Staða og framtíð iðn- og verkmenntunar

Erindi Baldurs Gíslasonar skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík á Iðnþingi 15. mars 2002

Á Iðnþingi fjallaði Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík um stöðu og framtíð iðnmenntunar á Íslandi og kom víða við. Hann telur mikilvægt að atvinnulíf og skólar setji sér sameiginleg markmið og skapi iðn- og starfsmenntun nýja ímynd.

Baldur Gíslason á Iðnþingi 2002Á Iðnþingi fjallaði Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík um stöðu og framtíð iðnmenntunar á Íslandi og kom víða við. Hann telur mikilvægt að atvinnulíf og skólar setji sér sameiginleg markmið og skapi iðn- og starfsmenntun nýja ímynd. Þá leggur Baldur áherslu á að aðstaða í skólum og á vinnustöðum verði bætt og að endurmenntun kennara verði aukin og að skólar komi meira að vinnu við námskrárgerð er nú er.

Áhrif iðnaðarins á þróun starfsmenntunar
„Næstu hálfa öld, eða frá stofnun Iðnskólans í Reykjavík, var iðnmenntun að mestu undir stjórn iðnaðarmanna og reyndist þeim þungur fjárhagslegur baggi. Allt frá stofnun skólans hefur iðnaðurinn haft mikil áhrif á hvernig nám í iðn- og starfsmenntun hefur þróast hér á landi. Með nýjum lögum um Iðnskólann, sem sett voru árið 1955, tóku ríki og borg við rekstri skólans en mikil áhersla lögð á að tengsl atvinnulífsins og skólans.“


Dregið hefur úr áhrifum skólanna á námstilhögun
Í máli Baldurs kom skýrt fram að með nýjum lögum um framhaldsskóla sem sett voru árið 1996 dró úr áhrifum skólanna á innihald og tilhögun námsins. Hann nefndi sem dæmi að í 14 starfsgreinaráðum sem m.a. er ætlað að gera tillögur um tilhögun um hvernig eigi að byggja upp námið og semja námskrá og hafa eftirlit með gæðum kennslu og námsefnis situr enginn fulltrúi skóla nema þar sem menntamálaráðherra hefur tilnefnt skólamann sem sinn fulltrúa.. Þá gat hann þess að mikið hafi skort á að starfsgreinaráðin hafi sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Aðeins fjögur hafi skilað námskrá, sum hafi skilað skýrslum en önnur ekki gert neitt.

Áhersla á samskipti atvinnulífs og skóla
Baldur vitnaði í aðalnámskrá framhaldsskóla sagði m.a. að skil milli almennrar menntunar og starfsmenntunar verði stöðugt óljósari og að bóknám og verknám beri að þróa samhliða en ekki sem andstæður og lögð skuli aukin áhersla á samskipti skóla og atvinnulífs og samstarf við mótun námsins.

Of fáir nemendur leggja stund á iðn- og starfsnám
Helsta áhyggjuefnið hvað varðar þróun iðn-og starfsmenntunar er hve fáir innritast í slíkt nám. Árin 1956 -60 voru 37% nemenda í framhaldsskólum í iðn- og starfsnámi en undanfarin ár hefur sigið á ógæfuhliðina og nú er hlutfallið komið niður fyrir 20%. Hins vegar má geta þess að um 90% hvers árgangs fara í framhaldsnám og hefur fjölgað um 20% á 30 árum en þeim nemendum sem leggja stund á iðn- og tæknimenntun hefur ekki fjölgað í sama hlutfalli.Fjöldi nemenda, sem útskrifast úr iðn-og tækninámi hefur þó verið að mestu óbreyttur síðustu 20 árin.

Hvað ræður hvernig iðnnám þróast?
Fjárhagsstaða skólanna hefur verið erfið og margir skólar eiga í verulegum erfiðleikum og átt erfitt með að skinna skyldum sínum. Fjárframlag til framhaldsskóla er reiknað með reiknilíkani en til þessa hefur vægi verknáms í því líkani verið fjarri því að vera fullnægjandi. Blandaðir starfs- og bóknámsskólar haf einkum komið illa út úr líkaninu en nú hafa verið kynntar breytingar á því sem lofa góðu að mati Baldurs. Það sem til þessa hefur valdið erfiðleikum er að iðn- og verknámsskólar þurfa mikið fjármagn til tækjakaupa og ennfremur að námshópar eru, eðlis námsins vegna, miklu fámennari en í bóknámsskólum. Skólarnir hafa hins vegar verið of íhaldssamir og ekki lagað sig að breyttum tímum. Ekki síst þurfa þeir að tileinka sér meiri markaðs-og samkeppnishugsun.

Breytinga er þörf
„Nauðsyn er að koma á fót nýjum námsbrautum fyrir atvinnulífið,“ segir Baldur. Þeir skólar sem hafa reynt að koma á fót nýjum námsbrautum hafa oft mætt andstöðu fagfélaga. Þar er verk að vinna að mati Baldurs. Hann telur að sérstaklega þurfi að skoða stöðu löggiltra iðngreina því að samfélagið sé hröðum breytingum undirorpið og löggilding iðngreina þarfnist í því endurskoðunar. Nýjar námsbrautir séu fáar og starfsnámið byggist að mestu á hefðbundnum iðngreinum en vaxtarbroddinn sé að finna í hönnun, listum og tölvugreinum. Baldur segir að starfsgreinaráðin þurfi að herða sig upp og taka upp meiri samvinnu við skólana varðandi námskrárvinnu og fá skólana jafnvel til að bjóða í þá vinnu.

Þá telur Baldur að atvinnulífið og skólarnir eigi að snúa bökum saman hvað endurmenntun snertir. „Atvinnulífið á að skipuleggja endurmenntunina en láta skóla bjóða í framkvæmdina. Endurmenntunarstofnanir og dagskólar geta samnýtt tæki, búnað og jafnvel kennara en síðast en ekki síst húsnæði þannig að óþarft ætti að vera að byggja fleiri skólastofur í þessu skyni.“

Hvernig má bæta stöðu starfs-og iðnmenntunar?
Baldur telur mikilvægt að atvinnulífið og skólarnir setji sameiginleg markmið og vinni saman ef árangur eigi að nást. Samkeppnishæfni iðn- og starfsmenntunar verði að tryggja því að mikil samkeppni ríki um nemendur. Bæta þurfi aðstöðu í skólum og á vinnustöðum og auka endurmenntun kennara. Síðast en ekki síst þurfi að skilgreina þarfir morgundagsins og tryggja beinni þátttöku skólanna í skipulagningu námsins enda nauðsynlegt að þeir, sem eiga að framkvæma breytingarnar, taki þátt í að móta þær. Til þess að svo megi verða þurfi að breyta ýmsu í starfi skóla, ekki síst að hverfa frá eininga- og tímabundinni viðmiðun í kennslu. Þess í stað eigi að skilgreina verkin þannig að nemendur geti lokið námi á mun skemmri tíma en nú tíðkast og spara þar með stórfé. þá þurfi að gera stórátak til að skapa nýja iðn- og starfsnámi nýja ímynd og þar geti Samtök Iðnaðarins og Iðnskólinn snúið bökum saman.

Glærur Baldurs