Við erum reiðubúin í frekari uppbyggingu

25. jan. 2018

Mikil fjölgun byggingarkrana hefur líklega ekki farið framhjá landsmönnum, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil fjölgun byggingarkrana hefur líklega ekki farið framhjá landsmönnum, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtæki í bygginga- og mannvirkjagerð hafa staðið í ströngu við uppbyggingu gistirýmis ferðamanna á sama tíma og mikil þörf er á nýju íbúðarhúsnæði til að mæta almennri fólksfjölgun í landinu og búast má við að þörf verði á  nýju atvinnuhúsnæði sem færist nú fjær íbúðarbyggð. Þá hefur mikið hvílt á atvinnugreininni við uppbyggingu innviða sem hefur verið grundvöllur þess mikla vaxtar í þjónustuútflutningi sem einkennt hefur síðustu uppsveiflu.

Árangur atvinnugreinarinnar hefur að mörgu leyti verið mjög sveiflukenndur í gegnum árin og langvarandi þörf eftir iðnmenntuðu starfsfólki hefur líka leitt til umræðu sem hefur haft áhrif á ásýnd og ímynd greinarinnar. Umræða um mikilvægi þessarar atvinnugreinar fyrir samfélagið hefur því oft átt það til að gleymast í upptalningu á þeim mikilvægu stoðum atvinnulífsins sem við viljum byggja á, hlúa að og þróa til framtíðar. Leita þarf sameiginlegra leiða til að auka framleiðni í eftirlits- og leyfismálum í þeim tilgangi að stytta framleiðslutíma, auka sveigjanleika í kerfinu og lækka byggingarkostnað.

Til að átta sig á mikilvægi greinarinnar fyrir þjóðfélagið í heild og setja hlutina  í samhengi má nefna að á síðasta ári voru að meðaltali um 12.360 launþegar í greininni á fyrstu tíu mánuðum ársins sem er 17% aukning frá sama tíma 2016. Það eru auk þess ríflega 6,7% allra fyrirtækja í landinu sem starfa í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og greinin er ein af þeim greinum hagkerfisins sem greiðir hvað mest í opinber gjöld en byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð greiddi 7,3 ma.kr í opinber gjöld á árinu 2016 samanborið við 4,5 ma.kr. þegar fjárfesting fór að taka við sér í hagkerfinu í núverandi efnahagsuppsveiflu. Veltan í greininni hefur aukist sem nemur 14,4% á milli ára og er það ein mesta aukning meðal atvinnugreina hagkerfisins á þeim tíma. Veltan í greininni var um 7,2% af heildarveltu allra atvinnugreina hagkerfisins á þessum tíma í fyrra samanborið við 6,4% á sama tíma árið á undan.

Samtök iðnaðarins hafa þrátt fyrir aukin umsvif greinarinnar bent á að áfram er gífurleg þörf á frekari innviðauppbyggingu. Í nýlegri skýrslu Félags ráðgjafarverkfræðinga og samtakanna um innviði á Íslandi kemur m.a. í ljós að ástand vega og fráveitna er verst og uppsöfnuð viðhaldsþörf mjög mikil. Þá kemur í ljós að framtíðarhorfur hafna og innanlandsflugvalla eru ekki góðar og meiriháttar hindranir koma til með að takmarka getu þessara innviða til að uppfylla kröfur og þarfir framtíðarinnar. Á sama tíma er einnig þörf á fjölgun íbúða.  

Efasemdir hafa þó verið uppi um getu atvinnugreinarinnar til að standa undir frekari og tímabærri uppbyggingu en vert er hafa fyrirvara á umræðu um þolmörk greinarinnar til að takast á við nauðsynlega uppbyggingu. Því til stuðnings má t.d. nefna að þrátt fyrir gott gengi á atvinnugreinin langt í land með að ná þeim umsvifum sem við þekktum fyrir hrun. Er þar bæði horft til fjölda launþega, fjölda fyrirtækja og rekstrartekna á föstu verðlagi til ársins 2016. Þess má geta að árið 2008 voru 16.280 starfandi í greininni sem er nær 32% fleiri en á síðasta ári. Samtök iðnaðarins hafa bent á að á næstu misserum muni draga úr hagvexti og slakna á spennunni í hagkerfinu. Þetta merkir að það mun losna um framleiðsluþætti sem væri þá lag að nýta til frekari uppbyggingar. Það mun ekki standa á atvinnugreininni að mæta frekari eftirspurn.  

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins. 

ViðskiptaMogginn, 25. janúar 2018.