Vöxtur hugverkaiðnaðar eykur stöðugleika og framleiðni

9. júl. 2025

Aðalhagfræðingur og sviðsstjóri SI skrifa um vöxt hugverkaiðnaðar í Vísbendingu.

Fórða útflutningsstoð Íslands, hugverkaiðnaður, hefur alla burði til þess að verða sú verðmætasta í lok þessa áratugar. Við höfum það í höndum okkar hvernig mál þróast en skilvirkt og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi mun hafa mikið um framhaldið að segja og því hefur stefna stjórnvalda og lagasetning mikil áhrif. 

Vöxtur útflutningstekna hugverkaiðnaðar er ekki tilviljun. Hann er afrakstur stórhuga frumkvöðla og stefnumörkunar stjórnvalda sem hafa með skattahvötum ýtt undir fjárfestingu í rannsóknum og þróun, með öðrum orðum í nýsköpun. 

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 310 milljörðum króna árið 2024 og hafa þær ríflega fimmfaldast frá því árið 2009. Hugverkaiðnaður er fjórða stoð útflutnings á Íslandi en útflutningstekjur greinarinnar námu 16% af heildarútflutningstekjum Íslands á síðasta ári. Vöxtur hugverkaiðnaðar felur í sér aukna verðmætasköpun, aukinn efnahagslegan stöðugleika og fleiri háframleiðnistörf. Fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun er undirstaða hugverkaiðnaðar en hugverk og sérhæfður mannauður eru helsta auðlindir greinarinnar.

Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar helsta tækið 

Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar eru öflugasta tólið í verkfærakistu ríkisins til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Fjárfesting í rannsóknum og þróun sem hlutfall af landsframleiðslu hefur farið úr 1,7% árið 2013 í 2,7% árið 2023. Fjárfesting í rannsóknum og þróun hefur því aukist mikið hér á landi á síðustu árum og er nú sem hlutfall af landsframleiðslu yfir meðaltali ESB-ríkja en hins vegar minna en í Bandaríkjunum. Um 75% fjárfestingar í rannsóknum og þróun kemur frá fyrirtækjum. Stjórnvöld í mörgum ríkjum heims hafa markmið um að auka fjárfestingar í nýsköpun og þar er lykilatriði að virkja einkafjármagn. 

Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem upphaflega tóku gildi árið 2009, eiga stóran þátt í þessum mikla árangri. Skattahvatarnir voru auknir árið 2018 og aftur árið 2020. Í greiningum Samtaka iðnaðarins í kjölfar breytinga á lögunum kom skýrt fram hversu miklir kraftar voru leystir úr læðingi í atvinnulífinu með auknum skattahvötum, fyrirtæki juku fjárfestingu í nýsköpun, verðmætum háframleiðnistörfum fjölgaði og útflutningstekjur jukust í kjölfarið. 

Fyrirtæki fjárfestu fyrir samtals 85,8 milljarða króna í rannsóknum og þróun á árinu 2023 en opinberir aðilar, til að mynda rannsóknastofnanir, fyrir 13 milljarða króna. Uppskeran af fjárfestingu síðustu 15 ára í rannsóknum og þróun er að koma ríkulega fram í hagkerfinu um þessar mundir. 

Á síðasta ári rann yfir 90% af framlögum ríkisins vegna rannsókna og þróunar til iðnfyrirtækja sem endurspeglar þá staðreynd að nýsköpun á sér fyrst og fremst stað í iðnaði þó afrakstur hennar sé hagnýttur í flestöllum atvinnugreinum og á flestum sviðum samfélagsins. 

Nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki með sérstakri áherslu á skattahvata vegna rannsókna og þróunar. Starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins og háskóla-, menningar- og nýsköpunarráðuneytisins stefnir að því að skila tillögum að breytingum á kerfinu í lok þessa árs. Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til að viðhalda sterkum og fyrirsjáanlegum skattahvötum enda eru umræddir hvatar helsta tæki stjórnvalda til þess að hafa áhrif á fjárfestingu í nýsköpun sem skilar sér í aukinni verðmætasköpun, hagvexti og meiri framleiðni í hagkerfinu þegar fram í sækir. 

Hugverkaiðnaður skýrt skilgreindur 

Fyrirtæki í hugverkaiðnaði eiga það sameiginlegt að byggja á fjárfestingu í rannsóknum og þróun og sérhæfðum mannauði. Auðlindin í hugverkaiðnaði er þannig hugverk, mannauður og sérfræðiþekking. Hugverkaiðnaður er síður háður takmörkuðum náttúruauðlindum en aðrar greinar. Þetta skiptir máli því auðlindatakmarkanir hafa þannig ekki áhrif á möguleika greinarinnar til aukinnar verðmætasköpunar í framtíðinni. 

Eftir samvinnu við Samtök iðnaðarins hóf Hagstofa Íslands á árinu 2023 að birta tölur um veltu, útflutning og fjölda starfandi í hugverkaiðnaði. Var þetta umtalsvert framfaraskref en í gögnunum mátti í fyrsta sinn finna heildstæða samantekt á umfangi og þróun greinarinnar. 

