Opinberar upplýsingar verði nothæfar

Haraldur Sumarliðason hélt að þessu sinni sína síðustu ræðu sem formaður SI og kom víða við. Efnahagsmál, þróun samtaka í atvinnulífinu, menntamál, upplýsingatækni og þekkingariðnaður voru meðal málefna.

Haraldur Sumarliðason hélt að þessu sinni sína síðustu ræðu sem formaður SI og kom víða við. Efnahagsmál, þróun samtaka í atvinnulífinu, menntamál, upplýsingatækni og þekkingariðnaður voru meðal málefna.

Efnahagsumræðan
Haraldur nefndi að stjórnarliðum yrði nú tíðrætt um ríkulegan hagvöxt, góðæri og aukna velmegun. Stjórnarandstæðingar á hinn bóginn töluðu um vaxandi aðstöðumun ríkra og snauðra, misskiptingu auðs og græðgina á verðbréfamarkaðinum. Staðan í efnahagsmálum væri einkennileg. Björtu hliðarnar væru mikil og vaxandi atvinna, lítið atvinnuleysi og vaxandi kaupmáttur. Dökku hliðarnar væru vaxandi innlend verðbólga, versnandi samkeppnisstaða og minnkandi arðsemi þeirra fyrirtækja sem eiga í hvað mestri samkeppni við erlenda aðila.

Bragabótar þörf
Haraldur ítrekaði að stöðugar og góðar upplýsingar um rekstrarstöðu hvers fyrirtækis væru einn af lykilþáttum þess að því væri stjórnað af skynsemi. Sama gilti um rekstur þjóðarbúsins og atvinnulífsins.

"Hið opinbera safnar gríðarmiklu magni upplýsinga frá fyrirtækjum landsins. Oft finnst manni að illa sé farið með þessar upplýsingar og þær ekki nýttar sem skyldi. Mörgum spurningum, t.d. um afkomu og launaskrið í iðnaði, er hægt að svara með því að vinna úr þeim gögnum sem skatturinn safnar, eins og með innheimtu staðgreiðslu- og virðisaukaskattskýrslna. En það er ekki gert. Þess í stað safna Hagstofan og Þjóðhagsstofnun þessum upplýsingum frá fyrirtækjum og niðurstaðan verður sú að "nýjustu tölur" eru í mörgum tilvikum orðnar margra ára gamlar þegar þær koma út. Hér verður að gera bragarbót."

"Samtök iðnaðarins telja," sagði Haraldur, "að beita þurfi öllum tiltækum ráðum til að auka framleiðni fyrirtækja hér á landi. Ekki síst telja Samtökin að gera þurfi hóflega kjarasamninga. Ljóst er að með launahækkunum undanfarinna ára hefur verið tekið meira út en innistæða er fyrir."

Samráð við atvinnulífið
Haraldur gerði að umtalsefni samskipti Samtaka iðnaðarins og stjórnvalda: "Til þess að ná árangri verðum við reiða okkur á samskipti við Alþingi, ráðherra og embættismenn. Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins hitta iðnaðarráðherra á reglulegum fundum einu sinni í mánuði til þess ræða þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni í starfsskilyrðum iðnaðarins."

Haraldur var ekki í vafa um að þessi samskipti gætu orðið hvorum tveggja til gagns: "Eðli málsins samkvæmt erum það við sem sækjum á stjórnvöld til þess að vinna málum okkar brautargengi. Stjórnvöld mættu þó oftar hafa frumkvæði að því að leita eftir samráði við atvinnulífið, spyrja álits og leita ráða hjá fyrirtækjunum og samtökum þeirra."

Breytt samtök
Haraldur sagði að Samtökin hefðu breyst. Verkefni á borð við gæðastjórnun og eflingu verk- og tæknimenntunar hefðu ekki verið fyrirferðarmikil fyrir nokkrum árum. Þetta taldi Haraldur eðlilega þróun því að Samtökin hlytu að breytast með iðnaðinum sem þau eiga að þjóna.

"Samtökin hafa t.d. að undanförnu varið umtalsverðum fjármunum til þess að innleiða gæðastjórnun í byggingariðnaði og munu smám saman þróa þá vinnu frekar og bjóða öðrum greinum staðlaðar lausnir og námskeið á þessu sviði. Innan fárra ára munu þeir, sem ekki starfa samkvæmt gæðakerfi, verða útilokaðir frá þátttöku í öllum stórútboðum. Gæðakerfið verður orðið að meistarabréfi framtíðarinnar - ekki vegna einkaleyfis eða vegna kröfu frá iðnaðinum heldur vegna kröfu markaðarins."

