Idnadur.is

Á Iðnþingi í dag var kynntur nýr vefur www.idnadur.is sem Samtök iðnaðarins og iðnaðarráðuneytið hafa unnið að. Það var iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sem opnaði vefinn formlega.

Á Iðnþingi í dag var kynntur nýr vefur (www.idnadur.is) sem Samtök iðnaðarins og iðnaðarráðuneytið hafa unnið að. Það var iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sem opnaði vefinn formlega.

Iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði m.a. þegar hún opnaði vefinn:

"Meðal þeirra samstarfsverkefna sem iðnaðarráðuneytið og Samtök iðnaðarins hafa ráðist í er gerð upplýsingaveitu um málefni iðnaðarins sem hefur verið í vinnslu í um hálft annað ár. Þessi upplýsingaveita hefur fengið nafnið: idnadur.is, sem er eins og nafnið bendir til að finna á Netinu. Það er vel til fundið að formleg opnun idnadur.is sé á dagskrá þessa iðnþings þar sem yfirskriftin er "iðnaður og upplýsingatækni við upphaf nýrrar aldar". idnadur.is er vissulega tímans tákn."

Jón Steindór Valdimarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, kynnti síðan megin þætti idnadur.is og sagði m.a:

"Við hjá Samtökum iðnaðarins teljum að það þurfi að ríkja skilningur á að kröftugur og arðsamur iðnaður hljóti í vaxandi mæli að verða undirstaða nýrra starfa, góðra lífskjara og velferðar. Fólk þarf að þekkja iðnaðinn og iðnfyrirtækin, vita að iðnaðurinn er oftast allt annað og meira en það sem virðist blasa við við fyrstu sýn.
Til þess að svo megi verða þarf að ná inn í skólakerfið með þennan boðskap, til unga fólksins og kennara þeirra. Einmitt þetta erum við að gera með þessum vef."

"Við gerð vefsins hefur verið haft að leiðarljósi að hann yrði þannig að hægt væri að nota hann markvisst við að leita svara við ákveðnum spurningum en líka að hægt væri að ferðast um hann fram og til baka og finna ýmislegt annað en endilega var ráðgert að finna. Vefurinn er þess vegna efnismikill og fjölbreyttur og við höfum líka sett upp krækjur sem leiða menn út og suður."

"Ég trúi því að idnadur.is verði gagnlegur ungu áhugasömu fólki og verði ómissandi tæki í skólastarfi þar sem iðnaður kemur við sögu."

Aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins eru hvött til þess að skrá sig í gagnagrunn idnadur.is. Það er hægt á slóðinni: www.si.is/idnadur2000.html