Væntingar á nýju ári

2. jan. 2019

Fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði, átak í uppbyggingu innviða og húsnæðis, frekari umbætur varðandi nýsköpun og stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi eru meðal áherslumála sem nefnd eru í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um atvinnustefnu.

Fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði, átak í uppbyggingu innviða og húsnæðis, frekari umbætur varðandi nýsköpun og stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi eru meðal áherslumála sem nefnd eru í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um atvinnustefnu. Þessi markmið og fleiri miða að því að auka samkeppnishæfni Íslands og þar með lífsgæði landsmanna. Um þessar mundir móta stjórnvöld stefnu í ýmsum lykilmálaflokkum sbr. menntamálum, nýsköpun, orkumálum og innviðum þar sem horft er til langs tíma. Atvinnustefna snýr að því að bæta almenn skilyrði til rekstrar og þannig miðar hún að aukinni samkeppnishæfni. Atvinnustefnu eiga stjórnvöld að móta og hafa hana til hliðsjónar við aðra stefnumótun. Þannig fæst nauðsynlegt samhengi og fjármunir verða nýttir á hagkvæmastan hátt. 

Umbætur í skipulags- og byggingamálum verða að eiga sér stað á nýju ári í þágu hagkvæmari og hraðari uppbyggingar til lengri tíma. Tryggingagjald þarf að lækka frekar en ráðgert hefur verið. Stóra málið verður hvernig til tekst á vinnumarkaði en tryggja þarf mjúka lendingu hagkerfisins. Framleiðslufyrirtæki hafa glímt við erfið rekstrarskilyrði síðustu ár. Hár launakostnaður leikur þar stórt hlutverk en laun í framleiðsluiðnaði hækkuðu hér á landi um 140% mælt í evrum árin 2010-2018 en 20% á evrusvæðinu. Við blasir að samkeppnisstaða innlendra framleiðenda er verulega skert og hafa fyrirtæki sagt upp starfsfólki og jafnvel hætt starfsemi. Það er umhugsunarefni en verðmæt starfsemi og þekking hafa tapast í þessu sem kemur niður á fjölbreytni og verðmætasköpun þegar litið er til lengri tíma. 

Aðsókn í iðn- og starfsnám jókst umtalsvert á árinu þótt meira þurfi til, hvatar til nýsköpunar voru auknir og aukin áhersla á innviðauppbyggingu eru dæmi um það sem unnist hefur á árinu. Þetta eru mikilvæg skref í þá átt að efla samkeppnishæfni Íslands og auka þar með lífsgæði landsmanna. 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

ViðskiptaMogginn, 27. desember 2018.