Umbætur sem auka framleiðni bæta lífsgæði

28. jún. 2021

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um samkeppnishæfni í Vísbendingu.

Undirstaða bættra lífskjara er aukin framleiðni. Lykillinn að aukinni framleiðni er bætt samkeppnishæfni. Með aukinni framleiðni verða störfin verðmætari. Aukin framleiðni er grundvöllur vaxtar kaupmáttar til lengri tíma. Spurningin um hvernig við aukum framleiðni er því spurningin um hvernig við aukum lífsgæði til framtíðar. Sóknarfæri felast í umbótum á sviði samkeppnishæfni sem leiða til aukinnar framleiðni. Hversu vel tekst til ræður þróun lífskjara.

Í Peningamálum 2/2021, riti Seðlabankans, er í rammagrein 3 bent á að dregið hafi úr framleiðnivexti á síðustu áratugum. Þetta er áhyggjuefni horft fram í tímann og ljóst að með sama áframhaldi verður ekki innistæða fyrir auknum lífsgæðum nema til komi umbætur sem leiða til aukinnar framleiðni. Þeir málaflokkar sem helst hafa áhrif á framleiðni og þar með samkeppnishæfni eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi fyrirtækja. Þá hafa umhverfis- og loftslagsmál fengið aukið vægi og er fyrirsjáanlegt að aðgerðir á þeim vettvangi skipta máli fyrir samkeppnishæfni þjóða.

Tækifæri í umhverfismálum

Hagvöxturinn þarf að vera sjálfbær - þörfum samtímans verður að mæta án þess að dregið sé úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum. Við höfum lært af reynslunni og þurfa umhverfismálin að vera leiðarljós í stefnu stjórnvalda um aukna hagsæld.

Framleiðnin ákvarðar m.a. hversu vel okkur tekst að nýta takmarkaðar auðlindir til að auka lífsgæði. Við þekkjum þetta af nýtingu okkar auðlinda hvort sem er til lands eða sjávar. Á margan hátt hefur ágætlega tekist til að nýta tækifærin. Að hluta hefur það falist í fjárfestingum í innviðum og tækni, nýsköpun, aukinni menntun og bættu starfsumhverfi fyrirtækja sem starfa á þessum sviðum og öðrum. Einnig höfum við lært að best sé að nýta auðlindirnar með sjálfbærum hætti – hugsa um meira en velmegun núlifandi kynslóða.

Þessi vegferð hefur alið af sér sérfræðiþekkingu, öflug fyrirtæki og verðmæt störf víðar en í greinum sem byggja beint á auðlindanýtingu. Ýmis fyrirtæki í framleiðsluiðnaði eru t.d. gott dæmi um þetta. Þannig hafa umbætur í átt að aukinni samkeppnishæfni og aukinni framleiðni skapað sjálfstæða uppsprettu gjaldeyristekna og verðmætasköpunar til hagsbóta fyrir þjóðina. Áhersla á umhverfismál skapar tækifæri til að nýta hugvit og sköpunargáfu til að þróa nýja tækni og aðferðir til að gera hlutina öðruvísi og betur.

Efling nýsköpunar og hugverkaiðnaðar

Takmarkaðar auðlindir setja skorður á vöxt þeirra greina sem á þeim byggja. Það er sérstakt umhugsunarefni fyrir þjóð líkt og þá íslensku sem hefur byggt sitt lífsviðurværi að stórum hluta á nýtingu náttúruauðlinda. En lífskjör þjóðarinnar markast ekki af þessum auðlindum einum þó að það takmarki getu viðkomandi greina til vaxtar. Framleiðni má auka með því að skapa störf í nýjum greinum þar sem verðmætasköpun vinnuaflsins er meiri en í þeim greinum sem fyrir eru í hagkerfinu.

