Heimur örra breytinga

Vilmundur Jósefsson, formaður SI gerði heim örra breytinga hvert sem litið er að umtalsefni í ræðu sinni á Iðnþingi. Hann sagði meðal annars að alþjóðleg samkeppni væri orðin að íslenskum veruleika og frelsi í viðskiptum og alþjóðlegar leikreglur hefðu tekið við af heimatilbúnum reglum og pólitískum afskiptum.

Vilmundur Jósefsson, formaður SI á Iðnþingi 2001Vilmundur Jósefsson, formaður SI gerði heim örra breytinga hvert sem litið er að umtalsefni í ræðu sinni á Iðnþingi. Hann sagði meðal annars að alþjóðleg samkeppni væri orðin að íslenskum veruleika og frelsi í viðskiptum og alþjóðlegar leikreglur hefðu tekið við af heimatilbúnum reglum og pólitískum afskiptum.

Hin öra samkeppni- og alþjóðavæðing hafi þó ekki gerst áreynslulaust því að fyrirtækin hafi þurft að hagræða og stækka, leita nýrra markaða og nýrrar tækni og að auki hafi kröfur um arðsemi, bætta stjórnun og öguð vinnubrögð stóraukist.

EITT Í DAG OG ANNAÐ Á MORGUN
Þá sagði Vilmundur að Samtökin væru stundum sökuð um að biðja um eitt í dag en annað á morgun en skýringin sé fólgin í örum breytingum. Frá 1998 hafi Samtökin varað við þenslu og hvatt til þess að stjórnvöld beiti auknu aðhaldi en nú óski þau eftir að slakað verði á klónni með lækkun skatta og vaxta gagnvart fyrirtækjum. Hann nefndi ýmsar ástæður þess að verðbólga fór af stað en af langri reynslu viti menn að auðveldara sé að hafa taumhald á henni en hemja eftir að hún er komin á skrið. Þá vék Vilmundur að vaxtastefnu stjórnvalda og gat þess að síðustu 6 ár hafi vextir hérlendis verið mun hærri en nágrannaöndum okkar en nú keyri gersamlega um þverbak. Hver vaxtahækkunin hafi rekið aðra og langt umfram verðbólgu og nefndi að sjö undanfarnar vaxtahækkanir hafi að sínu mati bitnað mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa tekið lán til fjárfestinga og rekstrar innanlands.

HÆTTA Á HARÐRI LENDINGU
Þá gat formaður SI þess m.a. að hátt raungengi, há laun og háir vextir vegi að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Markaðshlutdeild fyrirtækjanna erlendis minnki og halli á viðskiptum við útlönd aukist. Um leið hægist á efnahagslífinu eins og veltutölur fyrirtækja sýni en auk þess sé spáð samdrætti í fjárfestingum. Við slíkar aðstæður leggi Samtökin hiklaust til að slakað sé á klónni. Forsætisráðherra hafi boðað að vænta megi að vextir og skattar verði lækkaðir en ekki hvenær. Hættan sé sú að beðið verði of lengi og að efnahagslífið fái því harða lendingu. Af fyrri reynslu viti iðnaðurinn að það taki hann langan tíma að byggja upp aftur eftir slík áföll.

UMBÆTUR Í SKATTAMÁLUM
Vilmundur sagði margt hafa áunnist í skattamálum á liðnum árum en mörgum finnst eins og mjög hafi hægt á því umbótastarfi í góðæri liðinna ára. Við þurfum að losna við skatta á borð við stimpilgjöld, eignarskatta og vörugjöld sem ýmist hafa verið afnumdir eða lækkaðir stórlega í nágrannalöndum okkar. Þá nefndi hann að leysa þurfi skattaleg vandamál sem tengjast virðisauka af vinnu hugbúnaðarfyrirtækja sem skattfrjálsir opinberir aðilar, lánastofnanir og tryggingafélög komist hjá að greiða með því að byggja upp eigin deildir á þessu sviði.

BETUR SJÁ AUGU EN AUGA
Vilmundur lýsti ánægju Samtakanna með að hafa fengið að taka þátt í starfi nefndar um opinber innkaup sem skilaði áliti og tillögum sl.vor. Sumir virðist telja að samráð við hagsmunaaðila sé annaðhvort óþarft eða jafnvel ósiðlegt en það sé fjarri lagi. Þvert á móti verði oftar en ekki óhöpp í lagasetningu þegar embættismenn og starfsmenn ráðuneyta semja lagafrumvörp án nokkurs samráðs við þá sem eiga að fara eftir lögunum.

