Ályktun Iðnþings Samtaka iðnaðarins 2000
- 25. febrúar 2000
Með almennari leikreglum er fjölbreytni íslensks efnahags- og atvinnulífs sífellt að aukast. Hagvöxtur undangenginna ára skýrist ekki af vexti þeirra frumþátta sem drifu hagkerfið hér á árum áður. Í dögun nýrrar aldar er mannauðurinn í fyrirrúmi.
- Með hugviti er verðmætasköpunin aukin.
- Með menntun er hefðbundnu handverki breytt í hátækniframleiðslu.
- Með alþjóðavæðingu færist starfsumhverfi fyrirtækja í betra horf.
Í framþróun hagkerfisins undanfarið má merkja mikinn kraft sem hefur fært með sér margt jákvætt: Atvinnuleysi hefur minnkað til muna, framleiðnin aukist og kaupmáttur vaxið hratt. Hinu er ekki að leyna að vöxtur hagkerfisins hefur reynt mjög á þanþol þess. Miklar innlendar kostnaðarhækkanir hafa skaðað samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum. Verðbólgan hefur aukist og er nú miklu meiri en ásættanlegt er. Viðskiptahallinn er umtalsverður og ógnar efnahagsbata undangenginna ára.
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að áfram verði haldið á þeirri braut að markaðsvæða hagkerfið og færa umhverfi fyrirtækja hér á landi í það horf sem best gerist í heiminum. Launakjör þurfa að þróast hér í takt við framleiðni og vera í samræmi við það sem gerist í okkar nágranna- og samkeppnislöndum. Tæknivæðing og aukin menntun starfsmanna er besta leiðin til að bæta varanlega lífskjör þjóðarinnar. Að því vilja Samtök iðnaðarins vinna.