Stórsókn til framtíðar

27. nóv. 2019

Ísland er auðlindadrifið hagkerfi. Það er staðreynd. 

Ísland er auðlindadrifið hagkerfi. Það er staðreynd. Lengst af voru landbúnaður og sjávarútvegur einu atvinnugreinar okkar en iðnaður kom síðar til sögunnar. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur einnig skipt sköpum á undanförnum árum og sýnir svart á hvítu mikilvægi þess að atvinnuuppbygging sé fjölbreytt. Hagvöxtur hér á landi hefur verið drifinn áfram af nýtingu auðlinda. Á sama tíma, og meðal annars vegna þessarar staðreyndar, hefur íslenskt hagkerfi hins vegar sveiflast mikið sögulega séð. 

Ljóst er að atvinnulífið mun þróast hratt og mikið á næstu árum, ekki síst vegna þeirra öru tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað. Spyrja má hvort Ísland muni skipa sér sess með þeim ríkjum sem standa uppi sem sigurvegarar þegar breytingarnar hafa tekið yfir og hvort tækifærið verði nýtt til að auka fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu og útflutningi. Atvinnugreinar sem byggja á hugviti og nýsköpun, tækni og hugverkum, hafa ótakmarkaða möguleika á að vaxa og dafna. Þær eru ekki háðar auðlindum heldur tryggja enn betri nýtingu auðlinda ásamt því að skapa ný verðmæti. Þær styðja við fjölgun vel launaðra sérfræðistarfa hér á landi og gera íslenskt atvinnulíf enn áhugaverðara fyrir framtíðarkynslóðir.

Upplýsingatækni, fjarskipti hvers konar, gagnaþjónusta, tölvuleikjagerð, líf- og heilbrigðistækni, sjávarútvegstækni og kvikmyndagerð eiga það sameiginlegt að byggja á nýtingu hugvits og þekkingu. Þessi þekking styður við aðrar atvinnugreinar og getur á sama tíma orðið verðmæt útflutningsvara. 

Þekkingin smitar einnig út frá sér. Dæmi um það er að fyrir tíu árum var eitt starfandi tölvuleikjafyrirtæki hér á landi en þau eru nú orðin 19. Öll stefna þau á að markaðssetja og selja tölvuleiki erlendis þar sem eftirspurn er gríðarleg og útflutningstekjur þjóðarbúsins geta orðið miklar þó við fáum einungis litla sneið af þeirri stóru köku. Tölvuleikjaiðnaður er orðinn stærri en kvikmynda- og tónlistariðnaður samanlagt á heimsvísu. 

Ráðherra iðnaðar og nýsköpunar kynnti í október síðastliðnum nýsköpunarstefnu fyrir Ísland með langtímasýn sem nær út fyrir einstök kjörtímabil og einstakar ríkisstjórnir. Það er fagnaðarefni. En aðgerðir þurfa að fylgja fögrum orðum stefnunnar sem hefur það markmið að gera Ísland að nýsköpunarlandi. Til þess að svo megi verða þurfa skilyrði til fjárfestinga í nýsköpun að vera með besta móti, Ísland þarf að komast á kortið sem land tækifæra í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi og stærri fyrirtæki þurfa að sjá hag sínum best borgið hér á landi, meðal annars til að stunda rannsóknir og þróun – sem leiðir til nýrra hugmynda og verðmætasköpunar. Ráðherra mun kynna fyrstu aðgerðir í átt að því markmiði að gera Ísland að nýsköpunarlandi á Tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið verður í Hörpu á morgun, fimmtudag. Þær aðgerðir eru í þágu samfélagsins alls, því án nýsköpunar verður lítil framþróun. Þar með er ekki sagt að spjótin standi eingöngu á stjórnvöldum en þau geta þó sent skýr skilaboð um hvert við stefnum og fylgt því eftir með skilvirkri og hvetjandi löggjöf og umgjörð um þennan málaflokk. 

Á Tækni- og hugverkaþingi SI verður ljósi varpað á þær atvinnugreinar sem byggja á hugviti og tækni. Þær eru flestar á upphafsmetrunum ef miðað er við aðrar rótgrónari atvinnugreinar á Íslandi. En íslenskur hugverkaiðnaður er tilbúinn í stórsókn og hefur margt fram að færa til að efla og bæta lífskjör hér á landi til framtíðar.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

Fréttablaðið/Markaðurinn / Frettabladid.is, 27. nóvember 2019.