Ályktun Iðnþings 2001

16. mars 2001

Iðnþróun byggist á markvissu langtíma vöruþróunar- og markaðsstarfi. Stöðugleiki og friður í íslensku efnahagslífi undanfarin ár hefur skilað raunvexti í almennum iðnaði og byggingariðnaði á árunum 1995-1999 sem er meiri en 6% á ári að meðaltali og enn meiri í upplýsingatækni. Þetta er árangur sem ekki má fórna.

Iðnþróun byggist á markvissu langtíma vöruþróunar- og markaðsstarfi. Stöðugleiki og friður í íslensku efnahagslífi undanfarin ár hefur skilað raunvexti í almennum iðnaði og byggingariðnaði á árunum 1995-1999 sem er meiri en 6% á ári að meðaltali og enn meiri í upplýsingatækni. Þetta er árangur sem ekki má fórna.

Hátt gengi, há laun og háir vextir vega að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Markaðshlutdeild þeirra minnkar og halli á viðskiptum við útlönd eykst. Um leið hægir merkjanlega á efnahagslífinu eins og veltutölur fyrirtækja sýna. Spáð er samdrætti í fjárfestingum sem hafa verið miklar undanfarin ár. Stjórnvöld hafa boðað að vænta megi vaxta- og skattalækkana en þær hafa ekki verið tímasettar. Hættan er sú að beðið verði of lengi. Harðar aðhaldsaðgerðir á sama tíma og afkoma fyrirtækja versnar og hlutabréfaverð hríðfellur geta leitt til skyndilegs samdráttar í fjárfestingum og þar með hættu á harðri lendingu efnahagslífsins.

EES-samningurinn hefur reynst vel en dugir ekki til frambúðar. Til þess eru margar ástæður. Jafnvægið milli aðila samningsins hefur raskast og samningurinn þróast ekki í takt við það sem gerist innan ESB. Enn er þó ótalið veigamesta atriðið. Íslenska krónan er of dýru verði keypt. Hún skapar vandamál í hagstjórn, veldur óþarfa vaxtabyrði og gengissveiflum sem bitna á fyrirtækjum og rekstrarskilyrðum þeirra. Lítil og veik mynt hindrar eðlilegar fjárfestingar innlendra og erlendra fyrirtækja á Íslandi. Mikill meirihluti (62%) félagsmanna í Samtökum iðnaðarins er þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu sé efnahagslega hagkvæm. Einungis 15% telja að aðild að Evrópusambandinu yrði efnahag Íslands til tjóns.