Styrkleikinn byggist á sveigjanleika

Í ræðu sinni á Iðnþingi gerði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sterka stöðu íslensku krónunnar að umtalsefni. Raungengi krónunnar hefði hækkað á undanförnum misserum samfara aukinni verðbólgu og hærra nafngengi krónunnar. Þessi staðreynd væri lýsandi fyrir lakari samkeppnisstöðu atvinnuveganna.

Í ræðu sinni á Iðnþingi gerði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sterka stöðu íslensku krónunnar að umtalsefni. Raungengi krónunnar hefði hækkað á undanförnum misserum samfara aukinni verðbólgu og hærra nafngengi krónunnar. Þessi staðreynd væri lýsandi fyrir lakari samkeppnisstöðu atvinnuveganna.

Of hátt raungengi
Ráðherra taldi ljóst að raungengi miðað við vísitölu neysluverðs hefði ekki verið hærra í sjö ár: "Við þessar aðstæður er staða iðnaðarins vissulega áhyggjuefni enda sér þess stað í veltutölum. Heildarvelta samkvæmt virðisaukaskattsframtölum jókst um tæplega 8% fyrstu átta mánuði síðasta árs í samanburði við árið 1998. Veltuaukning í verslun á sama tímabili var um 10% en í iðnaði aðeins um tæplega 2%."

Iðnaðarráðherra taldi brýnustu verkefni næstu missera hljóta engu að síður að vera að draga úr verðbólgu og auka sparnað í þjóðfélaginu. Með þeim hætti gætum við best tryggt áframhaldandi góð starfsskilyrði atvinnuveganna og þar með lífskjör í landinu.

Vöxtur upplýsingatækninnar
Iðnaðarráðherra ræddi möguleika og stöðu upplýsingatækninnar og benti á að íslenskur upplýsingatækniiðnaður hefði í upphafi nánast risið af sjálfu sér og án sérstakrar aðstoðar stuðningsumhverfis íslensks vísinda- og tæknisamfélags: "Sé tekið mið af árunum frá 1990 til 1998 hefur útflutningur fyrirtækja í hugbúnaðargerð og ráðgjöf meira en áttatíufaldast á þessu átta ára tímabili. Segja má að árið 1998 hafi fyrirtæki í upplýsingatækni komist á blað með afgerandi hætti er útflutningur þeirra náði að vera meira en 1% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Sé þetta skoðað út frá þjóðartekjum lætur nærri, að upplýsingatæknin hafi skapað 4% af vergum þáttartekjum þjóðarinnar árið 1998. Einnig fer þetta hlutfall hækkandi þannig að greinin er stöðugt að skapa stærri og stærri hlut af þjóðartekjum okkar."

Ráðherra taldi styrkleika fyrirtækjanna næstu árin byggjast á sveigjanleika þeirra og hæfni til að koma fram með nýjungar og bregðast við breytingum. Fjarlægðir milli viðskiptavina eða landfræðileg lega þeirra muni ekki skipta veigamiklu máli. Traust viðskiptasiðgæði, hátt menningarstig og áreiðanlegir stjórnarhættir muni aftur á móti skipta sköpum í rafrænum viðskiptum framtíðarinnar.

Í lok ræðu sinnar opnaði ráðherra idnadur.is sem er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og Samtaka iðnaðarins: "Þessi upplýsingaveita hefur fengið nafnið iðnaður.is sem er eins og nafnið bendir til, að finna á Netinu. Það er vel til fundið að formleg opnun iðnaður.is sé á dagskrá þessa Iðnþings þar sem yfirskriftin er "Iðnaður og upplýsingatækni við upphaf nýrrar aldar." Iðnaður.is er vissulega tímans tákn."

Sjá alla ræðu iðnaðarráðherra