Þrennt sem eykur forskot Íslands

3. jan. 2023

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar í Kjarnann um áramót.

Ár áskorana er að baki og þær munu fylgja okkur inn í nýtt ár. Röskun aðfangakeðja, framboðshlið hagkerfa og orkukrísa í Evrópu hafa leitt til meiri verðbólgu en Ísland og önnur ríki hafa upplifað í áraraðir. Seðlabankar hafa hækkað vexti og fjármagnskostnaður hefur aukist. Staðan á Íslandi er um margt betri en annars staðar en þó Ísland sé eyja þá erum við ekki eyland og aðstæður erlendis hafa með tímanum áhrif hér á landi. Þrennt mun skila okkur sem samfélagi miklum ávinningi á næstu árum, vöxtur hugverkaiðnaðar, græn iðnbylting og aukinn stöðugleiki á húsnæðismarkaði.

Hugverkaiðnaður verði stærsta stoðin

Hugverkaiðnaður hefur vaxið mikið á undanförnum árum og framundan er enn meiri vöxtur ef aðstæður verða réttar. Drifkraftur frumkvöðla og aðgerðir stjórnvalda í þágu nýsköpunar undanfarin ár hefur skilað því að nú hafa orðið til fleiri öflug fyrirtæki sem framleiða og flytja verðmætar vörur og þjónustu út. Því til viðbótar eru efnileg fyrirtæki sem geta vaxið hratt á næstu árum. Eins og fyrsti áratugur aldarinnar var áratugur fjármálaþjónustu og annar áratugurinn var áratugur ferðaþjónustu verður þriðji áratugur aldarinnar áratugur hugverkaiðnaðar. Í greiningu sem Samtök iðnaðarins birtu snemma á árinu 2022 kemur fram að til þess að vaxa og sækja öll þau tækifæri sem blasa við þarf níu þúsund sérfræðinga til starfa á næstu fimm árum í hugverkaiðnaði. Það munar um minna. Hugverkaiðnaður velti 444 milljörðum króna á síðasta ári og er greinin því veltuhæst af útflutningsstoðunum fjórum. Útflutningstekjur árið 2021 námu 214 milljörðum króna eða 17% af útflutningi. Á næstu árum mun greinin vaxa enn frekar ef áætlanir ganga eftir og hefur hún alla möguleika á því að verða verðmætasta atvinnugreinin í lok áratugarins. Þar með verður hugvitið orðið verðmætasta útflutningsvara Íslands.

Græn iðnbylting bætir heilsu jarðar og efnahag Íslands

Fólk um heim allan vinnur nú að því að bæta heilsu jarðar með grænni iðnbyltingu sem draga mun úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Tvennt þarf til að árangur náist. Annars vegar þarf að afla meiri endurnýjanlegrar orku og ráðast í orkuskipti. Hins vegar þarf nýsköpun og innleiðingu nýrrar tækni þar sem framleiðsluaðferðum er umbylt þannig að losun dragist saman, útblástur fangaður og honum fargað eða hann nýttur í verðmætasköpun. Ríkisstjórn Íslands hefur sett metnaðarfull markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Miðað við núverandi forsendur þarf að auka raforkuorkuöflun hér á landi um 80% til þess að skipta út um milljón tonnum af olíu yfir í hreina orkugjafa. Þannig yrðu full orkuskipti að veruleika. Við höfum tækifæri til þess að vera í fararbroddi á heimsvísu í þessu metnaðarfulla verkefni en þá þarf að hefjast handa strax við orkuöflun enda tekur mörg ár að undirbúa nýjar virkjanir og reisa þær. Allar stofnanir ríkisins verða að hreyfa sig í takt ef þetta á að takast. Á vefnum orkuskipti.is má finna upplýsingar á einföldu máli um orkumál og orkuskipti og þar er vísað í greiningu verkfræðistofunnar Eflu sem sýnir að efnahagslegur ávinningur orkuskipta geti orðið um 1.400 milljarðar króna og það þarf fjárfestingar upp á a.m.k. 800 milljarða. Ef vel tekst til verður til þekking hérlendis sem hægt er að flytja út og þannig hjálpa öðrum að ná sínum markmiðum, rétt eins og gerðist þegar Ísland var í fararbroddi á heimsvísu í nýtingu jarðvarma. Grænvangur – samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir – var meðal annars stofnaður til þess að vinna að útflutningi á þessu sviði auk þess að vinna að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum.

