Ræða Haraldar Sumarliðasonar formanns SI

- Iðnþing 25. febrúar 2000

Efnahagsumræðan
Það er ekki nýtt að sýn stjórnmálamanna á stöðu efnahagsmála mótast af því hvar í flokki þeir standa. Myndin er máluð ljósum eða dökkum litum eftir því hvort málarinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Um þessar mundir verður stjórnarliðum tíðrætt um ríkulegan hagvöxt, góðæri og aukna velmegun. Stjórnarandstæðingar á hinn bóginn tala um vaxandi aðstöðumun ríkra og snauðra, misskiptingu auðs og græðgina á verðbréfamarkaðinum.

Efnahagsumræðan
Það er ekki nýtt að sýn stjórnmálamanna á stöðu efnahagsmála mótast af því hvar í flokki þeir standa. Myndin er máluð ljósum eða dökkum litum eftir því hvort málarinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Um þessar mundir verður stjórnarliðum tíðrætt um ríkulegan hagvöxt, góðæri og aukna velmegun. Stjórnarandstæðingar á hinn bóginn tala um vaxandi aðstöðumun ríkra og snauðra, misskiptingu auðs og græðgina á verðbréfamarkaðinum.

Stjórnmálin eru rædd inni í betri stofunni en frammi í forstofu ræða stjórnendur fyrirtækja og málsvarar þeirra í hálfum hljóðum um einkennilega stöðu mála: Góðæri ríkir þótt afkoman í iðnaðinum fari versnandi. Stöðugleiki ríkir þótt kostnaðurinn fari hækkandi. Íslenskur iðnaður er á mörgum sviðum í sókn þótt markaðshlutdeild erlendra keppinauta vaxi. Við vörum við þenslu og efnahagskollsteypum en hlutabréfaverð rýkur upp úr öllu valdi og að því er virðist óháð afkomu fyrirtækjanna. Fyrirtækin á verðbréfaþingi hagnast og taumlaus athafnagleði og bjartsýni knýr efnahagslífið áfam með áður óþekktum hraða. Er ekki allt í góðu lagi? Hvað er iðnaðurinn að nöldra?

Ef til vill er bæði okkur og stjórnmálamönnunum vorkunn þegar við eigum erfitt með að átta okkur á stöðunni. Tölur um afkomu fyrirtækjanna í landinu skila sér seint og illa í gegnum hið opinbera upplýsingakerfi. Afkomutölur fyrirtækja, fyrir utan þau fáu sem skráð eru á verðbréfaþingi, eru til að mynda nýjastar frá árinu 1997. Stærð og samsetning fyrirtækja á verðbréfaþinginu gerir þau að marklausu úrtaki fyrir fyrirtækin í landinu. Við vitum of lítið og of seint um þróun afkomu og annarra stærða í rekstrar- og efnahagsreikningi íslenskra fyrirtækja. Að minnsta kosti á það við um iðnaðinn. Upplýsingaskortur er ugglaust ein orsök þess að málflutningur og jafnvel efnahagsaðgerðir eru ekki í takti við þann veruleika sem íslensk fyrirtæki búa við.

Skrýtin vinnubrögð
Stöðugar og góðar upplýsingar um rekstrarstöðu hvers fyrirtækis er einn af lykilþáttum þess að því verði stjórnað af skynsemi. Sama gildir um rekstur þjóðarbúsins og atvinnulífsins. Hið opinbera safnar gríðarmiklu magni upplýsinga frá fyrirtækjum landsins. Oft finnst manni að illa sé farið með þessar upplýsingar og þær ekki nýttar sem skyldi. Er uppsveiflan að fara úr böndunum? Er launaskrið og þá hve mikið? Er afkoma í iðnaði að batna eða versna?

Allt eru þetta spurningar sem nauðsynlegt er að fá sem nýjust svör við. Þau eru til staðar. Mörgum spurningum er hægt að svara með því að vinna úr þeim gögnum sem skatturinn safnar, t.d. með innheimtu staðgreiðslu - og virðisaukaskattsskýrslana en það er ekki gert. Þess í stað safna Hagstofan og Þjóðhagsstofnun þessum upplýsingum frá fyrirtækjum og niðurstaðan verður sú að "nýjustu tölur" eru í mörgum tilvikum orðnar margra ára gamlar þegar þær koma út. Tölurnar, sem ættu að nýtast við hagstjórn, eru því í besta falli sögulegar heimildir um löngu liðna tíð. Hér verður að gera bragarbót.

