Umbætur í nýsköpun efla samkeppnishæfni

28. apr. 2021

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, skrifar um nýsköpun í Markaðnum.

Fjárfesting í nýsköpun hefur áhrif á samkeppnishæfni Íslands. Ísland á að vera í fremstu röð meðal þjóða heims þegar kemur að nýsköpun og þarf að styrkja þjóðarbúið í harðri alþjóðlegri samkeppni á þessu sviði enda er hugvit án landamæra. Á árinu 2020 áttu sér stað mikilvægar umbætur á sviði nýsköpunar. Ber þar hæst hækkun á hlutfalli og þaki á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Fleira kom til. Nýr hvatasjóður frumkvöðlafjárfestinga, Kría, var festur í lög og framlög til Tækniþróunarsjóðs aukin. Þessar aðgerðir voru mikið framfaraskref og hafa þær þegar haft áhrif, enda er um að ræða jákvæða, efnahagslega hvata til fjárfestingar í nýsköpun á forsendum markaðarins. Fjölmörg dæmi eru til að mynda um fyrirtæki í hugverkaiðnaði sem réðust strax í auknar fjárfestingar í kjölfar hækkunar á endurgreiðslum. Hafði það í för með sér að ný, verðmæt störf urðu til. 

Nýsköpun í atvinnulífi leggur grunninn að sköpun verðmætra og eftirsóttra starfa. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum og hjá litlum og stórum fyrirtækjum. Aðgerðir til að örva nýsköpun eru nauðsynlegar til að styrkja útflutning, en gjaldeyristekjur þjóðarbúsins þurfa að aukast verulega til að halda í við, og efla, lífskjör til framtíðar. Þetta verður einungis kleift með virkjun hugvits, nýsköpun, nýjum útflutningi og nýjum leiðum til að vinna aukin verðmæti úr takmörkuðum náttúruauðlindum þjóðarbúsins. Umgjörð og hvatar til nýsköpunar á Íslandi ættu því að fá veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, enda mun fjárfesting í nýsköpun ráða úrslitum um framtíðarlífskjör hér á landi. 

Meira þarf að koma til á þessu sviði til að íslenskt hagkerfi verði í ríkari mæli drifið áfram af fjárfestingu í nýsköpun. Það er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að auka þurfi fjölbreytni í íslensku efnahagslífi, sem er samhljóma mati Samtaka iðnaðarins. Nú er rétti tíminn til að byggja upp íslenskan hugverkaiðnað. Samtök iðnaðarins hafa lagt til umbætur á sviði nýsköpunar til að ná enn frekari árangri. Í fyrsta lagi þarf að gera hækkun þaks og endurgreiðsluhlutfalls vegna rannsóknaog þróunarkostnaðar ótímabundið. Í öðru lagi þarf að hækka skattafrádrátt vegna fjárfestinga einstaklinga í sprotafyrirtækjum úr 75% í 100% til að virkja einkafjármagn enn frekar í fjárfestingar í frumkvöðlastarfsemi. Í þriðja lagi þarf að auka framlög til Tækniþróunarsjóðs og taka mið af mælanlegum markmiðum um úthlutunarhlutfall, þannig að framlög taki mið af eftirspurn. Með þeim hætti er unnt að bregðast við háu atvinnuleysi og tilheyrandi aukinni aðsókn í sjóðinn hverju sinni. Í fjórða lagi þarf að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til Íslands með rýmkun á heimild til skattafrádráttar og einföldun ferla. Í fimmta lagi þarf að markaðssetja Ísland á breiðari grunni, sem nýsköpunarland og beina því sérstaklega að fjárfestum, frumkvöðlum og erlendum sérfræðingum. 

Árangur í nýsköpun styður við frekari verðmætasköpun. Með þessum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.

Markaðurinn / Frettabladid.is, 28. apríl 2021.