Þau ánægjulegu tíðindi urðu á árinu að vegvísir að vistvænni mannvirkjum var kynntur eftir mikla samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs en þetta er fyrsta dæmið um að atvinnugrein setji sér markmið og heildstæða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Langþráður stöðugleiki á húsnæðismarkaði

Ójafnvægi á húsnæðismarkaði er kostnaðarsamt fyrir samfélagið og er til mikils að vinna að auka stöðugleika. Eftirspurn breytist hratt eftir kaupmætti, vaxtastigi og atvinnustigi svo dæmi séu tekin en stjórnvöld hafa einnig áhrif með hvötum eða hömlum. Framboðshliðin breytist hins vegar hægt þar sem það tekur um tvö ár að byggja íbúð frá grunni. Lausnin þarna felst í því að hraða leyfisveitingum, bjóða upp á lóðir eins og þarf, auka upplýsingagjöf um markaðinn og einfalda regluverk. Fjölmargir aðilar koma að uppbyggingu og þurfa allir að ganga í takt ef árangur á að nást, ríki, sveitarfélög og iðnaðurinn.

Stofnun innviðaráðuneytis voru góð skilaboð frá stjórnvöldum um að ríkisstjórnin væri staðráðin í því að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði. Hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur verið unnið frábært starf með uppsetningu gagnagrunns um húsnæðis- og byggingamál þannig að nú er mögulegt að fá rauntímaupplýsingar um fjölda íbúða í byggingu. Þau tímamót urðu á árinu að síðasta íbúðatalning Samtaka iðnaðarins (SI) fór fram en starfsmaður SI hefur frá árinu 2010 farið um landið og talið íbúðir í byggingu. Hafa það verið áreiðanlegustu upplýsingarnar um íbúðir í byggingu sem völ hefur verið á. Við fögnum því mjög að þurfa ekki lengur að telja og fögnum að sama skapi vel unnum störfum HMS.

Yfirlýsing innviðaráðherra um byggingu 35 þúsund íbúða á næsta áratug brýtur blað en henni hefur verið fylgt eftir með rammasamkomulagi við sveitarfélög og fljótlega munum við sjá fyrstu samninga við sveitarfélög um uppbyggingu íbúða næstu árin. Með þessu munu ríki og sveitarfélög vonandi ganga í takt og iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja við uppbygginguna. Þau ánægjulegu tíðindi urðu líka á árinu að Reykjavík tilkynnti að uppbygging Keldnaholts myndi hefjast árið 2025 og Mosfellsbær og Arion banki kynntu hugmyndir um mikla uppbyggingu á Blikastaðalandinu. Með þessu má því búast við stórauknu framboði lóða í takt við þarfir markaðarins.

Ekki skortir á tillögur um einföldun regluverks í byggingariðnaði en benda má á tillögur átakshópa og úttekt OECD á regluverki byggingariðnaðar. Þessum tillögum er verið að fylgja eftir og þarf að halda áfram á þeirri braut. Iðnaðurinn mun sannarlega leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu.

Bjart framundan ef rétt er á málum haldið

Þessi þrjú dæmi sýna að með markvissum skrefum í rétta átt má byggja upp og ná árangri til framtíðar. Öflugur iðnaður er undirstaða velsældar. Til verða eftirsótt störf um land allt, aukin verðmæti skapast og hagur landsmanna vænkast. Þetta er að sjálfsögðu háð því að við missum ekki sjónar á takmarkinu og höldum uppbyggingunni áfram. Þannig verður Ísland í fremstu röð.

Kjarninn, 1. janúar 2023.