Úrtakskannanir Samtaka iðnaðarins koma ekki í staðinn fyrir heildstæðar upplýsingar úr reikningum allra fyrirtækja í iðnaði og öðrum greinum. Þær eru því einungis hugsaðar sem neyðarúrræði og skammtímalausn. Á upplýsingaöld er upplýsingaskortur léleg afsökun. Upplýsingar um afkomu, vinnustundir og launagreiðslur eiga að geta flætt án hindrana frá fyrirtækjunum og birst án tafar með samanteknum hætti. Réttar og nýjar upplýsingar myndu án efa bæta ákvörðunartöku stjórnvalda í málum sem varða starfsskilyrði fyrirtækja.

Sú mynd, sem við blasir í efnahagsmálum þjóðarinnar um þessar mundir, á sér bæði bjartar og dökkar hliðar. Björtu hliðarnar eru mikil og vaxandi atvinna, lítið atvinnuleysi og vaxandi kaupmáttur. Dökku hliðarnar eru vaxandi innlend verðbólga, versnandi samkeppnisstaða og minnkandi arðsemi þeirra fyrirtækja sem eiga í hvað mestri samkeppni við erlenda aðila.

Samtök iðnaðarins telja að til að taka á þeim vandamálum, sem við blasa í efnahagsmálum þjóðarinnar, þurfi ríki og sveitarfélög að beita auknu aðhaldi í útgjöldum. Einnig þarf að hvetja almenning til aukins sparnaðar og minnka þannig viðskiptahallann með samstilltu átaki. Samtakökin telja ennfremur að beita þurfi öllum tiltækum ráðum til að auka framleiðni fyrirtækja hér á landi. Síðast en ekki síst telja Samtökin að gera þurfi hóflega kjarasamninga. Ljóst er að með launahækkunum undanfarinna ára hefur verið tekið meira út en innistæða er fyrir. Kjarasamningar nú þurfa að taka mið af þessu. Kauphækkanir umfram framleiðniaukningu eru innstæðulausar ávísanir sem verða innleystar með atvinnuleysi og verðbólgu.

Samráð við atvinnulífið
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að eiga góð samskipti og samstarf við stjórnvöld. Þeim er það nauðsynlegt því að starfsskilyrði iðnaðarins ráðast af fjölmörgum þáttum sem sífellt þarf að endurskoða og lagfæra. Til þess að ná árangri þar verðum við reiða okkur á samskipti við Alþingi, ráðherra og embættismenn. Við fáum til umsagnar fjölmörg lagafrumvörp á hverju ári og sitjum fundi með starfsmönnum ráðuneyta og stofnana til þess að ræða einstök mál. Þá eiga Samtök iðnaðarins fulltrúa í fjölmörgum nefndum, ráðum og stjórnum þar sem reynt er að þoka hagsmunamálum iðnaðarins áleiðis. Sú venja hefur komist á að forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins hitta iðnaðarráðherra á reglulegum fundum einu sinni í mánuði til þess ræða þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni í starfsskilyrðum iðnaðarins.

Ég leyfi mér að fullyrða að þessi samskipti geta orðið hvorum tveggja til gagns. Eðli málsins samkvæmt erum það við sem sækjum á stjórnvöld til þess að vinna málum okkar brautargengi. Stjórnvöld mættu þó oftar hafa frumkvæði að því að leita eftir samráði við atvinnulífið, spyrja álits og leita ráða hjá fyrirtækjunum og samtökum þeirra. Það er ekki þar með sagt að stjórnvöld eigi alltaf að gera það sem okkur þykir gott. Þau eiga auðvitað að taka sínar ákvarðanir en að höfðu samráði og fengnum upplýsingum frá þeim er gerst þekkja. Við teljum að oft megi sníða agnúa af lögum og reglum fyrirfram með þeim hætti. Sá vinnusparnaður, sem af því leiðir að sneiða hjá samráði við atvinnulífið, tapast oftar en ekki margfalt vegna tímafrekra bréfaskrifta, fundarhalda og leiðréttinga.