Heildarfjöldi starfandi í hugverkaiðnaði voru í fyrra að jafnaði ríflega 18 þúsund. Er það 8% af heildarfjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði á því ári. Framleiðni er hærri í hugverkaiðnaði en almennt gengur og gerist í hagkerfinu. Í hugverkaiðnaði eru laun hærri en að jafnaði í öðrum greinum hagkerfisins. Endurspeglar það mikla framleiðni í greininni. Lífskjör þjóða ráðast af framleiðni. Tækifæri landsmanna til að bæta lífskjör sín felast því í vexti hugverkaiðnaðar til framtíðar. Hugverkaiðnaður gegnir lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi. Í greininni felast möguleikar hagkerfisins til frekari vaxtar og verðmætasköpunar. Greinin er fjórða stoð útflutnings hagkerfisins. Hún hefur skapað aukna fjölbreytni útflutningsatvinnuvega og þar með aukið stöðugleika í hagkerfinu sem er til hagsbóta fyrir atvinnulíf og landsmenn alla. Þessi fjölbreytni gerir hagkerfið sveigjanlegra og betur í stakk búið til að mæta ytri áföllum og sveiflum á alþjóðamörkuðum. Það er einnig styrkur hugverkaiðnaðar hvað hann er fjölbreyttur innbyrðis. Innan hans er t.d. lyfjaframleiðsla, líf- og heilbrigðistækni, fjarskipti og gagnaversþjónusta, upplýsingatækni, tölvuleikjagerð, hátækni og menntatækni. 

Ytri áskoranir og tækifæri ýta undir mikilvægið 

Áskoranir í alþjóðamálum hafa ekki farið fram hjá neinum. Stríðsátök víða um heim, tollastríð og auknir múrar í viðskiptum á milli landa kalla á endurskoðaða nálgun hvað varðar viðnámsþrótt samfélagsins og aukna áherslu á öryggis- og varnarmál. Þarna liggja einnig tækifæri en tækni sem hefur tvíþætt notagildi hefur vaxið í mikilvægi. Mörg fyrirtæki í hugverkaiðnaði þróa vörur og þjónustu sem geta nýst til að efla viðnámsþrótt Íslands en einnig í útflutning. 

Tollastríð skapar óvissu um framtíð alþjóðaviðskipta en þá er einmitt brýnna en nokkru sinni fyrr að útflutningur sé fjölbreyttur og sterkur. Nú stendur yfir ein stærsta iðnbylting síðari tíma, hröð þróun gervigreindar. Risastórt tækifæri blasir við Íslandi sem felst í því að sækja fjárfestingu á sviði gervigreindarvinnslu. Mörg önnur lönd hafa áttað sig á þessu og markvisst unnið að því að laða til sín fjárfestingu á þessu sviði. Það er mikilvægt fyrir samkeppnishæfni til framtíðar en ekki síður öryggis- og varnarhagsmuni landsins því vinnslu gervigreindar fylgir fjárfesting í stafrænum innviðum, líkt og fjarskiptasæstrengjum sem tengja Ísland við umheiminn. 

Sækjum tækifærin með skýrri atvinnustefnu 

Það er margt sem við ráðum ekki yfir eða við. En sumt er algjörlega í okkar höndum hér innanlands. Við getum tryggt áframhaldandi fjárfestingu í nýsköpun með þeim afrakstri sem henni fylgir með stöðugu og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í hugverkaiðnaði. Skýr vilji stjórnvalda getur birst í atvinnustefnu þar sem markmiðið er að fjölga háframleiðnistörfum. Ótvíræð skilaboð ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi skattahvata vegna rannsókna og þróunar sem yrðu festir í sessi til nokkurra ára í senn myndu þar leika stórt hlutverk og ítreka samtökin hvatningu til stjórnvalda að kerfið verði varðveitt og þróað með hagsmuni atvinnulífs og hagkerfisins í fyrirrúmi. 

Þá skiptir máli að halda vel á málum þegar kemur að alþjóðlegum sérfræðingum og í menntakerfinu, með aukinni áherslu á STEAM greinar á öllum menntastigum. Vöxtur hugverkaiðnaðar er óhugsandi án öflugs og sérhæfðs mannauðs og mun þurfa að sækja stóran hluta hans utan landsteinanna. Ísland hefur margt að bjóða og eru lífskjör og skilyrði hér með því besta sem þekkist í heiminum. Við eigum að nýta okkur þá einstöku stöðu til þess að kynna landið fyrir fjárfestum, öflugum frumkvöðlum og hámenntuðu og reynslumiklu fólki sem stað til þess að setjast að á. 

Gleymum því ekki að lítið og opið hagkerfi eins og Ísland á allt undir sterkum og fjölbreyttum útflutningi. Útflutningurinn þarf að vaxa ef við ætlum að standa undir áframhaldandi öflugu velferðarsamfélagi. Stærsta tækifærið í þeim efnum er í hugverkaiðnaði en með honum verður íslenskt hagkerfi sífellt meira drifið áfram af fjárfestingu í nýsköpun í stað takmarkaðra náttúruauðlinda.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.

Vísbending, 26. janúar 2025.