega. 

Há laun, háir raunvextir og há skattheimta í alþjóðlegum samanburði bitna á fyrirtækjum hér á landi, ekki síst þeim sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum eða sem keppa við innfluttar vörur. Kemur þetta niður á hagkvæmni rekstrar hér á landi og stöðu íslenskra fyrirtækja í erlendri samkeppni. Hingað til hefur gengi krónu rétt af samkeppnishæfni Íslands en það gerist ekki nú þar sem grundvallarbreyting varð á hagkerfinu á undanförnum áratug. Skuldir heimila, fyrirtækja og ríkis hafa lækkað umtalsvert, erlendar eignir eru umfram erlendar skuldir og aukin fjölbreytni er í útflutningi. Saman styrkir þetta stoðir hagkerfisins og áhrif þess koma nú fram í minni sveif lum. Fyrir vikið verður ekki leiðrétting á samkeppnisstöðunni og það fækkar störfum hér á landi. Það er óásættanlegt. 

Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun. Á sama tíma og Seðlabankinn lækkar vexti sína til að örva fjárfestingu þá skilar það sér ekki almennilega í lækkun vaxta til fyrirtækja. Fjármálamarkaðir virka ekki sem skyldi. Meira þarf til svo fjárfesting fari af stað og hlýtur Seðlabankinn að horfa til þess á komandi ári. Fyrirtæki þurfa að fjárfesta til að auka framleiðni og skapa ný tækifæri. Umtalsverð þörf er á innviðafjárfestingu eins og landsmenn hafa rækilega verið minntir á undanfarin misseri. Þá er tímabær íbúðauppbygging hægari en ella vegna ástands á fjármálamörkuðum sem og vegna óþarflega flókins regluverks. Þessu þarf að breyta á nýju ári. 

Raforkumál hafa verið mikið til umræðu undanfarið ár. Umgjörð raforkumála þarf endurskoðun enda miðast regluverk við veröld sem var. Samkeppni á markaðnum á að vera virk, hið opinbera þarf að móta eigendastefnu fyrir starfsemi orkufyrirtækja í opinberri eigu, Landsnet á að vera í eigu ríkisins en ekki orkufyrirtækja og kaupendur eiga að geta selt frá sér raforku sem þeir ekki nota svo dæmi séu tekin. Þetta – og fleira – hlýtur að koma fram í raforkustefnu sem stjórnvöld vinna nú að. Raforkuverð er eitt af því fáa sem hefur skapað Íslandi samkeppnisforskot en það hefur sannarlega minnkað. Með sama áframhaldi má allt eins búast við því að fyrirtæki sjái sér hag í því að draga úr starfsemi hér á landi og flytja starfsemi til annarra landa. 

Það eru því sannarlega blikur á lofti í íslenskum iðnaði. Einn af hverjum fimm á vinnumarkaði starfar í iðnaði, iðnaðurinn skapar 30% af gjaldeyristekjum og um fjórðung landsframleiðslu. Það eru því ríkir hagsmunir af því að íslenskur iðnaður sé öflugur. Með ákvörðunum okkar í dag höfum við áhrif á morgundaginn. Nýtum það til að efla stoðirnar enn frekar, skapa f leiri tækifæri hér á landi og auka þannig við lífsgæði okkar allra.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Fréttablaðið/Markaðurinn / Frettabladid.is, 27. desember 2019.