Umbætur í íbúðauppbyggingu efla samkeppnishæfni

22. apr. 2021

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifar um íbúðauppbyggingu í Morgunblaðinu.

Uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur áhrif á samkeppnishæfni Íslands. Lóðaskortur, flókið regluverk, ósveigjanleiki og tafir valda því að uppbygging íbúðarhúsnæðis er ekki í takt við þarfir samfélagsins. Hraða þarf uppbyggingu með því að einfalda umhverfi byggingar- og mannvirkjagerðar þar sem skortur er á eignarhaldi og yfirsýn yfir málaflokkinn. Núverandi starfsumhverfi byggingarmála er óskilvirkt og óhófleg reglubyrði eykur flækjustig. Boðleiðir eru langar og ákvarðanataka tímafrek. Stór skref hafa verið tekin í jákvæða átt með sameiningu málaflokka hjá ráðuneytum og með stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þörf er á að ganga enn lengra. 

Aðkoma sveitarfélaga að einföldun í kerfinu er nauðsynleg enda fara þau með skipulagsvald, leyfisveitingar og síðast en ekki síst gerð húsnæðisáætlana. Talsvert ósamræmi er nú í afgreiðslu sveitarfélaga hvað varðar byggingareftirlit, skipulagsmál og túlkun þeirra á regluverkinu. Þá þarf ríkið jafnframt að hafa betri yfirsýn yfir málaflokkinn og hafa aukið íhlutunarvald í skipulagsmálum. 

Hvort tveggja, ríki og sveitarfélög, bera ábyrgð á því að hraða skipulagsferlum. Ríkið ber ábyrgð á að einfalda regluverk en sveitarfélög þurfa að tryggja skjóta afgreiðslu. Skipulagsferli er of þungt í vöfum og tekur of langan tíma. Tryggja þarf styttri afgreiðslutíma og koma í veg fyrir hamlandi skipulagsskilmála sem leiða til aukins kostnaðar og tafa við byggingu húsnæðis og hamla nýsköpun. Sveitarfélög og ríki þurfa að vinna saman að þessu markmiði. Aukinn sveigjanleiki í byggingarreglugerð, eftirlit byggt á flokkun mannvirkja, innleiðing rafrænnar stjórnsýslu og endurskoðun skipulagsferla munu stuðla að lægri kostnaði og aukinni skilvirkni við mannvirkjagerð en samhliða því þarf að auka framboð á nýjum lóðum.

Samtök iðnaðarins hafa lagt til umbætur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að ná enn frekari árangri. Í fyrsta lagi þarf að framlengja átakið „Allir vinna“, a.m.k. út árið 2022. Í öðru lagi þarf að tryggja stöðuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með því að auka framboð á nýju byggingarsvæði, bæta rafræna stjórnsýslu, tryggja aðgengi að gögnum og stytta tímafresti. Í þriðja lagi þarf að innleiða rafræna byggingargátt. Í fjórða lagi þarf að koma í framkvæmd fyrir lok árs 2021 tillögum átakshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2019. Í fimmta lagi þarf að endurskoða lagaumhverfi skipulagsmála og hraða skipulagsferlum sveitarfélaga. Í sjötta lagi þarf að sameina embætti byggingarfulltrúa víða um land og samræma vinnubrögð sveitarfélaga. 

Árangur í íbúðauppbyggingu styður við nýsköpun og frekari verðmætasköpun. Með þessum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

Morgunblaðið, 22. apríl 2021.