Breytt umhverfi
Þeim, sem hafa lengi hafa starfað í Samtökum iðnaðarins og fyrirrennurum þeirra, er ljóst að þessi samtök hafa á undanförnum árum tekið miklum stakkaskiptum. Áður voru þau önnum kafin við að tryggja félagsmönnum sínum forgang að verkefnum á grundvelli meistararéttinda og aðildar eða þá að þau leituðust við að tryggja félagsmönnum nauðsynleg aðföng eða lán til þess að halda rekstrinum gangandi. Það er ótrúlega stutt síðan það var pólitísk ákvörðun hvort menn gátu fengið lóð til að byggja á, leyfi til að hækka verð á eigin framleiðslu, leyfi til að taka lán svo að ekki sé nú talað um leyfi til að taka á móti erlendu áhættufé. Til skamms tíma var það meðal alvarlegri afbrota hér á landi að eiga fé í erlendum banka.

Alþjóðavæðing á Íslandi fór að sönnu ekki vel af stað því að fyrir þrem áratugum var samið við EFTA og ESB ríkin um tollfrjáls viðskipti með iðnvarning. Gallinn var bara sá að sú alþjóðavæðing náði einungis til iðnaðarins en ekki til annarra atvinnugreina og síst af öllu inn í stjórnkerfið. Það er ekki fyrr en 25 árum síðar, með EES samningnum, sem afgerandi skref er stigið í þá átt að innleiða almennar reglur og frelsi í viðskiptum í stað pólitískra afskipta.

Frjáls viðskipti, frjálsir fjármagnsflutningar, brúklegt skattkerfi, frelsi til fjárfestinga og minnkandi opinber afskipti af atvinnurekstrinum - allt er þetta iðnaðinum lífsnauðsynlegt enda hefur það sýnt sig að með skaplegum starfsskilyrðum hefur iðnaðurinn tekið stórstígum framförum. Samtök iðnaðarins voru ekki aðgerðarlausir áhorfendur að þessum breytingum heldur ákafir hvatamenn. Í miðri hinni hörðu hríð um EES samninginn spurðu menn hvort iðnaðurinn væri nú ekki búinn að fá sig fullsaddan af áföllum vegna erlendrar samkeppni. Honum væri vart sjálfrátt að vilja opna fyrir frjálsa fjármagnsflutninga, fjárfestingu og frjálsa för vinnuafls þar sem menn gætu vaðið hér inn í landið og jafnvel farið að starfa í löggiltum iðngreinum án þess að hafa meistarabréf upp á vasann. Nú efast enginn lengur um gildi EES samningsins.

Breytt samtök
Það er skemmtileg tilviljun að formlega sameiningu sex samtaka í iðnaði skuli einmitt bera upp á sama dag og EES samningurinn tók gildi í ársbyrjun 1994. Þó að það sé tilviljun er engan veginn um tvo óskylda atburði að ræða. Hagsmunagæslan hlýtur og verður að taka mið af breytingum í iðnaðinum og umhverfi hans. Sístækkandi hluti starfs Samtakanna er nú fólginn í þjónustu, ráðgjöf og fræðslu fyrir iðnaðinn í landinu en að sama skapi minnkar hin hefðbundna hagsmunagæsla á sviði starfsskilyrða. Þessi þjónusta er enn að miklu leyti bundin við einstaka starfsgreinahópa enda er skipulag Samtakanna við það miðað. Þetta starf mun hins vegar í vaxandi mæli ganga þvert á þau landamæri sem nú eru milli starfsgreina innan iðnaðarins.

Verkefni á borð við gæðastjórnun og eflingu verk- og tæknimenntunar voru ekki fyrirferðarmikil fyrir nokkrum árum. Þetta hefur breyst enda eðlilegt að Samtökin breytist með iðnaðinum sem þau eiga að þjóna. Samtökin hafa t.d. að undanförnu varið umtalsverðum fjármunum til þess að innleiða gæðastjórnun í byggingariðnaði og muni smám saman þróa þessa vinnu frekar og bjóða öðrum greinum staðlaðar lausnir og námskeið á þessu sviði. Það er tiltölulega auðvelt að spá því að innan fárra ára munu þeir, sem ekki starfa samkvæmt gæðakerfi, verða útilokaðir frá þátttöku í öllum stórútboðum. Þar með verður gæðakerfi orðið að meistarabréfi framtíðarinnar - ekki vegna einkaleyfis eða vegna kröfu frá iðnaðinum heldur vegna kröfu markaðarins.

