Sveitarfélög axli ábyrgð á íbúðauppbyggingu

14. júl. 2021

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifar um íbúðauppbyggingu í Markaðnum.

Skortur á framboði íbúða hefur skaðleg áhrif. Því er mikill ávinningur af umbótum á íbúðamarkaði bæði fyrir almenning og atvinnulíf. Í nýlegri greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að uppsöfnuð íbúðaþörf hafi verið tæplega 4.000 íbúðir í upphafi þessa árs. Skýrist það af því að ekki hefur tekist að mæta þeirri miklu þörf sem hefur verið fyrir framboð á nýjum íbúðum á síðustu árum. Samtök iðnaðarins hafa hvatt til þess að íbúðauppbygging verði jöfn og stöðug til að mæta þörfum íbúa landsins hverju sinni.

Á sama tíma og þörfin fyrir nýjar íbúðir er mikil hefur verulegur samdráttur mælst í íbúðum í byggingu. Samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins voru íbúðir í byggingu 4.610 og fækkaði þeim um 1.131 á milli ára. Samdráttur hefur verið í fjölda íbúða í byggingu síðan í febrúar 2019 og nemur samdrátturinn 29 prósentum. Mjög fáar íbúðir eru á fyrstu byggingarstigum og er það áhyggjuefni vegna væntanlegs framboðs á fullbúnu íbúðarhúsnæði á næstu árum en gert er ráð fyrir að tæplega 3.000 íbúðir þurfi að bætast við á ári til að mæta þörf. Samkvæmt spá Samtaka iðnaðarins munu rétt ríflega 2.100 fullbúnar íbúðir koma inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum á þessu ári og rétt tæplega 1.800 íbúðir á næsta ári. Þó um sé að ræða nokkra aukningu frá því sem hefur verið á síðustu árum er ljóst að enn vantar mikið upp á að byggt sé í takt við íbúðaþörf.

Það er hægt að taka undir orð seðlabankastjóra þegar hann segir að verðhækkanir á íbúðamarkaði undanfarið séu til merkis um að framboð hafi ekki í við eftirspurn, það er að ekki sé nægjanlega mikið byggt af íbúðum. Réttilega bendir hann á að ástæðan liggi í ónægu framboði lóða, ekki síst af hálfu stærsta sveitarfélags landsins, Reykjavík.

Það blasir við að lóðaframboð þarf að vera meira og fjölbreyttara. Mikilvægt er að markaðurinn mæti þörfum íbúa á hverjum tíma en áhersla á uppbyggingu þéttingarreita í Reykjavík hefur ekki skilað möguleikum á hagkvæmri uppbyggingu fyrir almennan markað. Tryggja þarf að hagkvæm uppbygging eigi sér stað fyrir almenna íbúðamarkaðinn, en verði ekki aðeins í gegnum óhagnaðardrifin leigufélög.

Úrræðin til að bregðast við þessum vanda eru fyrst og fremst á valdi sveitarfélaganna sem spila stórt hlutverk þegar kemur að þróun íbúðamarkaðar. Að mati Samtaka iðnaðarins er mikilvægt að þau axli ábyrgð og bregðist við með auknu og fjölbreyttara framboði lóða og geri þannig sitt til að þörfum íbúa landsins fyrir íbúðarhúsnæði sé mætt.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

Markaðurinn, 14. júlí 2021.