Umbætur í innviðauppbyggingu efla samkeppnishæfni

16. apr. 2021

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Reynir Sævarsson, formaður Eflu og FRV, skrifa um innviðauppbyggingu í Fréttablaðinu.

Uppbygging innviða hefur áhrif á samkeppnishæfni Íslands. Það er óhugsandi að ímynda sér íslenskt samfélag án innviða á borð við samgöngur, veitur, orkuvinnslu og -flutning, skóla og sjúkrahús. Saman mynda þessir innviðir lífæðar samfélagsins sem eru nauðsynlegar undirstöður samkeppnishæfs efnahagslífs. Hagkvæmir, skilvirkir og áreiðanlegir innviðir sem þjóna þörfum atvinnulífs og heimila skila sér í aukinni samkeppnishæfni núverandi og framtíðar atvinnugreinum og þar með aukinni velmegun og betri lífsgæðum fyrir íbúa.

Innviðakerfið hér á landi er umfangsmikið. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi kemur fram að endurstofnvirði þeirra er tæplega 4.500 ma.kr. eða 155% af landsframleiðslu. Umfang kerfisins er meira en í mörgum öðrum ríkjum sem endurspeglar mikilvægi þess fyrir verðmætasköpun hagkerfisins. Skýrslan sýnir að ónóg fjárfesting í innviðum hér á landi hefur valdið því að ástand þeirra er víða slæmt og uppsöfnuð viðhaldsþörf talsverð eða um 420 ma.kr. Horfur eru víða ekki góðar og í heild er ekki reiknað með því að ástand innviða batni litið til næstu 10 ára.

Samtök iðnaðarins hafa lagt til umbætur í uppbyggingu innviða til að ná enn frekari árangri. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að nýfjárfestingar og viðhald í innviðakerfinu verði aukin. Leggja þarf áherslu á að auka viðhald á innviðum sem eru með mesta uppsafnaða viðhaldsþörf og í versta ástandinu og að nýfjárfestingar verði í innviðum sem skapa mestan þjóðhagslegan ávinning. Í öðru lagi þarf að nýta samvinnuleið hins opinbera og einkaaðila við uppbyggingu innviða og flýta þannig þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu. Ná þarf samningum um slík verkefni á árinu 2021. Í þriðja lagi þarf að breyta samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í innviðaráðuneyti til að gera ákvarðanatöku skilvirkari í málefnum innviða.

Árangur í innviðauppbyggingu styður við nýsköpun og frekari verðmætasköpun. Með þessum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Reynir Sævarsson, formaður Eflu og Félags ráðgjafarverkfræðinga.

Fréttablaðið, 16. apríl 2021.