Til fyrirmyndar

18. jún. 2019

Íslensk húsgögn prýða nú suðurstofu Bessastaða í fyrsta sinn og eru það kaflaskil. 

Íslensk húsgögn prýða nú suðurstofu Bessastaða í fyrsta sinn og eru það kaflaskil. Samtök iðnaðarins skoruðu á forseta Íslands að prýða Bessastaði íslenskum húsgögnum og var þeirri áskorun tekið af áhuga og velvilja forsetans. Í framhaldinu var unnið að útfærslu málsins og ber útkoman íslenskri hönnun og framleiðslu gott vitni. Við val á húsgögnum í suðurstofu Bessastaða var haft í huga að blandað væri saman samtímahönnun og eldri hönnun til að sýna þá miklu fjölbreytni sem einkennir íslensk húsgögn. 

Hönnun er samtal þriggja aðila sem eru hönnuður, framleiðandi og notandi. Það skiptir sannarlega máli að það samtal eigi sér stað hér á landi sem getur m.a. verið innblásið af sögu og menningu landsins. Það verður ekki nema áhugi og eftirspurn fari saman. 

Forsetinn er sannarlega fyrirmynd annarra, sér í lagi opinberra aðila eins og ráðuneyta, stofnana og safna sem hljóta nú að vilja hampa íslenskri hönnun og framleiðslu enn frekar. Hið opinbera eyðir 40 krónum af hverjum 100 krónum sem eytt er í hagkerfinu. Með vali sínu hefur hið opinbera því mikil áhrif. 

Byggir á traustum grunni 

Hönnun og húsgagnaframleiðsla hér á landi á sér djúpar rætur marga áratugi aftur í tímann. Árið 1972 voru hátt í 300 fyrirtæki starfandi við húsgagna- og innréttingaframleiðslu. Þeim fækkaði svo talsvert árin á eftir en í dag eru hér stöndug fyrirtæki í greininni sem geta framleitt vönduð húsgögn sem einkennast af gæðum. Hönnuðir stofnuðu með sér félag árið 1955 og fjölgaði hönnuðum talsvert næstu áratugi. Íslenskir hönnuðir hafa getið sér gott orð hérlendis og erlendis og úrval af íslenskri hönnun hefur vaxið með tímanum. 

Framsækni hefur einkennt íslenska hönnun og framleiðslu íslenskra húsgagna þegar nýr efniviður hefur verið notaður, nýstárleg form, ný áklæði eða húsgögnin mótuð á nýjan hátt. Það getur verið langur vegur frá fyrstu hugmynd og teikningu hönnuðar þar til húsgagnið hefur verið smíðað. Þegar handverk og hönnun fara vel saman tekst oft að skapa ný viðmið sem geta haft áhrif á margar kynslóðir. 

Mikilvæg menningaráhrif 

Lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið sögðu tunglfararnir fyrir hálfri öld síðan og settu þannig ferð sína í stærra samhengi. Þannig er tilkoma íslensku húsgagnanna á Bessastöðum angi af stærra máli sem snýr að ímynd Íslands og menningaráhrifum. Falleg hönnun og vönduð framleiðsla getur svo sannarlega eflt ímynd Íslands og aukið þannig eftirspurn á því sem héðan kemur. Með jákvæðri ímynd getum við því náð forskoti í samkeppni við aðrar þjóðir og skapað aukin verðmæti. Það er því til mikils að vinna með því að hvetja til frekari dáða á sviði hönnunar og vandaðrar framleiðslu og að sama skapi að hvetja til eftirspurnar eftir slíkum vörum. Það styrkir ímynd landsins og efnahag, er jákvætt fyrir umhverfi og styður við sjálfsmynd okkar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 15. júní 2019.