Formót Iðnþings Samtaka iðnaðarins 1999

- 26. febrúar 1999

Á formóti Iðnþings var athyglinni beint að nýjum framleiðsluháttum í iðnaði á Íslandi. Þar fjölluðu 5 valinkunnir stjórnendur í íslenskum iðnfyrirtækjum um nýjungar í rekstri og stjórnun í þeim fyrirtækjum sem þeir starfa. Þeir ræddu einnig spurninguna „Hvernig náum við árangri á heimsmælikvarða?

Á formóti Iðnþings var athyglinni beint að nýjum framleiðsluháttum í iðnaði á Íslandi. Þar fjölluðu 5 valinkunnir stjórnendur í íslenskum iðnfyrirtækjum um nýjungar í rekstri og stjórnun í þeim fyrirtækjum sem þeir starfa. Þeir ræddu einnig spurninguna „Hvernig náum við árangri á heimsmælikvarða?"

Fyrirtækin og forráðamenn þeirra voru valdir með það í huga að endurspegla ólíkar starfsgreinar en eiga það sammerkt að fyrirtæki þeirra standast, hvert á sínu sviði, samanburð við það besta sem þekkist í heiminum í dag. Stjórnendurnir voru:

  • Gunnar Örn Gunnarsson, forstjóri Kísiliðjunar hf.
  • Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf.
  • Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands
  • Jónas Frímannsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Ístaks hf.
  • Ingvar Kristinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Hugvits hf.

Gunnar Örn Gunnarsson hefur víðtæka reynslu af íslenskum framleiðsluiðnaði en auk þess að vera forstjóri Kísiliðjunnar starfaði hann áður sem framleiðslustjóri Marels og um árabil hjá ÍSAL. Gunnar hélt innsgangserindi og ræddi málið frá almennu sjónarhorni, m.a. nýja strauma og stefnur í framleiðslustjórnun og rekstri.
   Gunnar ræddi um kosti og veikleika vinnuafls á Íslandi, m.a. að sjálfstæði starfsmanna gæti bæði verið kostur og ókostur. Hann fjallaði um mikilvægi hvatningar og tengsl hennar við framleiðni og hagnað fyrirtækisins. Þá ræddi hann um reynsluna af svokallaðri "selluvæðingu" en markmið hennar er að auka ábyrgð og yfirsýn, samkennd og samhæfingu, minnka einingar, bæta vinnuumhverfið og auka framleiðni.

Össur hf. hefur verið í hópi 500 framsæknustu fyrirtækja í Evrópu sl. ár. Fyrirtækið er á heimsmælikvarða á sínu sviði og stenst samanburð við það besta sem nú þekkist í heiminum á sviði heilbrigðistækniiðnaðar. Fyrirtækið hefur nýlega flutt alla framleiðslustarfsemi sína til Íslands á ný eftir að hafa verið með hluta af starfseminnar erlendis. Fyrirtækið er um margt sérstakt og framleiðir m.a. sjálft töluverðan hluta eigin framleiðslubúnaðar og tækja. Jón Sigurðsson hefur veitt fyrirtækinu forstöðu sl. ár.
     Jón lagði áherslu á þróunarstarfið sem megin forsendu árangurs og nauðsyn þess að skapa fyrirtækjabrag (kúltur) sem þrífst á breytingum. Gera megi ráð fyrir að líftími vöru verði æ styttri og til þess að mæta því þarf stöðugt að vera þróa nýjar vöru, nýjar framleiðsluaðferðir og nýjar aðferðir í sölu- og markaðsmálum. Forsenda þessa alls er þekking og stjórnun þekkingar. Jón orðaði það svo að þeir hjá Össuri hf. "stefni að því að vita allt sem þeir viti" og bera sig saman við þá bestu.

Sláturfélag Suðurlands hefur um árabil verið í hópi framsæknustu fyrirtækja í erfiðri starfsgrein, í beinharðri samkeppni með flókna vörustjórnun og fjölda vörunúmera. Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri fyrirtækisins undir stjórn Steinþórs Skúlasonar en það átti í erfiðleikum fyrir nokkrum árum, m.a. vegna staðsetningar og húsnæðismála. Fyrirtækinu hefur tekist vel til í vöruþróun á undanförnum árum og hefur stöðugt verið að styrkja stöðu sína og vörumerkja sinna á innlendum markaði. Sláturfélagið er nú að hefja marktæk skref í útflutningi.
     Steinþór sagði að styrkleiki Sláturfélagsins lægi í frumkvæði, vöruþróun, sveigjanleika, viðbragðsflýti, réttu skipulagi og vörum sem seldar eru á grundvelli gæða og ímyndar. Hann greindi nokkuð frá vöruþróunarferli fyrirtækisins, undirbúningi og samræmingu verkþátta. Í þessu sambandi greindi hann sérstaklega frá góðum árangri með 1944 réttina og tilraunum á útflutningi fersks lambakjöts til Danmerkur sem lagt hefur grunninn að vaxandi útflutningi á næstu árum.

