Sókn nýsköpunar er hafin

20. maí 2020

Við stöndum nú frammi fyrir stóru og krefjandi verkefni sem er að skapa tugi þúsunda nýrra starfa. 

Við stöndum nú frammi fyrir stóru og krefjandi verkefni sem er að skapa tugi þúsunda nýrra starfa. Hvernig förum við að því? Svarið liggur í því að skapa ný verðmæti. „Þetta er lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið,“ sagði Neil Armstrong á tunglinu fyrir um hálfri öld síðan. Þannig verða framfarir gjarnan. Með auknum stuðningi við nýsköpun tóku þingmenn í síðustu viku risastökk í átt að bjartari tímum aukinnar velmegunar. 

Nýsköpunar er þörf alls staðar, í öllum atvinnugreinum, á öllum tímum. Án hennar staðnar hagkerfið. Við höfum verið rækilega minnt á það síðustu vikur að fjölbreytt og öflugt atvinnulíf er grundvöllur öf lugs velferðarsamfélags. Með nýsköpun verða til aukin verðmæti úr takmörkuðum auðlindum. Á sama tíma skapast ný verðmæti úr hugvitinu einu saman. Nýsköpun rennir þannig styrkari stoðum undir atvinnuuppbyggingu, ýtir undir framþróun í rótgrónum atvinnugreinum og byggir upp nýjar greinar. 

Ný störf verða ekki til nema með því að skapa forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun. Með breytingunum á Alþingi í síðustu viku hækkar endurgreiðsluhlutfall rannsóknaog þróunarkostnaðar úr 20% í 35%. Þá hækkar þak endurgreiðslu úr 600 milljónum króna í 1.100 milljónir króna. Með fjáraukalögum voru framlög til nýs fjárfestingarsjóðs hins opinbera, Kríu, einnig hækkuð og heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í nýsköpunarsjóðum rýmkaðar. Þá var skattfrádráttur einstaklinga vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum aukinn, úr 50% af 10 milljón króna fjárfestingu í 75% af 15 milljónum króna. Framlög til Tækniþróunarsjóðs voru einnig nýlega aukin um 700 milljónir og 300 milljónum til viðbótar veitt í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Með þessum heildstæðu aðgerðum hefur verið tekin ákvörðun um að fjárfesta í framtíðinni. 

Til þess að tryggja kröftuga viðspyrnu efnahagslífsins þarf einmitt að taka úthugsaðar ákvarðanir í dag með sókn í huga og skýra framtíðarsýn að leiðarljósi. Púslið hefur tekið á sig mynd. Nú þegar fjármögnunarumhverfi nýsköpunar er að taka stakkaskiptum er því vert að huga að öðrum samliggjandi þáttum. Einn þeirra snýr að mannauði og þekkingu. 

Samtök iðnaðarins, í samvinnu við Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, setti á laggirnar vefsíðuna „Work in Iceland“ í september 2019. Vefurinn er heildstæð upplýsingagátt á ensku sem hefur það markmið að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað til búsetu og vinnu, í þeim tilgangi að laða fólk með sérfræðiþekkingu til landsins. Mikil tækifæri felast í því að efla þekkingu á ýmsum sérhæfðum sviðum hér á landi og taka á móti hámenntuðum sérfræðingum og frumkvöðlum. Skortur á sérfræðiþekkingu hefur verið hindrun í vegi vaxtar margra hátækni- og hugverkafyrirtækja. 

Getur verið að við höfum ekki enn uppgötvað og virkjað verðmæta útflutningsauðlind, samfélagið okkar? Íslenskt samfélag er einstakt á heimsvísu. Með því að markaðssetja íslenskt samfélag, og alla þá kosti sem það býr yfir, getum við laðað til okkar frumkvöðla og fólk með sérfræðiþekkingu og þannig stutt enn frekar við eflingu nýsköpunar hér á landi með tilheyrandi margföldunaráhrifum á verðmætasköpun. Við eigum ekki eingöngu í samkeppni við aðrar þjóðir um sölu á því sem er framleitt hér á landi, heldur einnig um hæfileikaríkt fólk. Samkeppnin um hugvit og þekkingu er hörð og samfélagsgerð okkar er forskotið í þeirri alþjóðlegu samkeppni. Hundrað erlendir sérfræðingar sem koma til Íslands með þekkingu og reynslu til að skapa ný verðmæti, með tilheyrandi snjóboltaáhrifum og fjölgun starfa, gætu verið meira virði en hundrað þúsund ferðamenn til lengri tíma. 

Með því að fjölga stoðum verðmætasköpunar og útflutnings leggjum við grunninn að traustum og sjálfbærum hagvexti og velmegun til langrar framtíðar. Hagkerfið verður með því einnig betur í stakk búið til að taka á móti áföllum af þeim toga sem við höfum nú þurft að gera, hvort sem um ræðir alþjóðlega fjármálakreppu eða heimsfaraldur. Sóknin felst í nýsköpun og virkjun hugvitsins, sem er ótakmörkuð auðlind. Tækifærin eru endalaus. Alþingi hefur með breytingum á umgjörð nýsköpunar markað brautina. Nú þarf að halda vegferðinni áfram. Sókn nýsköpunar er hafin.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

Fréttblaðið/Markaðurinn / Frettabladid.is, 20. maí 2020.