Svona getur ríkið lækkað vexti

19. des. 2018

Ríkið getur lækkað vexti. Þetta er rökstutt í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út nýlega. 

Ríkið getur lækkað vexti. Þetta er rökstutt í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út nýlega. Fjármálakerfi á að þjóna heimilum og fyrirtækjum á skilvirkan og hagkvæman hátt og þar eru tækifæri til umbóta, tækifæri sem verður að nýta nú þegar leiðin til umbóta hefur verið vörðuð.

Bætt samkeppnishæfni Íslands er kappsmál allra landsmanna. Samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum þar sem aukin samkeppnishæfni leiðir til meiri verðmætasköpunar og þar af leiðandi aukinnar velmegunar. Skilvirkt, hagkvæmt og stöðugt starfsumhverfi er mikilvægur liður í að efla samkeppnishæfni og þar spilar fjármálakerfið stóran þátt.

Vextir hér á landi eru umtalsvert hærri en í nágrannaríkjum. Þeir landsmenn sem tóku lán hjá bönkunum í fyrra greiða 45 krónur í álagningu bankanna af hverjum 100 sem þeir greiða í vexti. Þetta er hátt í alþjóðlegum samanburði. Annar hluti skýringarinnar er sá að grunnvextir eru hærri hér en annars staðar, meðal annars vegna þess að efnahagsástand hefur almennt verið betra hér og stýrivextir Seðlabankans því háir í alþjóðlegum samanburði. Hinn hluti skýringarinnar er sá að álagning banka er meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Að hluta til er það vegna smæðar íslensku bankanna þriggja. Þó þeir séu stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða eru þeir litlir í samanburði við erlenda banka. Eftir stendur þó munur og getur ríkið beitt sér á a.m.k. fernan máta til að auka hagkvæmni og skilvirkni á fjármálamarkaði, fyrir utan að selja eignarhluti sína og tryggja samkeppni á markaði þannig að lægri álagning skili sér til heimila og fyrirtækja.

Í fyrsta lagi eru sértækir skattar á fjármálastarfsemi hærri hér á landi en annars staðar. Hér á landi eru sértækir skattar 0,55% af meðalstöðu eigna en eru um 0,07% að meðaltali í samanburðarlöndum skv. hvítbókinni. Stjórnvöld hafa áform um að lækka bankaskattinn úr 0,376% í 0,145% sem er engu að síður hátt í alþjóðlegum samanburði. Þessi lækkun vegur þó þungt og bent er á að fyrirhuguð lækkun bankaskattsins skili álíka lækkun á rekstrarkostnaði og 15% fækkun starfsfólks bankanna, sem jafngildir um 400 stöðugildum hjá bönkunum þremur. Það munar um minna.

Í öðru lagi er bent á að með sérhæfingu og útvistun verkefna megi hagræða í rekstri. Bankarnir þrír bjóða allir upp á alhliða þjónustu og er viðskiptalíkan þeirra að mörgu leyti flókið. Skýrsluhöfundar telja að með skýrri sérhæfingu og einfaldara rekstrarlíkani megi hagræða í fjármálakerfinu. Sem eigandi getur ríkið beitt sér þarna.

Í þriðja lagi er það staðreynd að íslensku bankarnir hafa verið munaðarlausir meira og minna frá stofnun þeirra árið 2008. Annars vegar vegna þess að eigendur þeirra máttu ekki skipta sér af rekstri þeirra og hins vegar þar sem eigendur vildu sem minnst skipta sér af rekstri þeirra. Þar með hefur skort nauðsynlegt aðhald eigenda á stjórnendur bankanna og því minni krafa en ella um skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Sem eigandi getur ríkið krafist aukins aðhalds í rekstri bankanna.

Í fjórða lagi má ná fram aukinni hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði með samstarfi um sameiginlega innviði þar sem stærðarhagkvæmni er mikil. Þetta hefur raunar verið til umræðu um nokkurra ára skeið en ekki orðið að veruleika. Markmið slíks samstarfs getur verið að draga úr kostnaði, draga úr kerfisáhættu, auka þægindi og lækka aðgangshindranir. Þarna getur ríkið beitt sér bæði sem eigandi banka sem og í gegnum regluverk.

Í hvítbókinni er leiðin að skilvirkari og hagkvæmari fjármálamarkaði vörðuð. Íslensku bankarnir eru að mestu leyti í eigu ríkisins sem auk þess setur leikreglurnar á markaðnum. Stjórnvöld hafa það nú í hendi sér að láta verkin tala og vinna að nauðsynlegum umbótum á íslenskum fjármálamarkaði. Til mikils er að vinna fyrir íslenskt samfélag.

Fréttablaðið/Markaðurinn, 19. desember 2018.