Svona er lífið í álverum

6. júl. 2022

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar í ViðskiptaMoggann um lífið í álverunum.

„Það var svo gott að vera hér, að ég ákvað strax fyrsta árið að ég yrði hér og færi hvergi.“ Þannig komst Izudin Daði Dervic starfsmaður Alcoa Fjarðaáls að orði þegar ég tók viðtal við hann fyrir sýninguna Lífið í þorpinu, sem kynnt var á ársfundi Samáls í vor og stendur nú yfir í álveri Isal í Straumsvík.

Gott að búa á Íslandi

Daði er Íslendingum að góðu kunnur sem einn fremsti knattspyrnumaður landsins í rúman áratug. Hann kom til Íslands frá Bosníu-Herzegovínu árið 1990 til að spila fótbolta, varð bikarmeistari með Val og KR og spilaði með íslenska landsliðinu. Hann er giftur og á fimm börn, þar af tvö með Nisvetu konu sinni. Hún er íslensk eins og hann og kemur líka frá Bosníu-Herzegovínu. Hún hefur unnið hjá Alcoa Fjarðaáli í sex ár.

Hann fór fyrst austur á Reyðarfjörð til að þjálfa. „Ég ákvað að breyta aðeins til,“ segir hann og bætir við. „Svo er ég bara hér og verð hér. Það er gott að búa úti á landi, þetta er þægilegt lítið þorp, afslappað og ekki of mikill troðningur eða læti.“

Og hann lætur vel af því að vinna í álveri. „Ef ég á að vera hreinskilinn, þá hafði ég alltaf heyrt rosalega vel talað um Alcoa áður en ég byrjaði að vinna hér. Eftir að ég hóf störf hérna, þá held ég að þetta sé besta fyrirtæki sem ég hef unnið hjá. Það er afskaplega vel hugsað um starfsfólkið og allt frábært, frá a til ö.“

Lífið í álverum

Daði er einn af 21 starfsmönnum íslenskra álvera sem rætt var við fyrir sýninguna, en þar er dregin upp mynd af lífinu í því margbrotna samfélagi. Titillinn er sóttur í líkinguna við þorp, en í álverum ægir saman fólki með ólíkan bakgrunn, hvort sem horft er til reynslu, þekkingar eða menntunar, og þar eru unnin fjölbreytt störf.

Segja má að það einkenni starfsemi álvera, að aldrei er hlé á starfseminni, jafnvel þegar heimsfaraldur gengur yfir. Stór hluti þorpsbúa vinnur því á vöktum, þar sem nándin er mikil og sterk vináttutengsl myndast, enda vinnur fólk stundum á tímum sem aðrir verja með fjölskyldum sínum, hvort sem það eru jól eða páskar, og inn á milli gefast góð frí þar sem fólk getur stundað áhugamálin af mikilli elju og ástríðu.

Á sýningunni má einmitt fræðast um fjölskyldulífið og áhugamálin, þarna er glímukóngur, björgunarsveitarkona, hestamaður, náttúruhlaupari, dómari, skógarbóndi, húðflúrlistamaður, rappari og skífuþeytir, kvikmyndaleikstjóri – og svo mætti lengi telja.

Jákvæðni í garð starfa í álverum

Í skoðanakönnun sem Samál lét framkvæma hjá Capacent í lok síðasta árs kom fram að einungis um fjórðungur þjóðarinnar telur sig þekkja vel til starfsemi álvera. Þó er þetta ein af fjórum stoðum íslensks hagkerfis ásamt sjávarútvegi, ferðaþjónustu og hugverkageiranum.

Það segir sína sögu að í fyrra námu útflutningsverðmæti álvera um 300 milljörðum og innlend gjöld álvera 123 milljörðum, þar með talið áætluð raforkukaup upp á 62 milljarða, kaup á vörum og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja upp á 32 milljarða, laun og launatengd gjöld upp á yfir 22 milljarða til um 1.500 starfsmanna, en alls má áætla að bein og óbein störf í álverum sé hátt í 5 þúsund, opinber gjöld upp á 3,4 milljarða og styrkir til samfélagsmála upp á yfir 100 milljónir.

Og það er áhugavert að tveir þriðju þjóðarinnar telja að það sé gott að vinna hjá íslenskum álverum, fjórðungur tekur ekki afstöðu til þess og einungis 9% eru neikvæð í garð vinnu í álverum. Þá kom fram að 80% aðspurðra voru á því að störf í álverum hentuðu báðum kynjum.

Topp tíu möst

Ólöf Birna Torfadóttir handritshöfundur og leikstjóri er annar viðmælandi á sýningunni. Hún stundar kvikmyndagerð samhliða vinnu hjá Norðuráli, enda segir hún að fríin séu góð, og hefjast tökur á „Topp tíu möst“ í haust. Hún tekur undir að álver séu eins og þorp:

„Mér finnst þetta fínn vinnustaður, þægilegur mórall á vaktinni og ég hef gaman af því að keyra vélar og græja og gera. Það er líka áberandi á Skaganum að það þekkja allir álverið, hafa unnið þar eða þekkja einhvern sem vinnur þar. Mér finnst upplifunin af því jákvæð – margt fólk sem hefur unnið þarna í fleiri fleiri ár, þá hlýtur því að líða vel þarna.“

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

ViðskiptaMogginn, 6. júlí 2022.