Sterkari samtök, lækkun félagsgjalda
Það er staðreynd að erfitt er að fá menn til þess að greiða fyrir almenna hagsmunagæslu, til dæmis umfjöllun um efnahags- eða skattamál. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur vel þekkt í öllum nágrannaríkjum okkar. Þess vegna teljum við að nauðsynlegt sé að hluti af aðild að hagsmunasamtökum, hvort sem er í iðnaði eða á öðrum sviðum, sé nokkurs konar skylduaðild að heildarsamtökum atvinnurekenda. Við fyrstu sýn virðist þessi skoðun ekki vera mjög lýðræðisleg en við teljum einfaldlega að best sé að annast þessa hagsmunagæslu á sem hagkvæmastan hátt og að sem allra flestir atvinnurekendur beri þær byrðar í sameiningu og leggi til þess fjármuni eftir samræmdum reglum og í samræmi við eigin umsvif.

Um þessa stefnu hefur frá upphafi verið góð samstaða innan Samtaka iðnaðarins. Umsvif hafa aukist verulega í iðnaðinum og þau umsvif hafa fært Samtökum iðnaðarins auknar tekjur en þess utan hefur félagsmönnum fjölgað umtalsvert á undanförnum árum en aldrei þó meira en á nýliðnu ári. Undanfarin ár hefur árlega verið veittur afsláttur af félagsgjöldum til Samtaka iðnaðarins og á síðastliðnu ári var sá afsláttur 15%. Með tilliti til góðrar afkomu Samtakanna og vaxandi umsvifa í iðnaðinum hefur fráfarandi stjórn ákveðið að leggja til að afslátturinn verði enn meiri á þessu ári eða 25%. Þannig mun góð afkoma skila sér til félagsmanna í enn lægri aðildargjöldum.

Samtök atvinnulífsins
Eftir tilkomu Samtaka iðnaðarins leið ekki á lögu áður en farið var að ræða um endurskipulagningu heildarsamtaka atvinnurekenda. Frumkvæðið að þeirri umræðu kom frá Samtökum iðnaðarins sem settu fram hugmyndir um sameiningu VSÍ, Vinnumálasambandsins og Verslunarráðs. Hugmyndin var einnig sú að byggja upp ný heildarsamtök á grunni tiltölulega fárra en öflugra stoða og helst þannig að nokkurt jafnræði væri þar á milli þannig að komið yrði við eðlilegri samvinnu og verkaskiptingu milli heildarsamtakanna og aðildarfélaganna.

Ekki er unnt að segja að allt hafi gengið eftir sem að var stefnt. Verslunarráðið sagði sig frá þessum viðræðum. Stórkaupmenn og Bílgreinasambandið lentu einnig utangarðs og stoðirnar urðu fleiri en æskilegt hefði verið. Engu að síður urðu Samtök atvinnulífsins að veruleika og þar eiga íslenskir atvinnurekendur sér öflugan sameiginlegan málsvara -ekki bara á viði kjaramála - heldur einnig á þeim sviðum þar sem atvinnulífið allt á sameiginlegra hagsmuna að gæta. Efnahags- og skattamál, umhverfismál og almenn starfsskilyrði eigum við að geta fjallað um á einum vettvangi. Það er í senn ódýrara og áhrifameira.

Ákvörðun um stofnun Samtaka atvinnulífsins er djörf og getur skilað okkur umtalsverðum árangri ef vel tekst til. Hún er hins vegar ekki vandalaus í framkvæmd. Á næstu mánuðum mun reyna á samstöðu atvinnurekenda og vilja þeirra til samvinnu. Önnur prófraun, sem hin nýju Samtök atvinnulífsins þurfa að standast, er að sýna sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum. Niðurstaðan úr þeirri prófraun er í raun spurning um líf eða dauða fyrir þessi nýju heildarsamtök okkar. Samtök atvinnulífsins verða að reka sjálfstæða efnahagsstefnu óháð hinum breytilegu pólitísku vindum ella munu þau glata trausti félagsmanna og þar með tilgangi sínum.

Takist hins vegar vel til mun margt vinnast. Þá munu atvinnurekendur - sameinaðir í málflutningi sínum - hafa meiri áhrif en nokkru sinni fyrr. Atvinnugreinar eins og verslun og þjónusta, ferðaþjónusta og fjármálastofnanir munu fá eðlilegt vægi innan samtaka atvinnurekenda í fyrsta sinn. Síðast en ekki síst verður kostnaðinum skipt með eðlilegum hætti milli aðildarfyrirtækjanna, óháð atvinnugreinum og mun birtast sem umtalsverð og löngu tímabær iðgjaldalækkun hjá iðnfyrirtækjum innan okkar raða.

