Starfsnám opnar dyr

8. apr. 2019

Nú stendur yfir sá tími þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar hjá fjölmennum hópi ungmenna sem eru að velja nám að loknum grunnskóla.

Nú stendur yfir sá tími þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar hjá fjölmennum hópi ungmenna sem eru að velja nám að loknum grunnskóla. Það er úr ótalmörgu að velja því 38 skólar eru að bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi og þar af eru hátt í 20 þeirra með starfsnámsbrautir. Það eru hvorki meira né minna en 100 mismunandi starfsnámsbrautir í boði hér á landi og því úr miklu að velja fyrir unga nemendur.

Til viðbótar við hefðbundið nám í löggiltum iðngreinum líkt og húsasmíði, gullsmíði og rafvirkjun þá hafa á undanförnum árum bæst við ýmsar spennandi nýjar greinar og má þar nefna tölvuleikjagerð, hljóðtækni og teiknimyndagerð.

Það hefur sýnt sig að nemendur sem koma úr starfsnámi hafa möguleika á háum tekjum og geta valið úr fjölmörgum atvinnutækifærum. En því má heldur ekki gleyma að með starfsnámi er hægt að taka samhliða fög sem leiða til stúdentsprófs ef hugurinn stefnir í áframhaldandi nám. Oft er það þannig að með starfsnám í farteskinu er hægt að halda á vit ævintýranna og fá vinnu hvar sem er í heiminum því námið opnar dyr víða um heim. Starfsnám getur líka gefið tækifæri til að stofna eigin rekstur og verða þannig sjálfstæður atvinnurekendi.

Starfsmenntað fólk er svo sannarlega eftirsótt á vinnumarkaði. Í nýrri könnun Samtaka iðnaðarins meðal félagsmanna sinna kemur fram að 73% félagsmanna vantar iðnmenntaða starfsmenn. Á síðasta ári jókst aðsókn í starfsnám um þriðjung þegar 16% þeirra sem luku grunnskólanámi hófu starfsnám í stað 12% árið áður. Það voru því rúmlega 650 nemendur sem hófu slíkt nám það árið. En betur má ef duga skal. Við þurfum að fjölga nemendum enn frekar í starfsnámi til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Ég vil hvetja foreldra þeirra ungmenna sem nú standa frammi fyrir þessari mikilvægu ákvörðun að velja framhaldsskóla að kynna sér starfsnám og allt það sem þar er í boði, til dæmis með því að fara inn á vefsíðuna nemahvad.is. Það er aldrei að vita nema þar leynist nám sem gæti einmitt fallið vel að áhugasviði ungra nemenda, opnað þeim nýjar dyr sem gæti leitt inn á farsælar brautir.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.

Morgunblaðið, 6. apríl 2019.