Nýja hagkerfið - hagnýt viðmið

- Erindi Per Magnus Wijkman á Iðnþingi 2001 -

Per Magnus Wijkman, aðalhagfræðingur Samtaka sænskra iðnrekenda, fjallaði á Iðnþingi um nýja hagkerfið svokallaða en kynnti einnig nýja skýrslu UNICE-Samtaka evrópskra iðn- og atvinnurekenda um upplýsingatækni.

Per Magnus Wijkman, aðalhagfræðingur Samtaka sænskra iðnrekendaPer Magnus Wijkman, aðalhagfræðingur Samtaka sænskra iðnrekenda, fjallaði á Iðnþingi um nýja hagkerfið svokallaða en kynnti einnig nýja skýrslu UNICE-Samtaka evrópskra iðn- og atvinnurekenda um upplýsingatækni.

Hann sagði að niðurstaða skýrslunnar væri skýr. Evrópuþjóðir væru almennt eftirbátar Bandaríkjamanna í notkun og þróun upplýsingatækni en sumar þjóðir Evrópu stæðu þeim þó á sporði og hefðu jafnvel náð lengra, einkum Norðurlandaþjóðir og þar á meðal Íslendingar.

Aukin áhersla á rannsóknir og þróun
Hann hélt því fram m.a. að evrópsk fyrirtæki væru mjög framsækin og ættu í vaxandi samkeppni á heimsmarkaði. Ferli vöruþróunar hefði styst þannig að þeir, sem fyrstir kæmu nýjungum á framfæri, fengju jafnan gott forskot. Erfiðara hefði samt reynst að spá um framhaldið og áhættan hefði aukist. Til að bregðast við þessu þyrftu fyrirtæki að leggja meiri áherslu á rannsóknir og þróun. Per hélt því fram að fyrirtæki í Bandaríkjunum legðu tvisvar sinnum meira fjármagn á mann í rannsóknir en hin evrópsku. Á þessu þyrfti að verða breyting.

Áhrif upplýsingatækninnar
Per Magnus sagði að upplýsingatækni (UT) væri að gerbreyta hagkerfinu. Hinn hái virðisauki í UT geiranum væri í vaxandi mæli fólginn í að innleiða almennar tækniframfarir í hefðbundna starfsemi. Slíkt gerði skipulagsbreytingar kleifar sem og nýjar viðskiptaaðferðir - að gera gamla hluti á nýjan hátt. Þetta leiddi til aukinnar framleiðni fyrirtækja á komandi árum. UT væri því að endurnýja hagkerfið, sem fyrir væri, frekar en að skapa nýtt. Þetta birtist í því að neytendur hefðu nú fleiri valkosti og aðfangakostnaður fyrirtækja hefði lækkað. Að auki væri stjórn á framboðskeðjunni alltaf að batna. Allt legðist þetta á eitt að auka framleiðni.

Hann varpaði fram spurningunni hvort upplýsingatæknin væri komin til Evrópu? Þar bæri á nýjum fyrirtækjum sem væru að vinna upp forskot fyrirtækja í Bandaríkjunum án þess að nota meira fjármagn eða vinnuafl. Þrátt fyrir yfirburði bandarískra fyrirtækja á flestum sviðum UT væru evrópskir Netbankar orðnir leiðandi í heiminum.

Sveigjanleiki á vinnumarkaði mikilvægur
Per Magnus sagði að sveigjanleiki á vinnumarkaði væri nauðsynlegur. Frumkvöðlar og fjárfestar þyrftu einnig að vera reiðubúnir að taka áhættu og ríkisstjórnir þyrftu að stuðla að nauðsynlegum breytingum. Hlutverk stjórnvalda væri einnig að skapa fyrirtækjum gott rekstrarumhverfi og gefa gott fordæmi með því að nota upplýsingatæknina. Aukinn stöðugleiki og sveigjanleiki í þessum geira hjálpaði til að skapa ný tækifæri til uppfinninga eða nýjunga og aðlögun að örum breytingum.

Hann minnti einnig á að menntun og þjálfun væru undirstöðuatriði í þessu sambandi. Það væri mikilvægt að hafa vilja og áræði til að breyta til. Það hefði margsýnt sig að þeir, sem búa yfir mestri aðlögunarhæfni, lifa af örar breytingar. Nauðsynlegt væri að hafa hæfa kennara til að koma þeim skilaboðum áleiðis.

Íslendingar í fremstu röð
Per Wijkman sagði að Íslendingar fengju góða einkunn í skýrslunni. Þeir skipuðu efstu sæti í nokkrum flokkum, t.d. í útbreiðslu tölvueignar, útbreiðslu vefþjóna og sveigjanleika á vinnumarkaði. Íslendingar hefðu sýnt mikla hæfni til að laga sig að örum breytingum og ættu skilið viðurkenningu fyrir það. Hann sagði að þegar á heildina er litið væri Ísland komið í fremstu röð í endurnýjun hagkerfisins.

Glærur Wijkmans (fyrir Internet Explorer 5.x)

Skýrsla UNICE (á PDF sniði fyrir Acrobat Reader)