„Stórátak“ ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum orðin tóm

5. apr. 2018

Tafir í umferðinni hafa stóraukist á síðustu árum, öryggi vegakerfisins er lítið og slysatíðni er há. Fjárveitingar til vegamála hafa verið allt of litlar undanfarin ár. 

Tafir í umferðinni hafa stóraukist á síðustu árum, öryggi vegakerfisins er lítið og slysatíðni er há. Fjárveitingar til vegamála hafa verið allt of litlar undanfarin ár. Auka þarf fjárútlát til málaflokksins varanlega og stórátak þarf til að bæta úr þeim bráðavanda sem hefur orðið vegna fjársveltis undanfarinna ára. Í fjármálaáætlun sem birt var í gær er því miður ekki að finna vott af slíku átaki. Samkvæmt áætluninni verða framlög til samgöngumála viðlíka hlutfall af landsframleiðslu á tíma áætlunarinnar þ.e. næstu fimm árin og þau hafa verið síðustu fimm ár og langt undir þörf.

Samkvæmt áætluninni verða framlög til viðhalds og nýframkvæmda í vegamálum að meðaltali 0,7% af landsframleiðslu á tímabilinu. Er það langt undir langtímameðaltali hér á landi en þetta hlutfall var svo dæmi sé tekið 1,1% á tíu ára tímabilinu frá 2001-2010.  M.a. vegna vaxtar í tekjum af erlendum ferðamönnum undanfarin ár má fullyrða að við höfum aldrei áður byggt okkar velmegun jafn mikið og á undanförnum árum á vegakerfi landsins. Á sama tíma er ríkisstjórnin að leggja minna til þessara mála en nokkru sinni. Engar breytingar í því finnast í fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Ber það merki um ranga forgangsröðunin í ríkisrekstrinum. 

 

Mynd-1

Í ofangreindri áætlun er sagt að ríkisstjórnin sé að fara í „stórátak í samgöngumálum“ á næstu árum. Nafngiftin virðist vera komin til af því að áætlunin gerir ráð fyrir að frá árinu 2019 bætist við sérstök árleg framlög til þriggja ára upp á 5,5 ma.kr. Þessi þrjú ár nær hlutfall samgönguframkvæmda ekki langtímameðaltali og því er vægast samt öfugmæli að tala um stórátak í því sambandi. Þess má einnig geta að þegar þetta þriggja ára tímabil er liðið fer fjárfestingarhlutfallið í vegamálum niður í tæplega 0,6% af landsframleiðslu en einungis eitt ár á síðustu áratugum hefur hlutfallið farið lægra og var það árið 2012.  

Samgönguráðherra kynnti nýlega að yfir 220 milljarða króna vantar í viðhald og nýfjárfestingar í vegakerfinu. Því til viðbótar er að falla til árleg viðhaldsþörf upp á 11 ma.kr., þ.e. samtals 55 ma.kr. yfir tímabil ofangreindrar fjármálaáætlunar. Samtals eru þetta því yfir 280 milljarðar í viðhald og nýfjárfestingar. Í áætluninni er gert ráð fyrir að samtals fari um 114 ma.kr. í viðhald og nýfjárfestingar í samgöngumálum á tíma áætlunarinnar. Þetta er einungis tæplega 41% af þörf. Það er ekki hægt að kalla það stórátak.   

Samkvæmt öryggisúttekt EuroRap á íslenska þjóðvegakerfinu fengu um 3.000 km af íslenska þjóðvegakerfinu eina til tvær stjörnur af fimm mögulegum. Vegirnir eru stórhættulegir og verulega er vegið að öryggi vegfarenda. Fækkun slysa er forgangsmál og ráðast þarf í uppbyggingu innviða til að bæta þarna úr.

Aukinn tími í umferðinni skerðir lífsgæði og dregur úr framleiðni fyrirtækja. Umferð á höfuðborgarsvæðinu í febrúar 2018 jókst um 21% frá febrúar 2013. Samfara þessu jókst meðalferðatími til vinnu um 40% á árunum 2007-2016. Tölur fyrir árið 2018 hafa ekki verið birtar en líklegt er að meðalferðatími hafi aukist enn meir.

Í ofangreindri fjármálaáætlun er talað um grunngildin fimm sem krafa er gerð um í lögum um fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Þar er sjálfbærni efst á blaði. Það skýtur skökku við að leggja áherslu á sjálfbærni og ábyrgð gagnvart næstu kynslóð á sama tíma og skuldasöfnun vegna ófullnægjandi viðhalds og fjárfestinga í vegakerfinu er eins mikil og raun ber vitni. Uppsöfnuð viðhaldsþörf verður þá skuld næstu kynslóðar.

Mynd-2

Arðsemi samgöngufjárfestinga er mikil ef rétt er haldið á spilunum. Í því ljósi er umhugsunarvert að ekki sé beitt neinni kerfisbundinni forgangsröðun í veitingu fjár til þessa málafloks og engin viðleitni hjá ríkisstjórninni að breyta því m.v. ofangreinda áætlun. Með ábyrgri forgangsröðun er unnt að auka framleiðni samgöngukerfisins og í leiðinni hagkerfisins alls. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ingólfur@si.is, s. 8246105