Vorar í efnahagslífi landsmanna

3. mar. 2021

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um niðurstöður nýrrar könnunar meðal félagsmanna SI, í ViðskiptaMoggann.

Fyrirboðar vorsins eru af ýmsum toga. Könnun sem gerð var nú í febrúar á meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins boða að nú fari að vora í efnahagslífi landsmanna eftir harðan vetur. Benda niðurstöður könnunarinnar til þess að vöxtur verði í iðnaði á seinni helmingi þessa árs eftir samdrátt undanfarin misseri. Það eru afar jákvæðar fréttir en iðnaðurinn hefur burði til að verða drifkraftur efnahagsuppsveiflunnar nú með svipuðum hætti og í mörgum fyrri uppsveiflum. Greinin er stór – skapar ríflega fimmtung landsframleiðslunnar og starfa í landinu. Vöxtur iðnaðarins er því mikilvægur fyrir vöxt hagkerfisins, fjölgun starfa og bætt lífskjör í landinu.

Faraldurinn sem hefur verið orsök efnahagsniðursveiflunnar að mestu er á undanhaldi hér á landi. Slakað hefur verið á samkomutakmörkunum innanlands og daglegt líf er að færast í eðlilegra horf. Staðan erlendis er enn víða slæm. Bólusetning færir okkur hins vegar í jákvæða átt - nær hjarðónæmi og frelsi frá fjötrum veirunnar. Það er því ástæða til aukinnar bjartsýni.

En það er rétt að stilla væntingum í hóf. Niðurstöður könnunarinnar benda ekki til þess að efnahagsuppsveiflan verði kröftug í ár hvað svo sem verður á næsta ári. Fleiri iðnfyrirtæki eru að fara að ráða til sín starfsfólk á seinni helmingi ársins en þau sem eru að fækka starfsfólki. Munurinn er hins vegar ekki mjög mikill.

Þróun bóluefnis hefur átt sér stað með undraverðum hraða. Sóttvarnaraðgerðir hafa skilað góðum árangri hér á landi. Einnig hafa hagstjórnarviðbrögð dempað höggið. Gildir það bæði um aðgerðir í opinberum fjármálum og peningamálum. Vextir hafa verið lækkaðir og aðgengi að fjármagni bætt. Einnig hefur hið opinbera aukið við hallann svo um munar og örvað þannig innlenda eftirspurn. Ofarlega í forgangsröðun aðgerða hafa verið þættir sem styðja við samkeppnishæfni atvinnulífsins og draga þannig úr niðursveiflunni og mynda grunn að nýju hagvaxtarskeiði. Má þar nefna áherslu á nýsköpun, innviði, starfsumhverfi og menntun. Margt hefur því verið gert vel.

Við þurfum hins vegar að gera enn betur ef vinna á hratt bug á atvinnuleysi og öðrum neikvæðum efnahagslegum afleiðingum veirunnar. Vel er hægt að skapa hraðan hagvöxt hér á landi á allra næstu árum. Framtíðin hvað það varðar er í okkar höndum.

Niðursveiflan fyrir iðnaðinn hefur oft verið meiri og erfiðari en nú. Fyrirtækin í greininni eru af þeim sökum ekki jafn löskuð og við höfum stundum áður séð eftir niðursveiflu í íslensku efnahagslífi. Vekur það vonir um að þau verði sneggri til þegar færi gefst til að skapa störf og verðmæti. Og enn sneggri verða þau ef samkeppnishæfni þeirra verður tryggð með frekari aðgerðum. Ef vel er að málum staðið má skapa snarpan viðsnúning hagkerfisins.

Atvinnuleysið er mikið böl. Alls eru nú tæplega 22 þúsund atvinnulausir. Könnunin sýnir að 28% iðnfyrirtækja ætla að fjölga starfsfólki og 14% fækka litið til næstu tólf mánaða. Þetta er viðsnúningur frá því í apríl síðastliðnum þegar 37% ætluðu að fækka starfsfólki og 14% fjölga þeim litið til tólf mánaða. Það er afar jákvætt að sjá að iðnaðurinn hyggst fjölga starfsfólki. Það boðar að það fari að draga úr atvinnuleysinu.

Lífskjör framtíðarinnar munu byggja á fjölbreyttu atvinnulífi. Fjölbreytnin er grundvöllur stöðugleika og vörn gegn efnahagslegum áföllum. Iðnaðurinn er afar fjölbreytt grein. Iðnfyrirtækin í landinu eru fjölmörg, í framleiðsluiðnaði, byggingariðnaði og hugverkaiðnaði. Fyrirtækin starfa á innlendum og erlendum mörkuðum og eru þau af öllum stærðum og gerðum um allt land. Fjölbreytileiki iðnaðarins er mikill styrkur fyrir hagkerfið.

Iðnaðurinn hefur oft sýnt að hann er þrautseigur þegar á reynir. Hann hefur einnig oft sýnt að hann er drifkraftur stórstígra framfara. Vorboðinn sem nú sést í iðnaðinum eru því góð tíðindi og vísbending um að ekki sé langt í vorið í efnahagslífi landsmanna.      

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ViðskiptaMogginn, 3. mars 2021.