Vöxtur hugverkaiðnaðar hér á landi er gott dæmi um þetta. Um er að ræða útflutningsstoð þar sem framleiðni er mikil og laun eru há í samanburði við aðrar greinar. Þetta er stoð sem byggir fyrst og fremst á hugviti og hugverkum. Ljóst er að tækifærin til frekari uppbyggingar hugverkaiðnaðar eru til staðar en greinin hefur verið í sókn hér á landi og er orðin ein af fjórum meginstoðum gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Hugverkaiðnaður, sem að miklu leyti er drifinn áfram af fjárfestingu í nýsköpun, hefur alla burði til að stækka frekar á komandi árum og verða burðarstoð í verðmætasköpun hér á landi. Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref í að efla hvata og skilyrði til nýsköpunar. Vísbendingar eru um að fjárfestingar í nýsköpun hafi aukist talsvert en með því eru fyrirtæki landsins og fjárfestar að fjárfesta í hagvexti framtíðar. Fjárfestingar í rannsóknum og þróun leiðir til þess að nýjar vörur koma á markað, ný tækni verður til, framleiðni eykst og ný verðmæti skapast. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir aðgerðir til að örva nýsköpun á þessu kjörtímabili en betur má ef duga skal. Aðgangur að fjármagni hefur hingað til verið ein helsta hindrunin í vexti og uppbyggingu hugverkadrifinna fyrirtækja og sprotafyrirtækja. Meginhindrunin sem blasir nú við er skortur á aðgengi að sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum.

Stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi

Aukin framleiðni merkir að framleiðslugeta hagkerfisins eykst án þess að kostað sé til aukinni nýtingu framleiðsluþátta. Aðgerðirnar miða þá að því að styrkja framboðshlið hagkerfisins. Slíkar aðgerðir fela m.a. í sér að skapa starfsumhverfi sem er stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt. Stöðugleikinn skapar fyrirsjáanleika og eykur fjárfestingu í þáttum sem auka framleiðni. Til að ná fram stöðugleika er mikilvægt að hagstjórnartækjum sé beitt með samstilltum og réttum hætti. Einnig er mikilvægt að tryggja fjölbreytileika efnahagslífsins og gjaldeyrissköpunar. Fullyrða má að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja hafi ekki verið stöðugt í gegnum tíðina þó að með bættri hagstjórn hafi dregið úr óstöðugleikanum.

Aðgerðir að hagkvæmara starfsumhverfi felast í að draga úr umsvifum hins opinbera og auka við mikilvægi og virkni markaðsaflanna til að nýta sem best framleiðsluþættina. Þetta felur í sér að draga úr útgjöldum hins opinbera, lækka skatta á fyrirtæki og vinnuafl – á borð við tryggingagjald – og bæta þannig nýtingu vinnuaflsins og auka fjárfestingu.

Aðgerðir sem miða að því að auka skilvirkni, t.d. með því að gera regluverk einfalt og skýrt og eftirlitið skilvirkt, eru til þessa að auka framleiðni. Stuðla þarf að heilbrigðri og virkri samkeppni þar sem öll fyrirtæki starfa eftir sömu leikreglum. Opinn og sveigjanlegur markaður með vörur, þjónustu, vinnuafl og fjármagn er lykilatriði.

Menntun sem mætir þörfum atvinnulífs

Aðgerðir stjórnvalda sem styðja beint við framleiðni framleiðsluþátta eru einnig mjög mikilvægir. Meðal þess er að tryggja menntunarstig vinnuaflsins og að það mæti þörfum atvinnulífsins. Á sama tíma þurfa fyrirtæki að tryggja nægt framboð eftirsóknarverðra starfa. Öflugt menntakerfi leiðir saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins á skilvirkan og hagkvæman hátt. Mikilvægt er að menntakerfið aðlagist að tæknibreytingum framtíðar. Menntunarstig hvers samfélags hefur veruleg áhrif á hagsæld þess.