LÉLEG VINNUBRÖGÐ
Þá gagnrýndi Vilmundur reglur um að opinber útboð skuli ekki ná til sveitarfélaga enda sýni reynslan að á því sé full þörf því að samið sé út og suður um stór verkefni án útboðs og nefndi nokkur dæmi þar um. Þá fór hann nokkrum orðum um útboð á viðgerð tveggja varðskipa en þar hafi allt verið gert til að reikna verkefnin úr landi. Með kúnstum hafi menn fundið út að ódýrast væri að sigla skipunum til viðgerðar í Póllandi þótt eðlilegar forsendur hefðu leitt til annarrar niðurstöðu. Dómsmálaráðuneytið hafi verið beðið um hlutlausa rannsókn á þessu máli án árangurs.

TÆKNIMENNTUN MEÐ REKSTRARÍVAFI SKORTIR
Vilmundur vék næst máli sínu að menntun og sagði að fyrirtæki SI væru í mikilli þörf fyrir fólk með menntun í tækni- og verkfræði. Að undanförnu hafi þó hallað mjög á hlut tæknimenntunar. Samtökin hafi því ásamt öðrum félögum og skólum sóst eftir því að stofna tækniháskóla á grunni Tækniskóla Íslands en þrátt fyrir ítarlegar viðræður við menntamálaráðuneytið og mikla undirbúningsvinnu af hálfu Samtakanna hafi samningar ekki tekist. Samtökin telji brýna þörf á að efla tæknimenntun með rekstrarívafi sem segja megi að sé á milli hefðbundinnar iðnmenntunar og verkfræði því að hætta sé á að slíkt nám leggist af hér á landi ef ekki verði gert sérstakt átak á þessu sviði.

SAMKEPPNI ER FORSENDA VELFERÐAR
Vilmundur sagði samkeppni og undirstöðu heilbrigðs atvinnulífs sem aftur væri undirstaða velferðar okkar allra. Ríkið sé smátt og smátt að draga sig út úr atvinnurekstri með því að einkavæða og selja atvinnufyrirtæki í sinni eigu. Alþjóðavæðingin vaxi stöðugt og þar með minnki sérstaða og einangrun atvinnulífs okkar gagnvart öðrum löndum en þetta leiði til þess að samkeppnin vaxi og harðni. Því þurfi að tryggja allt í senn, heilbrigða samkeppni, hag neytenda og eðlilega þróun atvinnulífsins til að standast erlendri samkeppni snúning.
Þá gat Vilmundur þess að SI hafi gagnrýnt harkalega þá tilhneigingu samkeppnisyfirvalda að tryggja samkeppni með því að stjórna uppbyggingu atvinnulífsins í stað þess að beita sér af hörku gegn þeim sem brjóta samkeppnisreglur og misnota markaðsráðandi stöðu.

AÐILD AÐ ESB
Vilmundur sagði að miklar og örar breytingar í íslensku atvinnulífi eigi rætur að rekja til alþjóðlegrar þróunar og þess að við höfum borið gæfu til að taka þátt í evrópsku viðskiptasamstarfi með aðild okkar að EFTA og EES-samningnum. Því megi ekki láta staðar numið við að tengja Ísland traustari og nánari böndum við þróunina í Evrópu. EES-samningurinn hafi verið góður þegar hann var gerður en ekki staðist tímans tönn. Jafnvægið hafi raskast og samningurinn ekki þróast í takt við það sem gerist innan Evrópusambandsins. Allt valdi þetta því að það sé óviðunandi fyrir íslenskan iðnað að standa utan ESB. Veigamesta ástæðan fyrir því að við gerumst aðilar að ESB sé þó krónan. Hún skapi vandamál í hagstjórn, vaxtabyrði og gengissveiflur sem bitni á fyrirtækjum og geri rekstrarskilyrði þeirra óbærileg. Við þurfum að kasta krónunni og taka upp evru en til þess þurfi aðild að ESB. Könnun, sem Gallup gerði nýlega fyrir SI, sýni að Samtökin hafi fast land undir fótum meðal félagsmanna sinna þegar þau hvetji til þess að Ísland sæki um aðild að ESB. Taka þurfi ákvörðun um það án tafar og hefja undirbúning samningaviðræðna.

Í lok ræðu sinnar sagði Viðmundur:

„Samtök iðnaðarins munu hér eftir sem hingað til hafa það meginmarkmið að stuðla að því að íslensk fyrirtæki verði samkeppnisfær um fólk, framleiðslu og fjármagn. Hér er allt í húfi því að á þessu veltur framtíð okkar.“

Öll ræða Vilmundar.