Sterkari samtök, lækkun félagsgjalda
Haraldur sagði að stofnun Samtaka atvinnulífsins væri djörf ákvörðun en ekki vandalaus: "Á næstu mánuðum mun reyna á samstöðu atvinnurekenda og vilja þeirra til samvinnu. Önnur prófraun, sem hin nýju Samtök atvinnulífsins þurfa að standast, er að sýna sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum. Samtök atvinnulífsins verða að reka sjálfstæða efnahagsstefnu óháð hinum breytilegu pólitísku vindum ella munu þau glata trausti félagsmanna og þar með tilgangi sínum."

Stjórnkerfið breytist ekki
"Samtökum atvinnurekenda hefur fækkað og unnið hefur verið að hagræðingu innan þeirra vébanda á undanförnum árum," sagði Haraldur. "Það eru því vonbrigði að innan stjórnkerfisins bólar ekkert á hliðstæðri þróun. Núverandi skipulag og verkaskipting ráðuneyta og stofnana byggist á úreltum viðhorfum um skiptingu atvinnulífsins í ólíkar ef ekki andstæðar fylkingar. Þessu verður að breyta því að þetta fyrirkomulag stendur ýmsum góðum málum fyrir þrifum. Nýjar greinar eiga hvergi samastað og hagræðing strandar á togstreitu milli ráðuneyta."

Tækniskólamál - verk- og tæknimenntun
Nú er liðið eitt og hálft ár frá því að Samtök iðnaðarins hófu virk afskipti af málefnum tæknimenntunar hér á landi.

Stofnað hefur verið "Undirbúningsfélag" til að leita samninga við menntamálaráðuneytið um rekstur Tækniskóla Íslands. Í stjórn félagsins sitja fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Alþýðusambandi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands og frá Rannsóknastofnunum atvinnuveganna. Félagið undirbýr nú samningaviðræður við menntamálaráðuneytið um þetta mál.

Ég er sannfærður um það mun leiða til þess að upp rís voldug menntastofnun sem verður eins og vítamínsprauta fyrir íslenskan iðnað," sagði Haraldur.

Nauðsynlegt væri að breyta almennt viðhorfum í þjóðfélaginu til tæknimenntunar, fá fleira gott, ungt fólk til að nema tæknigreinar: "Samtök iðnaðarins vilja stofna víðtækt hagsmunafélag með skólum og félögum sem málið varðar svo að verk- og tæknigreinar megi dafna."

Upplýsingatækni og þekkingariðnaður
Haraldur ræddi upplýsingatæknina, hraðan vöxt hennar og mikilvægi þessa nýiðnaðar fyrir iðnaðinn í heild: "Vöxtur upplýsingatækni og þekkingariðnaðar er ótrúlegur hvort sem litið er til veltu, hlutdeildar í þjóðartekjum, útflutnings eða mannafla. Það eru væntanlega fleiri en ég sem eiga erfitt með að átta sig á þessari öru þróun og þýðingu hennar hvort sem einstaklingar eða fyrirtæki eiga í hlut. Það er þess vegna ekki að ástæðulausu að þetta Iðnþing er helgað upplýsingatækni og þekkingariðnaði á Íslandi."

Haraldur nefndi að Samtökin sjálf yrðu að nýta nýja tækni í eigin rekstri og samskiptum við félagsmennina og þeim til framdráttar. Hann nefndi VIKING- verkefnið sem dæmi um slíkt. Ætlunin væri einnig að nota þessa tækni til þess að efla tengsl iðnaðarins við unga fólkið landinu og væri idnadur.is til vitnis um það.

Haraldur Sumarliðason hefur verið í forustu iðnaðarins á þriðja áratug, forseti Landssambands iðnaðarmanna frá 1985 og formaður Samtaka iðnaðarins frá stofnun 1993. Hann nefndi að þetta hefði verið tími mikilla breytinga og þakkaði félagsmönnum, samstjórnarmönnum sínum og starfsmönnum Samtakanna fyrir ánægjulega og trausta samvinnu þessi ár og óskaði Samtökunum iðnaðarins velfarnaðar á komandi tímum.

Sjá alla ræðu Haraldar Sumarliðasonar