Stærsta efnahagsmálið

7. apr. 2021

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um efnahagslega framtíð á Íslandi í Markaðnum.

Á næstu tólf mánuðum verða teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um efnahagslega framtíð á Íslandi næstu ár og áratugi. Kólnun hagkerfisins var staðreynd fyrir heimsfaraldur kórónaveiru. Viðbrögð við heimsfaraldrinum hafa reynst hinu opinbera mjög kostnaðarsöm og nemur aukning skulda hátt í milljarði króna á hverjum virkum degi. Eftir skynsama hagstjórn undanfarinna ára er ríkissjóður vel í stakk búinn að taka á sig auknar byrðar en að lokum kemur að skuldadögum. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – er farsælasta leiðin fram á við. Leið aukinna, opinberra umsvifa og skattlagningar mun hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina. Með því að slíta fjötrana sem halda aftur af atvinnulífinu með markvissum hætti á næstu mánuðum verður hægt að hraða uppbyggingu og skapa ný og eftirsótt störf og aukin verðmæti. 

Ný sókn atvinnulífs er fram undan. Valið snýr að því hvort við viljum endurreisa hagkerfið sem var eða byggja upp fleiri stoðir með því að virkja hugvitið í meiri mæli. Áherslur Samtaka iðnaðarins í þeim efnum eru skýrar en á sama tíma og bæta þarf rekstrarskilyrði þeirra atvinnugreina sem fyrir eru þarf að byggja upp nýjan iðnað og sækja tækifærin. Þannig aukast lífsgæði landsmanna til lengri tíma litið, ekki bara til skemmri tíma. 

Nýlega gáfu Samtök iðnaðarins út skýrslu undir yfirskriftinni „Hlaupum hraðar“ þar sem fjallað er um efnahagsleg markmið til ársins 2025 og fjölmargar leiðir til að ná þeim markmiðum. Í stuttu máli þarf að fjölga störfum í einkageiranum um 29 þúsund á næstu fjórum árum og auka útflutning um 300 milljarða til að búa við sömu lífsgæði og voru áður en heimsfaraldur kórónaveiru skall á. Þetta er vissulega metnaðarfullt en raunhæft og má benda á að svipaður fjöldi starfa varð til á árunum 2015-2018. 

Slítum fjötrana 

Samkeppnishæfni er hugtak sem segir til um það hvernig skilyrði til rekstrar eru hér í samanburði við önnur ríki. Samkeppnishæfni ræðst ekki af einum þætti heldur er hún samspil margra ólíkra þátta. Úttekt Alþjóðabankans frá árinu 2017 staðfestir að þeir fjórir þættir sem helst hafa áhrif á framleiðni og þar með samkeppnishæfni eru menntun, sem snýr að mannauði fyrirtækja, efnislegir innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi sem lýtur meðal annars að regluverki og skattheimtu. Þess vegna líta Samtök iðnaðarins til þessara fjögurra málaflokka og umbóta í þeim til viðbótar við umhverfis- og orkumál sem tengjast iðnaðinum órjúfanlegum böndum. 

Með samhæfingu í þessum málaflokkum, með rauðum þræði eða sameiginlegu yfirmarkmiði næst mun meiri árangur og skilvirkni en með því að móta stefnu í hverjum málaflokki fyrir sig án tillits til annarra málaflokka. Þannig styðja áherslur í menntamálum við nýsköpun og innviðauppbygging við frekari verðmætasköpun svo dæmi séu tekin. Þetta er gjarnan nefnt atvinnustefna (e. industrial strategy) og hvetja Samtök iðnaðarins til þess að stjórnvöld horfi til slíkrar stefnu. 

Sækjum tækifærin 

Framfarir verða sífellt í tækni og nýr iðnaður lítur dagsins ljós. Regluverk tekur eðlilega mið af þeim veruleika sem ríkir þegar reglurnar voru settar en gerir ekki endilega ráð fyrir þróun og nýjum atvinnugreinum. Með því að bæta skilyrði, auka sveigjanleika regluverks,vera vakandi fyrir nýjum tækifærum og segja frá þeim möguleikum sem hér bjóðast hvetja stjórnvöld til atvinnuuppbyggingar og erlendrar fjárfestingar án þess þó að gera upp á milli greina. Stjórnvöld í öðrum ríkjum eru virkir þátttakendur í því að sækja tækifærin og það þurfa íslensk stjórnvöld einnig að gera. Þetta gerðu stjórnvöld á sjöunda áratug síðustu aldar þegar tækifæri þess tíma voru sótt. Nú þarf að sækja tækifæri okkar tíma sem liggja í nýsköpun, hugverkaiðnaði og í öðrum iðnaði sem tengist hröðum tækniframförum og loftslagsmálum. Þetta er stærsta efnahagsmálið.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 7. apríl 2021.