Samkeppnisstaða Íslands

- Erindi Harðar Arnarsonar á Iðnþingi 2001 -

Hörður Arnarson, forstjóri Marels hf., fjallaði um samkeppnisstöðuna eins og hún horfir nú við útflutningsfyrirtækjum í samkeppnisiðnaði. Hann tíundaði bæði það sem mjög hefur breyst til batnaðar og það sem hann telur að betur megi fara við núverandi aðstæður.

Hörður Arnarson, forstjóri Marels hf.Hörður Arnarson, forstjóri Marels hf., fjallaði um samkeppnisstöðuna eins og hún horfir nú við útflutningsfyrirtækjum í samkeppnisiðnaði. Hann tíundaði bæði það sem mjög hefur breyst til batnaðar og það sem hann telur að betur megi fara við núverandi aðstæður.

Miklar breytingar
Hann gat þess í upphafi að umfjöllun hans ætti ekki sérstaklega við um Marel heldur iðnaðinn í heild sinni. Hann sagði m.a. að atvinnulífið hefði mikið breyst frá því að hann kom úr námi fyrir 10 árum en þá hefðu menn talist heppnir að fá vinnu þar sem menntun þeirra nýttist en nú gætu menn oft valið um áhugaverð störf. Spurningin væri hvers konar þjóðfélag við vildum. Breytingin væri einkum fólgin í því að atvinnuframboð hefði aukist, hér störfuðu sterk alþjóðleg fyrirtæki og fjölmargir vaxtarsprotar hefðu skotið upp kollinum. Til þess að fyrirtækin megi dafna þurfi starfsfólk með menntun og frumkvæði, hlutabréfamarkað og aðgang að áhættufjármagni.

Hvert viljum við stefna?
Hörður sagði að ýmsar þjónustu -og tæknigreinar hefðu verið megindrifkraftur hagvaxtarins undanfarin ár en ekki fiskveiðar og landbúnaður. Þetta væri tvímælalaust jákvætt en sjávarútvegur yrði áfram mikilvægasta iðngreinin á Ísland í framtíðinni.

Þá varpaði hann fram spurningunni hvert við vildum stefna? Markmiðið væri að skapa varanlegan hagvöxt og um leið bætt lífskjör. Framtíðin snerist um vaxtarmöguleika sem fælust einkum í útflutningi á vörum og þjónustu því að heimamarkaðurinn væri mjög takmarkaður en erlend samkeppni færi mjög vaxandi. Fyrirtækin yrðu því að vera samkeppnisfær til þess að eiga möguleika í framtíðinni.

Samkeppnisforskot er það sem þarf
Þá vék Hörður að alþjóðavæðingu íslenskra fyrirtækja og taldi þá þróun mjög jákvæða. Hún reyndi mjög á samkeppnishæfni fyrirtækjanna en þar væru vaxtarmöguleikarnir fólgnir. Auka þyrfti aðgang að auðlindum og minnka áhrif gengissveiflna. Samkeppnisforskot væri það sem til þyrfti ef við ætluðum að vaxa í alþjóðlegu umhverfi og það væri m.a. að finna í íslenskum auðlindum s.s. fiskiðnaði, orku og náttúrunni. Þá skipti hugvitið einnig miklu máli, menntun og fólk en ekki síst frumkvöðlar. Þegar samkeppnisforskoti væri náð væri aðalvandinn samt fólginn í að halda því og þá skiptu markaðsstaða, einkaleyfi og fjárfestingar miklu máli.

Samkeppnisforskotið væri þó ekki nóg því að almenn rekstrarskilyrði yrðu að vera í lagi. Ekki mætti gleymast að meginmarkmiðið væri varanlegur hagvöxtur en ekki lítil verðbólga eða stöðugleiki. Hins vegar væri ljóst að hagvöxtur væri mun líklegri til að verða varanlegur ef þjóðin byggi við stöðugleika og litla verðbólgu. Hörður sagði að ekki mætti þó skilja orð sín svo að ná mætti niður verðbólgu með því að drepa niður vöxt í útflutningsgreinum. Samkeppnisstaðan væri hagsmunamál allra útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja í samkeppnisiðnaði en sveiflur gagnvart helstu markaðssvæðum og keppinautum svo sem af völdum kostnaðarhækkana og gengisskráningar hefðu mikil áhrif. Útflutningsfyrirtæki og fyrirtæki í samkeppnisiðnaði yrðu að mæta innlendum kostnaðarhækkunum með framleiðniaukningu. Fyrirtæki í vernduðum greinum /opinberir aðilar væru líklegri til að velta innlendum kostnaðarhækkunum beint út í verðlagið sem leiddi til verðbólgu og gengislækkana.

Íslenska krónan, vaxtastigið og launahækkanir valda erfiðleikum
Hörður sagði að á síðustu árum hefðu einkum þrjú atriði skert mjög samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja en þau væru raungengi íslensku krónunnar, vextir og miklar launahækkanir. Þá taldi hann mjög óeðlilegt að gengi krónunnar styrktist á sama tíma og kostnaðarhækkanir hefðu verið mun meiri hér en í nágrannalöndunum mörg ár í röð. Þá hefði framleiðnin ekki aukist þannig að í raun hefði krónan átt að veikjast ef Seðlabankinn hefði ekki gripið inn í með miklar vaxtahækkanir. Vextir væru nú meira en tvöfaldir samanborið við evrusvæðið.

Staðan að mati Harðar er því í stuttu máli sú um þessar mundir að skortur á menntuðu vinnuafli er fyrirsjáanlegur, of miklum innlendum kostnaðarhækkunum er velt út í verðlagið og einkavæða þarf opinber fyrirtæki til að tryggja nauðsynlega hagræðingu. Þá sagði hann gengi íslensku krónunnar fyrri hluta árs 2000 hafa valdið íslenskum fyrirtækjum miklum erfiðleikum en síðari hluta ársins hefði þróunin verið mjög jákvæð. Vaxtastigið væri einsdæmi og gæti ekki gengið til lendar en síðast en ekki síst hamlaði íslenska krónan mjög fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum.

Stöðug almenn rekstrarskilyrði
Hörður sagði að markmiðið væri að skapa varanlegan hagvöxt og um leið bætt lífskjör. Búa þyrfti atvinnulífinu stöðug almenn rekstarskilyrði þannig að samkeppnisstaða útflutningsiðnaðar verði sambærileg því sem gerist best annars staðar. Samkeppnisforskot fyrirtækja þyrfti að nýtast og sem mestur virðisauki að skapast á Íslandi. Skapa þyrfti störf sem laða vel menntað vinnuafl til landsins og auðvelda útrás fyrirtækja. Mikilvægt sé að Samtök iðnaðarins komi á virkan hátt að þessari þróun þannig að hún verði að veruleika.

Gærur Harðar (fyrir Internet Explorer 5.x)