Viðurkenning Verðlaunasjóðs iðnaðarins

- Afhent af forseta Íslands á Iðnþingi 26. febrúar 1999

Á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins 26. febrúar 1999 veitti hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands Helga Kristbjarnarsyni viðurkenningu úr Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir frumkvöðulsstarf á sviði iðnaðar.

Á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins 26. febrúar 1999 veitti hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands Helga Kristbjarnarsyni viðurkenningu úr Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir frumkvöðulsstarf á sviði iðnaðar.

Verðlaunasjóður iðnaðarins var stofnaður í mars árið 1976 af Kristjáni Friðrikssyni og eiginkonu hans Oddnýju Ólafsdóttur. Tilefnið var m.a. að þá voru liðin 35 frá stofnun Klæðagerðarinnar Últímu en einnig það að Kristján hafði óbilandi trú á íslenskum iðnaði og íslenskri hönnun. Honum fannst aldrei nógsamlega vakin athygli á hinum fjölmörgu íslensku uppfinningarmönnum. Stofnfé Verðlaunasjóðs iðnaðarins var húseign sem Últíma gaf og skyldi ágóðinn af eigninni verða verðlaunafé.

Kristján Friðriksson var fæddur 21. júlí 1912 að Efrihólum í Núpasveit í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann fluttist ungur til Reykjavíkur og brautskráðist úr Kennaraskóla Íslands árið 1932. Næstu árin var hann við kennslu í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Hann stofnaði og gaf út vikuritið Útvarpstíðindin um árabil auk þess að gefa út frumsamdar barnabækur. Hann gaf einnig út Vídalínspostillu og bókina Íslenska myndlist árið 1943 sem þá var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Árið 1941 stofnaði Kristján fataframleiðslufyrirtæki og verslun sem hann nefndi Klæðagerðina Últímu. Starfsemin óx og dafnaði um árabil og fyrirtækið framleiddi ekki einungis föt, heldur einnig fataefni, áklæði, gluggatjöld og gólfteppi. Kristján var einnig mikill áhugamaður um þjóðarbúskapinn og kynnti sér allt sem tiltækt var um sjávarútvegsmál og skrifaði ótal greinar og rit um kenningar sínar. Má þar nefna bókina Farsældarríkið og manngildisstefnan sem kom út árið 1974. Um tíma sat Kristján á Alþingi og einnig í borgarstjórn Reykjavíkur.

Verðlaunasjóður iðnaðarins hefur verið starfræktur í anda stofnenda hans í samstarfi við samtök í iðnaði og hefur með vissu millibili veitt viðurkenningar – oftast fyrir frumkvöðulsstarf á sviði iðnaðar. Samkvæmt upphaflegri stofnskrá sjóðsins er tilgangur hans að örva til dáða á sviði iðnaðar og jafnframt vekja athygli á þeim afrekum sem unnin hafa verið og unnin verða á því sviði. Ekki er tekið við umsóknum um verðlaun úr sjóðnum en við val á verðlaunahafa hefur sjóðstjórn einkum í huga eftirfarandi:

  1. Uppfinningar sem líklegar teljast til að koma íslenskum iðnaði að gagni.
  2. Einstaklinga og fyrirtæki fyrir happadrjúga forystu í uppbyggingu iðnaðar hvort sem er til innanlandsnota, sölu erlendis eða fyrir forystu á sviði iðnaðarmála almennt.
  3. Verðlaunin má einnig veita fyrir sérlega vel gerða iðnaðarframleiðslu sem fram kemur t.d. á iðnsýningum eða kaupstefnum.
  4. Þá má einnig veita verðlaun fyrir hönnun sem hefur tekist sérlega vel að dómi sjóðsstjórnar.

Ofangreind upptalning er gerð til leiðbeiningar fyrir sjóðsstjórnina um það hvað fyrir stofnendum vakti með stofnun sjóðsins.

Eftir að Samtök iðnaðarins voru stofnuð var stofnskrá Verðlaunasjóðs iðnaðarins endurnýjuð með lögum sem dómsmálaráðherra staðfesti árið 1996. Öll meginatriði sjóðsstofnenda voru þó látin halda sér óbreytt í hinni nýju stofnskrá.

Í ár voru í fyrsta sinn veitt verðlaun úr verðlaunasjóðnum samkvæmt hinni nýju stofnskrá. Sjóðsstjórnina skipa 5 fulltrúar: Sigurveig Kristjánsdóttir, skipuð af fjölskyldu Kristjáns Friðrikssonar, Örn Guðmundsson, frá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík, Þorsteinn Geirharðsson, tilnefndur af Formi Ísland og tveir frá Samtökum iðnaðarins, þeir Davíð Lúðvíksson og Haraldur Sumarliðason sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar.