Trúverðugleikavandi Seðlabankans

26. nóv. 2018

Seðlabankinn á við trúverðugleikavandamál að stríða sem hefur birst í auknum verðbólguvæntingum að undanförnu. 

Seðlabankinn á við trúverðugleikavandamál að stríða sem hefur birst í auknum verðbólguvæntingum að undanförnu. Sést þetta í verðbólguvæntingum aðila á fjármálamarkaði, stjórnenda fyrirtækja og almennings. Verðbólguvæntingar eru nú yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans á alla mælikvarða. Hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað um tæplega 1½ prósentu frá því fyrir ári og var álagið til fimm og tíu ára 4,1-4,2% rétt fyrir fund peningastefnunefndar fyrr í þessum mánuði, langt yfir verðbólgumarkmiði bankans. Virðist því sem kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið peningastefnunnar hafi veikst umtalsvert. 

Mætir niðursveiflu með vaxtahækkun 

Ef peningastefnan hefði trausta kjölfestu í trúverðugu verðbólgumarkmiði þá ætti verðbólguskot, eins og nú er, ekki að hafa áhrif á verðbólguvæntingar til lengri tíma. Við slíkar aðstæður gæti Seðlabankinn sleppt verðbólguskotinu í gegn án hækkunar stýrivaxta. Það er hins vegar ekki staðan nú. Vegna aukinna verðbólguvæntinga finnur bankinn sig knúinn til að hækka stýrivexti á tíma og hagkerfið er að sigla inn í niðursveiflu en peningastefnunefnd bankans hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig fyrr í þessum mánuði. Raunar vildi einn aðili nefndarinnar hækka stýrivexti enn frekar eða um 0,5 prósentur samkvæmt fundargerð vaxtaákvörðunarnefndarinnar. Boðar nefndin frekari hækkun stýrivaxta ef staðan breytist ekki en samkvæmt sömu fundargerð segir nefndin að ef verðbólguvæntingar haldi áfram að aukast og festast í sessi umfram markmið muni það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Með öðrum orðum: frekari hækkun stýrivaxta. 

Áhættusöm blanda 

Verðbólgan er að aukast en ekki vegna þess að eftirspurn er meiri en framleiðslugetan í hagkerfinu heldur vegna þess að gengi krónunnar hefur lækkað umtalsvert frá síðastliðnu sumri. Gengi krónunnar er að veikjast, líkt og nefndin bendir á í fundargerð sinni, vegna tímabundinna fjárhagslegra erfiðleika í WOW air, versnandi viðskiptakjara, hægari útflutningsvaxtar ásamt vaxandi áhyggjum af komandi kjarasamningum. Allt eru þetta þættir sem tengjast hægari vexti hagkerfisins með einum eða öðrum hætti. Slíka verðbólgu getur verið afar varasamt að berja niður með tækjum peningastjórnunarinnar þar sem aðhald peningastefnunnar getur við þessar aðstæður aukið enn frekar á niðursveifluna og gert hana lengri en ella. Óvægin beiting stýrivaxta ofan í snöggkólnun hagkerfisins er því áhættusöm blanda. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Morgunblaðið, 24. nóvember 2018