Stöndum með sjálfum okkur og byrjum núna
Sameiginlegt verkefni allra landsmanna, fyrirtækja, stofnana og hins opinbera á næstu árum er að byggja upp orðspor Íslands.
Sameiginlegt verkefni allra landsmanna, fyrirtækja, stofnana og hins opinbera á næstu árum er að byggja upp orðspor Íslands. Takist það þá skilar það sér í aukinni eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu, vekur áhuga erlendra ferðamanna á landinu sem og áhuga erlendra fjárfesta á íslensku atvinnulífi. Þar með fæst meira fyrir vöru og þjónustu, meiri verðmæti en ella verða til og það skilar sér í auknum lífsgæðum.
Stefna hins opinbera í innkaupum skiptir miklu máli í þessu samhengi þar sem hið opinbera eyðir 45 krónum af hverjum 100 krónum í hagkerfinu. Framkvæmd útboða má ekki hygla innfluttum vörum á kostnað innlendra. Því miður hefur borið á því í útboðum hins opinbera að óskað er eftir tilteknum húsgögnum, jafnvel þekktri erlendri hönnun. Innlend hönnun og framleiðsla stendur þar með verr að vígi og fyrirætlanir um að byggja vöxt á hugviti, hönnun og framleiðslu ganga ekki eftir.
Val okkar hefur áhrif
Það vakti athygli nýlega þegar heilbrigðisráðuneytið valdi innflutt húsgögn inn í ráðuneytið. Með því að velja frekar íslenska framleiðslu og hönnun er stutt við íslenskt hugvit og hugmyndaauðgi. Með slíku vali taka stjórnvöld þátt í því að byggja upp iðnað á grundvelli handverks, hugvits og hönnunar auk þess að fjölga sendiherrum Íslands. Slík uppbygging tekur mörg ár en eins og í öllum ferðalögum þá þarf að leggja af stað til þess að komast á áfangastað. Byrjum núna. Því miður hafa mörg tækifæri farið forgörðum í gegnum tíðina því við ætlum alltaf að nýta næsta tækifæri sem gefst.
Stjórnvöld þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi og prýða opinberar byggingar sem fjöldi fólks leggur leið sína um með íslenskum húsgögnum, sem bera menningu landsins, handverki og hönnun gott vitni. Því miður hafa fjölmörg tækifæri ekki verið nýtt sem skyldi. Veröld – hús Vigdísar Finnbogadóttur er prýtt innfluttum húsgögnum. Hið sama á við um Hörpu, sendiráð Íslands víða um heim sem og húsnæði ráðuneyta hér á landi. Í forsætisráðuneytinu er skandínavísk hönnun áberandi svo dæmi sé tekið. Betur færi á því að íslenskt framleiðsla, hugvit og hönnun væri áberandi í opinberum byggingum. Þar liggja tækifæri til að fjölga sendiherrum íslensks iðnaðar og rækta í leiðinni orðspor Íslands.
Ráðamenn velji íslenskt
Danir hafa um áratuga skeið lagt áherslu á hönnun og framleiðslu. Þær áherslur eru svo inngrónar í þjóðarsálina að dönsk húsgögn prýða flestar opinberar byggingar, fyrirtæki og heimili þar í landi. Raunar hefur Dönum tekist svo vel til að dönsk húsgögn prýða margar byggingar hér á landi, ekki síst opinberar byggingar. Dönsk húsgögn eru þannig sendiherrar danskrar menningar og bera hróður landsins víða um heim.
Við eigum slíka sendiherra og þurfum að fjölga þeim. Það færi vel á því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands veldu frekar íslenska hönnun og framleiðslu umfram erlenda og sýndu þar með vilja í verki. Við þurfum öll að taka þátt í því að rækta vörumerkið Ísland og auka þannig eftirspurn eftir því sem við höfum upp á að bjóða. Það er ekki eftir neinu að bíða, hefjumst handa núna.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Morgunblaðið, 29. janúar 2018.