Sterk staða Íslands er ekki sjálfgefin

30. jún. 2025

Sigríður Mogensen, viðskiptastjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, skrifar um orkumál í Morgunblaðinu.

Nýleg greining Raforkueftirlitsins um þróun raforkuverðs á Íslandi sýnir svo ekki verður um villst að við höfum sofnað á verðinum þegar kemur að því að viðhalda samkeppnisforskoti Íslands með tilliti til raforkumála. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar eiga hrós skilið fyrir að setja af stað vinnu við greiningu á stöðunni og niðurstöðurnar ættu að vísa stjórnvöldum áfram veginn. 

Öruggur aðgangur að raforku á samkeppnishæfu verði er lykilþáttur í sterku og öflugu atvinnulífi sem myndar grundvöll að sterku samfélagi. Helsta skýring mikilla verðhækkana á raforku á umliðnum árum er sú að raforkuframleiðsla hefur hvorki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins né verið aukin til að skapa svigrúm fyrir ný tækifæri og fjárfestingar. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað varað við þeirri stöðu sem hefur nú teiknast upp og hvatt til aukinnar raforkuframleiðslu, í þágu verðmætasköpunar og þar með samfélagsins alls. 

Hækkandi raforkuverð áhyggjuefni 

Bæði raforkuverð og flutningskostnaður raforku hafa hækkað mikið og stefnir í enn frekari hækkanir á flutningskostnaði á næstu árum, sem nú þegar er mjög hár í alþjóðlegum samanburði. Stóriðjan er nú komin að ákveðnum sársaukamörkum hvað þetta varðar. 

Sterk staða Íslands er alls ekki sjálfgefin og greiningar staðfesta að það eru blikur á lofti. Hækkandi raforkuverð, íþyngjandi flutningskostnaður og flókið regluverk munu setja framtíð orkusækins iðnaðar á Íslandi í óvissu. Útflutningsverðmæti, skatttekjur, fjöldi verðmætra starfa og önnur afleidd jákvæð áhrif eru í húfi. 

Að auki eru ytri aðstæður ekki ákjósanlegar um þessar mundir. Brothætt staða í alþjóðamálum, stríð og vendingar í tollamálum skapa óvissu sem dregur niður væntingar og hefur þannig neikvæð áhrif á fjárfestingar og uppbyggingu. 

Framsýn iðnaðarstefna í verki 

En látum ytri aðstæður ekki stoppa okkur í að laga það sem við ráðum yfir. Sagan sýnir það svart á hvítu að við höfum áður tekið farsælar ákvarðanir sem hafa átt ríkan þátt í að efla lífskjör á Íslandi svo um munar.

Fyrsti vísir að iðnaðarstefnu á Íslandi var fyrir um 60 árum þegar þáverandi stjórnvöld sóttu tækifærin með því að laða hingað fjárfestingu sem fólst í uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Þó að ekki hafi beint verið talað um iðnaðarstefnu á þeim tíma var þetta svo sannarlega framsýn iðnaðarstefna í verki. Raforkan var beisluð og nýtt til að skapa verðmæti. Þau verðmæti eru í formi útflutningstekna, skatttekna, fjölbreyttra starfa og afleiddra jákvæðra áhrifa á samfélög og byggðir um landið. Orkusækinn iðnaður hefur á síðustu tuttugu árum orðið fjölbreyttari, með tilkomu kísilframleiðslu, gagnavera, líftækniframleiðslu og nú síðast landeldi. Það er jákvætt, dregur úr áhættu og styrkir hagkerfið. 

Forsætisráðherra hefur nú boðað mótun atvinnustefnu, sem einnig má kalla iðnaðarstefnu, en flest ríki í kringum okkur vinna eftir slíkri stefnu. Samtök iðnaðarins hafa lengi talað fyrir iðnaðarstefnu sem leiðarvísi fyrir aukna verðmætasköpun. Ef iðnaðarstefna vísar leiðina að fyrirsjáanleika í raforkuöflun til framtíðar, dregið verður úr flóknu regluverki fyrirtækja og stefnt verður að því að laða að fjárfestingu þá verður hún til góðs. Leiðarvísir stefnunnar ætti að vera aukin framleiðni, en framleiðni og lífskjör þjóða haldast í hendur.

 Látum það ekki gerast að við missum sterka stöðu Íslands í raforkumálum úr höndunum og fjárfestar og fyrirtæki ákveði að byggja upp annars staðar en á Íslandi. Það yrði mikið tap fyrir hagkerfið og samfélagið allt. 

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.

Morgunblaðið, 28. júní 2025.