Íslensk mannvirkjagerð stendur um þessar mundir í miklum blóma og hefur hvert stórvirkið á fætur öðru verið unnið af miklu öryggi hvað gæði, tíma og kostnað snertir á síðustu árum. Nægir þar að nefna byggingu jarðganga, virkjana, hafna, álvera, íbúða- og framleiðsluhúsnæðis auk brúa og vegagerðar. Íslensk fyrirtæki í byggingariðnaði eru í vaxandi mæli farin að taka að sér stjórnun verkefna erlendis og eru vel á veg komin með að gera framtíðarsýn greinarinnar um „leiðandi stöðu í mannvirkjagerð á norðurslóðum," að veruleika. Ístak hf. er verðugur fulltrúi greinarinnar og Jónas Frímannsson er manna fróðastur um þróun hennar um langt skeið.
     Jónas rakti sögu og þróun Ístaks í íslenskri mannvirkjagerð og greindi frá því að þeir hefðu margt lært af erlendum samstarfsaðilum sínum í gegnum tíðina, ekki síst Svíum sem hann sagði mikla reglumenn á pappíra og skýrslugerð, sem er ekki hin sterka hlið okkar Íslendinga. Hann taldi slíka reglusemi skipta höfuðmáli við stórar verkframkvæmdir. Jónas vék einnig að mikilvægi góðrar stjórnunar og hæfni starfsmanna til að taka skjótar ákvarðanir þegar mikið liggur við. Hann sagði að skipuritið þyrfti að líkjast meira "greiðu en jólatré" og að því þyrfti að fylgja verulegt sjálfstæði einstakra stjórnenda.

Íslenskur hugbúnaðar- og upplýsingatækniiðnaður er í örum vexti og greinin á sér metnaðarfulla framtíðarsýn sem stóriðja framtíðarinnar á Íslandi. Íslensk fyrirtæki í þessari grein eru framsækin og hafa í auknum mæli haslað sér völl í útflutningi sem vex hröðum skrefum. Mörg þeirra hafa unnið sér virðingu á erlendum mörkuðum með margs konar viðkenningu sem sýnir að þau standast samanburð við það besta í heiminum um þessar mundir. Fyrirtækið Hugvit hf. er í hópi þessarra framsæknu fyrirtækja og hefur m.a. hlotið margs konar viðurkenningar IBM fyrir lausnir sínar í Lotus Notes. Ingvar Kristinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins, er formaður SÍH - Samtaka íslenskra hugbúnaðarframleiðenda - sem hafa unnið öturlega að framgangi greinarinnar við hlið Samtaka iðnaðarins.
     Ingvar beindi athyglinni að þekkingarstjórnun í sínu erindi og hvernig Hugvit hefur beitt hópskipulagi í allri starfsemi sinni og þróun. Markmið þekkingarstjórnunarinnar er að gera þekkinguna aðgengilega þar sem hennar er þörf og safna henni saman á kerfisbundinn hátt. Síðan þarf að móta þekkinguna þannig að þeir sem hana þurfa, hafi aðgang að henni þegar þörf krefur. Einnig er mikilvægt að starfsmenn séu ekki truflaðir af þekkingu sem er úrelt, ótímasett og gagnslaus. Hann vék síðan að mikilvægi gæðastjórnunar í allri sölukeðjunni. Þá vek hann að því sem þarf að bæta í rekstrarumhverfi upplýsingatæknifyrirtækja, en þar lagði hann einkum áherslu á fjárfestingu í menntakerfinu til að efla það sem þekkingarauðlind. Hann lagði einnig áherslu á að skattakerfið ætti frekar að virka hvetjandi en letjandi gagnvart þróun og nýsköpun. Þá lagði hann að lokum til að dreifikerfi Landssímans yrði endurskoðað með tilliti til þess að bæta möguleika upplýsingatæknifyrirtækja á að nýta það í sinni þjónustu.

Að loknum erindum sínum svöruðu framangreindir framsögumenn fyrirspurnum úr sal. Fundarmenn voru almennt ánægðir með þetta fyrirkomulag á formóti Iðnþings, sérstaklega með þá þekkingarmiðlun sem þar átti sér stað milli ólíkra fyrirtækja í Samtökunum.