Ályktun Iðnþings Samtaka iðnaðarins 1999

- 26. febrúar 1999

Aukin samkeppni og alþjóðavæðing gerir kröfur um hagræðingu í atvinnulífinu. Eina svarið sem fyrirtækin eiga við auknum launakostnaði og kröfum almennings um góða samfélagsþjónustu er aukin framleiðni. Kostnaðinum verður ekki velt út í verðlagið eins og áður var. Samkeppnin sér til þess.

Aukin samkeppni og alþjóðavæðing gerir kröfur um hagræðingu í atvinnulífinu. Eina svarið sem fyrirtækin eiga við auknum launakostnaði og kröfum almennings um góða samfélagsþjónustu er aukin framleiðni. Kostnaðinum verður ekki velt út í verðlagið eins og áður var. Samkeppnin sér til þess.

Viðbrögð fyrirtækjanna eru þau að innleiða nýja tækni, leggja meira í rannsóknar- og þróunarstarf og auka áherslu á markaðsstarfsemi. Einnig er áberandi tilhneiging til uppstokkunar í stærri og hagkvæmari rekstrareiningar með sameiningu. Íslensk fyrirtæki leita nú logandi ljósi að nýjum mörkuðum og nýrri tækni um allan heim. Lítið dæmi um þetta er þátttaka okkar í Europe´s 500 þar sem fundin eru sameiginleg einkenni þeirra frumkvöðla sem skarað hafa fram úr á mismunandi sviðum atvinnulífsins. Tilgangurinn er sá að læra af reynslu þeirra.

Sértækar aðgerðir stjórnvalda og verndarstefna víkja fyrir frjálsræði og almennum leikreglum. Þjónustustofnanir og hagsmunasamtök þurfa að fylgja þessari þróun og sama gildir auðvitað um stjórnsýsluna. Ýmis teikn eru á lofti um að þessi þróun sé hafin þótt hún gangi ákaflega mishratt.

Mikilvægt er að þessu sé fylgt eftir með markaðsvæðingu t.d. fjarskipta, hafna og orkufyrirtækja. Seinagangurinn á þessu sviði er farinn að skaða atvinnulífið vegna þess að þarna gilda ekki venjuleg markaðslögmál. Dæmi um þetta er að verðlagning rafmagns til iðnaðar hrekur æ fleiri fyrirtæki til að nýta olíu sem orkugjafa. Þetta gengur einnig þvert á markmið okkar og skuldbindingar í umhverfismálum.

Samtök iðnaðarins vilja að atvinnurekendur eigi sér einn sameiginlegan málsvara þar sem fjallað er um almenn starfsskilyrði fyrirtækjanna í landinu. Rjúfa þarf gamla múra sem byggðir voru upp utan um sérhagsmuni einstakra atvinnugreina. Hefðbundin atvinnugreinaskipting milli þjónustustofnana og ráðuneyta er einnig orðin úrelt. Tillaga um sameiningu sjávarútvegs-, landbúnaðar-, og iðnaðarnefnda í eina atvinnumálanefnd Alþingis er mikilvægt skref í þessa átt. Stjórnarráðið á að fylgja í kjölfarið með einu atvinnumálaráðuneyti.