Vítamín fyrir hagkerfið

11. feb. 2020

Undanfarið hafa landsmenn verið minntir á það að þróun er ekki línuleg. Morgundagurinn verður ekki sjálfkrafa betri en dagurinn í dag.

Undanfarið hafa landsmenn verið minntir á það að þróun er ekki línuleg. Morgundagurinn verður ekki sjálfkrafa betri en dagurinn í dag. Eftir mikinn vöxt síðustu ára hefur hagkerfið kólnað, útflutningur dregist saman, fjárfestingar atvinnuveganna minnkað og ný útlán bankanna dragast verulega saman. Samdrátturinn kemur nú fram í gegnum vinnumarkaðinn en atvinnuleysi hefur aukist talsvert þar sem fyrirtækin hagræða og fækka starfsfólki. Minna er til skiptanna en tvö ár í röð minnkar landsframleiðsla á hvern íbúa landsins en slíkur samdráttur er fátíður. 

Vonir standa til þess að landið taki að rísa um mitt ár en það mun ekki gerast af sjálfu sér. Hið opinbera þarf að milda niðursveifluna með nauðsynlegum og arðbærum innviðafjárfestingum. Ef vel á að vera þarf að tilkynna um slíkar fjárfestingar á næstu vikum. Af nægu er að taka enda er mikil uppsöfnuð þörf fyrir styrkingu innviða um allt land. Sú þörf hefur verið ljós í nokkur ár auk þess sem ljóst hefur verið að hagkerfið myndi á endanum kólna. Því hljóta stjórnvöld að vera vel undirbúin og geta ráðist í arðbærar framkvæmdir með stuttum fyrirvara. 

Á sama tíma og Seðlabankinn lækkar stýrivexti til að blása lífi í glæðurnar gerir sama stofnun nú kröfur um aukið eigið fé bankanna. Með öðrum orðum þá er hægri fóturinn á bensíngjöfinni en sá vinstri á bremsunni. Þessu verður að breyta strax svo atvinnulífið fái nauðsynlegt súrefni. Ekki er eftir neinu að bíða.

Til lengri tíma litið þarf að efla nýsköpun enda skapar hún störf og gjaldeyristekjur. Fjölga þarf starfsmenntuðum á vinnumarkaði sem og tækni- og raungreinamenntuðum. Starfsumhverfi þarf að vera samkeppnishæft og færi vel á því að byrja á því að lækka fasteignagjöld og tryggingagjald. Með þessum aðgerðum sem hér eru nefndar fær hagkerfið vítamín og niðurstaðan verður fjölgun starfa og aukin verðmætasköpun til framtíðar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Fréttablaðið, 11. febrúar 2020.