Stjórnkerfið breytist ekki
Samtökum atvinnurekenda hefur fækkað og unnið hefur verið að hagræðingu innan þeirra vébanda á undanförnum árum Það eru því vonbrigði að innan stjórnkerfisins bólar ekkert á hliðstæðri þróun.. Núverandi skipulag og verkaskipting ráðuneyta og stofnana byggist á úreltum viðhorfum um skiptingu atvinnulífsins í ólíkar ef ekki andstæðar fylkingar. Þessu verður að breyta því að þetta fyrirkomulag stendur ýmsum góðum málum fyrir þrifum. Nýjar greinar eiga hvegi samastað og hagræðing strandar á togstreitu milli ráðuneyta.

Nýjar og auknar áherslur í menntamálum
Ég nefndi hér áðan breytta og aukna áherslu Samtakanna í menntamálum. Mig langar hér að drepa á nokkra þætti þeirra mála. Endurskipulagning iðnnáms í bygginga- prent- og málmiðngreinum er vel á veg komin. Nýlega voru kynnt drög að námskrá fyrir 5. og 6. önn málmiðngreina og í byggingariðngreinum verður byrjað að kenna samkvæmt nýrri námskrá næsta haust. Í upplýsinga- og prentgreinum hafa verið skilgreindar nýjar námsbrautir til að þjóna nýjum þörfum í fyrirtækjunum. Með þessu eru tvímælalaust stigin mikilvæg skref í þá átt að laga nám í bygginga-, prent- og málmiðnaði að nútímakröfum og auka möguleika á því að fá áhugasamt og hæft fólk til starfa.

Nú er stefnt að stofnun kjarnaskóla fyrir málmiðnaðinn sem samtök atvinnurekenda og launþega taki að sér að reka og eru samningar við Menntamálaráðuneytið langt komnir. Fræðsluráð málmiðnaðarins, Menntafélag byggingariðnaðarins, Prenttæknistofnun og Fræðsluráð hótel- og matvælagreina hafa tekið við umsýslu námssamninga og sveinsprófa af menntamálaráðuneytinu samkvæmt sérstöku samkomulagi. Með þessu er iðnaðurinn orðinn þátttakandi í framkvæmd iðnnámsins og þeirri endurmenntun sem sífellt verður eiga sér stað.

Tækniskólamál - Verk- og tæknimenntun
Nú er liðið eitt og hálft ár frá því að Samtök iðnaðarins hófu virk afskipti af málefnum tæknimenntunar hér á landi. Forsenda Samtakanna er sú staðreynd að iðnfyrirtækin eru í brýnni þörf fyrir fleira og betur menntað fólk á verk- og tæknisviði. Vera kann að mönnum þyki hægt hafa miðað á þessum tíma en Samtökin hafa lagt mikla áherslu á víðtæk áhrif hagsmunaaðila á málið. Ekki er því að leyna að þetta verkefni er flókið og erfitt. Skólar eiga í samkeppni um fjármuni og fólk. Mismunandi áherslur samstarfsaðila hafa einnig valdið því að tafir hafa orðið á framgangi málsins. En í mínum huga er ekki ástæða til að dvelja lengi við fortíðina því að það, sem áunnist hefur, gefur fyrirheit um vaxandi samstarf skóla og atvinnulífs og það er fyrir mestu.

Stofnað hefur verið "Undirbúningsfélag til að leita samninga við menntamálaráðuneytið um rekstur Tækniskóla Íslands í þeim tilgangi að þróa hann á háskólastigi." Í stjórn félagsins sitja fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Alþýðusambandi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands og frá Rannsóknastofnunum atvinnuveganna. Félagið undirbýr nú samningaviðræður við menntamálaráðuneytið um þetta mál. Það er mikið verk að umbreyta grónum tækniskóla og færa honum nýtt og stærra hlutverk. Því má ætla að þetta starf taki nokkurn tíma. Ég er þó sannfærður um það mun leiða til þess að upp rís voldug menntastofnun sem verður eins og vítamínsprauta fyrir íslenskan iðnað.

