Viðurkenning Verðlaunasjóðs iðnaðarins
- afhent á Iðnþingi 16. mars 2001
Á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins 16. mars 2001 veitti Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- viðskiptaráðherra Jóni Þór Ólafssyni viðurkenningu úr Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir frumkvöðulsstarf á sviði iðnaðar.
Verðlaunasjóður iðnaðarins var stofnaður í mars árið 1976 af Kristjáni Friðrikssyni og eiginkonu hans Oddnýju Ólafsdóttur. Tilefnið var m.a. að þá voru liðin 35 frá stofnun Klæðagerðarinnar Últímu en einnig það að Kristján hafði óbilandi trú á íslenskum iðnaði og íslenskri hönnun. Honum fannst aldrei nógsamlega vakin athygli á hinum fjölmörgu íslensku uppfinningarmönnum. Stofnfé Verðlaunasjóðs iðnaðarins var húseign sem Últíma gaf og skyldi ágóðinn af eigninni verða verðlaunafé.
Verðlaunasjóður iðnaðarins hefur verið starfræktur í anda stofnenda hans í samstarfi við samtök í iðnaði og hefur með vissu millibili veitt viðurkenningar – oftast fyrir frumkvöðulsstarf á sviði iðnaðar. Samkvæmt upphaflegri stofnskrá sjóðsins er tilgangur hans að örva til dáða á sviði iðnaðar og jafnframt vekja athygli á þeim afrekum sem unnin hafa verið og unnin verða á því sviði. Ekki er tekið við umsóknum um verðlaun úr sjóðnum en við val á verðlaunahafa hefur sjóðstjórn einkum í huga eftirfarandi:
- Uppfinningar sem líklegar teljast til að koma íslenskum iðnaði að gagni.
- Einstaklinga og fyrirtæki fyrir happadrjúga forystu í uppbyggingu iðnaðar hvort sem er til innanlandsnota, sölu erlendis eða fyrir forystu á sviði iðnaðarmála almennt.
- Verðlaunin má einnig veita fyrir sérlega vel gerða iðnaðarframleiðslu sem fram kemur t.d. á iðnsýningum eða kaupstefnum.
- Þá má einnig veita verðlaun fyrir hönnun sem hefur tekist sérlega vel að dómi sjóðsstjórnar.
Ofangreind upptalning er gerð til leiðbeiningar fyrir sjóðsstjórnina um það hvað fyrir stofnendum vakti með stofnun sjóðsins.
Verðlaun sjóðsins eru auk veglegrar peningaupphæðar, sérstakur verðlaunagripur og verðlaunaskjal bæði innbundið og innrammað. Verðlaunagripurinn sem heitir „hjólið“ - tákn mannsins fyrir uppgötvun, framfarir og virkni, er verðlaunahönnun Péturs Baldvinssonar úr samkeppni sem haldin var meðal nemenda í Handiða- og myndlistaskóla Íslands veturinn 1998. Gripurinn er líka táknrænn fyrir hjól atvinnulífsins, hreyfingu - andstöðu við kyrrstöðu. Þess vegna er ætlast til að hjólið leiki frjálst á stalli sínum sem er grágrýtisteningur sóttur í íslenska náttúru og unnin af Steinsmiðju S. Helgasonar. Hjólið sjálft er smíðað úr einu helsta iðnaðarhráefni okkar Íslendinga - áli, af hagleikssmiðnum Sigurði H. Hilmarssyni í Álverinu ehf. og rafbrynjað þannig að yfirborð þess nær hörku og slitþoli eðalmála. Áletrun er forunnin með tölvuskurði hjá auglýsingastofnunni NotaBene og síðan handgrafin af Ívari Þ. Björnssyni gullsmiði og faglærðum leturgrafara. Skinnbandið utan um verðlaunaskjalið er unnið af Félagsbókbandinu Bókfelli. Það má því segja að óvenjumargar ólíkar greinar iðnaðar allt frá hátæknivæddri framleiðslu og yfirborðsmeðhöndlun á áli yfir í sérhæft handverk af ólíkum toga, komi saman í smíði og gerð verðlaunagripanna og er það vel við hæfi.
Eftir að Samtök iðnaðarins voru stofnuð var stofnskrá Verðlaunasjóðs iðnaðarins endurnýjuð með lögum sem dómsmálaráðherra staðfesti árið 1996. Öll meginatriði sjóðsstofnenda voru þó látin halda sér óbreytt í hinni nýju stofnskrá.
Sjóðsstjórnina skipa 5 fulltrúar: Ásrún Kristjánsdóttir, skipuð af fjölskyldu Kristjáns Friðrikssonar, Örn Guðmundsson, frá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík, Guðbjörg Magnúsdóttir, tilnefnd af Formi Ísland og tveir frá Samtökum iðnaðarins, þeir Davíð Lúðvíksson og Vilmundur Jósefsson sem jafnframt er formaður sjóðsstjórnar.