Verðlaunahafi Verðlaunasjóðs iðnaðarins 2001

Á Iðnþingi í dag, 16. mars 2001, var Jóni Þór Ólafssyni, verkfræðingi hjá Marel, veitt viðurkenning úr Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir framúrskarandi verkfræði- og tæknistörf á sviði iðnaðar.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunahafanum viðurkenninguna.Á Iðnþingi í dag, 16. mars 2001, var Jóni Þór Ólafssyni, verkfræðingi hjá Marel, veitt viðurkenning úr Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir framúrskarandi verkfræði- og tæknistörf á sviði iðnaðar.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunahafanum viðurkenninguna. Í umsögn stjórnar Verðlaunasjóðsins segir m.a.:

„Jón Þór hefur átt ríkan þátt í að byggja upp hátækniiðnað tengdan matavælaiðnaði á Íslandi. Hann hefur með hugmyndaauðgi sinni og störfum lagt mikið af mörkum í þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarna tvo áratugi. Hann hefur unnið hjá Marel hf. frá stofnun fyrirtækisins árið 1983 og hefur verið lykilmaður í allri vöruþróun þess allt frá því að fyrstu hugmyndirnar um að nýta tölvutæknina í þágu íslenskrar fiskvinnslu urðu til í lok 8. áratugarins. Jón Þór vann við þær hugmyndir strax á námsárum sínum í verkfræði og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands að námi loknu.
Jón Þór er einstaklega hugmyndaríkur maður sem fer oft óhefðbundnar leiðir þegar finna þarf nýjar lausnir. Hann hefur verið sífrjór í hugsun og hönnun um tveggja áratuga skeið. Fordæmi Jóns Þórs Ólafssonar er virðingarvert og hvatning fyrir annað tæknifólk sem starfar í iðnaði og nemendur sem stunda eða stefna á tækninám á tímum þar sem skortur á góðum tæknimönnum er aukið áhyggjuefni í atvinnulífinu. Fyrir það veitir Verðlaunasjóður iðnaðarins honum viðurkenningu sína.“

Við þetta tækifæri nefndi Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, m.a. sem dæmi að Jón Þór hefði verið einn helsti hugmyndasmiðurinn að Marel-skipavoginni sem var burðarásinn í tekjum fyrirtækisins í upphafi 10. áratugarins og gerði því mögulegt á þessum árum að halda uppi öflugu vöruþróunar- og markaðsstarfi auk fjölda annarra nýjunga í framleiðslu Marels sem hann hefði átt ríka hlutdeild í að þróa ásamt samstarfsfólki sínu.