Stórstígar framfarir hafa átt sér stað í því að auka menntunarstig hér á landi á síðustu áratugum. Þær breytingar hafa haft áhrif til aukinnar framleiðni. Þeirri þróun er ekki lokið. OECD hefur bent á að hér á landi séu vísbendingar um færnimisræmi á vinnumarkaði og er það í samræmi við niðurstöðu árlegrar könnunar Samtaka iðnaðarins meðal félagsmanna sinna. Fleiri iðnmenntaða vantar á vinnumarkað sem og fleiri tæknimenntaða á háskólastigi. Aukin sókn er nú í þessar greinar. Um er að ræða afleiðingar af sameiginlegu átaki atvinnulífs og stjórnvalda til að auka veg iðn- og starfsnáms sem segja má að séu einar mestu umbætur sem orðið hafa á þessu sviði um áratuga skeið. Hátt hlutfall atvinnuleysis meðal háskólamenntaðra er hins vegar umhugsunarefni í þessu sambandi. Ljóst er að veruleg tækifæri felast í því að draga enn frekar úr færnimisræmi á vinnumarkaði.

Öflugri innviðir

Annað dæmi um aðgerðir til að styðja beint við framleiðslugetu hagkerfisins er fjárfesting hins opinbera í innviðum. Traustir innviðir eru undirstöður framleiðslugetu hagkerfisins. Sterkir innviðir auka möguleika fyrirtækja til að skapa verðmæti. Framleiðni má auka með því að fjárfesta í innviðum, t.d. með fjárfestingum í ýmsum tækjum og tólum en einnig með fjárfestingum í ýmsum mannvirkjum á borð við vegi, brýr, flugvelli, veitukerfi, sjúkrahús og skóla. Við uppbyggingu og viðhald innviða þarf að hafa framleiðni þeirra að leiðarljósi, þ.e. hvað þeir leggja til verðmætasköpunarinnar. Viðhaldi innviða þarf að vera vel sinnt en ófullnægjandi viðhald getur dregið úr framleiðni og veikt samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Kerfi innviða hér á landi er talsvert umfangsmeira en í flestum öðrum löndum. Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga kemur fram að endurstofnvirði þess er um 155% af landsframleiðslu sem er hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Endurspeglar það mikilvægi kerfisins og stóran þátt þess í framleiðslugetu þjóðarbúsins. Ónóg fjárfesting og viðhald innviða hér á landi undanfarinn áratug eða svo hefur hins vegar valdið því að ástand þeirra nú er víða óviðunandi, afkastageta þeirra ekki næg og uppsöfnuð fjárfestingarþörf talsverð. Í ofangreindri skýrslu kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða sé umtalsverð hér á landi eða 420 ma.kr.. Mikil tækifæri eru á þessu sviði til að gera betur og auka þannig framleiðni og lífsgæði.

Núverandi átak stjórnvalda til innviðauppbyggingar og aukins viðhalds er skref í rétta átt. Tryggja verður hins vegar að innviðauppbyggingu og viðhaldi sé sinnt vel litið til lengri tíma. Í því sambandi er einnig afar mikilvægt að einfalda umhverfi byggingar- og mannvirkjagerðar. Núverandi starfsumhverfi byggingarmála er óskilvirkt og óhófleg reglubyrði eykur flækjustig og dregur úr framleiðni. Lóðaskortur, flókið regluverk, ósveigjanleiki og tafir valda því að uppbygging húsnæðis er ekki í takt við þarfir samfélagsins. Þessu þarf að breyta.

Leið vaxtar

Ísland hefur burði til að vera í fremstu röð hvað varðar samkeppnishæfni þjóða og framleiðni. Dregið hefur úr framleiðnivexti. Við höfum raunveruleg tækifæri til að gera betur – efla samkeppnishæfni og auka þannig getu atvinnulífsins til að skapa verðmæti. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný eftirsótt störf – er farsælasta leiðin. Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa. Með umbótum í menntun, innviðum, nýsköpun og öðru er varðar starfsumhverfi fyrirtækja má auka framleiðni. Áherslur SI í þessum efnum eru skýrar en á sama tíma og bæta þarf skilyrði þeirra atvinnugreina sem fyrir eru þarf að skapa skilyrði þannig að nýjar greinar byggist upp og tækifærin sótt. Þannig aukast lífsgæði landsmanna til lengri tíma litið. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Vísbending, 25. júní 2021.