En Samtök iðnaðarins líta ekki svo á að nóg sé að umbreyta einni skólastofnun til þess að bæta verk- og tæknimenntun hér á landi. Nauðsynlegt er að breyta almennt viðhorfum í þjóðfélaginu til tæknimenntunar, fá fleira gott, ungt fólk til að nema tæknigreinar og leggja iðnaðinum til eldmóð og hugvit. Samtök iðnaðarins vilja stofna víðtækt hagsmunafélag með skólum og félögum sem málið varðar og leggja til krafta, hugmyndir og fjármagn til að breyta áherslum í menntakerfinu svo að verk- og tæknigreinar megi dafna. Stofnun formlegs samstarfs af þessu tagi er langt komin og vænta má tíðinda af því innan skamms.

Upplýsingatækni og þekkingariðnaður
Upplýsingatækni og þekkingariðnaður eru orð sem margir hafa á hraðbergi og sífellt er verið að kynna nýja og merkilega hluti sem þessi stóriðja framtíðarinnar, eins og sumir vilja kalla þessar greinar atvinnulífsins, er að setja á markað og ryðja til rúms með ógnarhraða. Vöxtur greinarinnar er ótrúlegur hvort sem litið er til veltu, hlutdeildar í þjóðartekjum, útflutnings eða mannafla. Það eru væntanlega fleiri en ég sem eiga erfitt með að átta sig á þessari öru þróun og þýðingu hennar hvort sem einstaklingar eða fyrirtæki eiga í hlut. Það er þess vegna ekki að ástæðulausu að þetta Iðnþing er helgað upplýsingatækni og þekkingariðnaði á Íslandi. Í morgun heyrðum við fróðleg erindi frá fyrirtækjum sem eru í fararbroddi við að hanna og setja á markað nýjar lausnir sem nýtast við rekstur fyrirtækja og auka framleiðni þeirra. Síðar í dag munum við heyra frá iðnfyrirtækjum sem hafa tekið nýjustu upplýsingtækni í sína þjónustu í þeim tilgangi að geta verið í fararbroddi á sínu sviði. Við sáum hér á kynningunni áðan dæmi um nokkur verkefni sem Samtök iðnaðarins hafa unnið að þar sem upplýsingatæknin kemur við sögu. Samtökin sjálf verða auðvitað að nýta þessa tækni í eigin rekstri og samskiptum við sínum við félagsmennina og þeim til framdráttar eins og Víking-verkefnið er gott dæmi um. Ætlunin er einnig að nota þessa tækni til þess að efla tengsl iðnaðarins við unga fólkið landinu og mun iðnaðarráðherra opna nýjan vef, idnadur.is, hér á eftir en Samtökin hafa unnið að gerð hans í samvinnu við iðnaðarráðuneytið.

Góðir áheyrendur. Ég hef verið formaður Samtaka iðnaðarins frá stofnun þeirra haustið 1993 og læt nú af því starfi. Áður hafði ég verið forseti Landssambands iðnaðarmanna frá 1985 en með samrunann í Samtök iðnaðarins var starfsemi Landssambandsins hætt. Ég get því með nokkrum sanni sagt að ég hef fylgst vel með þeirri þróun sem átt hefur sér stað í iðnaðinum og hagsmunamálum hans í hálfan annan áratug. Þetta hefur vissulega verið tími mikilla breytinga, bæði í allri umgjörð og rekstri fyrirtækjanna en einnig í hagsmunagæslunni, eins og áður hefur verið nefnt. Margt hefur auðvitað gengið verr og tekið lengri tíma en vonir stóðu til en þegar ég horfi til baka er mér þó efst í huga þakklæti til þeirra fjölmörgu karla og kvenna sem ég hef átt samskipti við og lagt hafa þessum málum lið.

Margt hefur líka þokast í rétta átt og óhætt að segja að starfsskilyrði iðnaðarins hafi gjörbreytst til hins betra á þessum árum af ýmsum ástæðum. Þessu ber vissulega að fagna þó að alltaf verði fjölmörg atriði sem betur mega fara í þeim efnum. Það er trú mín og vissa að Samtök iðnaðarins munu hér eftir sem hingað til vinna ötullega að öllu því sem til hagsbóta horfir fyrir íslenskan iðnað og leggja með því sitt af mörkum til að bæta og efla atvinnu- og efnahagslíf í þessu landi.

Ég vil að lokum þakka félagsmönnum, samstjórnarmönnum mínum og starfsmönnum Samtakanna fyrir sérstaklega ánægjulega og trausta samvinnu þessi ár og óska þeim og Samtökunum sjálfum velfarnaðar á komandi tímum.