Starfsskilyrði fyrirtækja

Ræða Vilmundar Jósefssonar formanns SI á Iðnþingi 15. mars 2002

upphafi máls síns ræddi Vilmundur nokkur helstu áhersluatriði stjórnar og ráðgjafaráðs Samtaka iðnaðarins á liðnu starfsári og sagði m.a. að auk Evrópumála og tilkomu evrunnar mætti draga höfuðmarkmið SI saman í eina setningu „Stöðugleikinn er það sem iðnaður þarfnast umfram allt annað.“

Vilmundur Jósefsson á Iðnþingi 2002Í upphafi máls síns ræddi Vilmundur nokkur helstu áhersluatriði stjórnar og ráðgjafaráðs Samtaka iðnaðarins á liðnu starfsári og sagði m.a. að auk Evrópumála og tilkomu evrunnar mætti draga höfuðmarkmið SI saman í eina setningu „Stöðugleikinn er það sem iðnaður þarfnast umfram allt annað.“ Hann byggðist á að losna við sveiflur í gengi, vöxtum og fjármagnskostnaði og að vextir lækki því að íslensk fyrirtæki þyldu ekki til lengdar að búa við tvöfalda vexti miðað við keppinautana og minnkandi verðbólga gæfi fullt tilefni til vaxtalækkana.

Vilmundur fagnaði lækkun tekjuskatts á fyrirtæki en taldi einnig brýnt að afnema stimpilgjöld og eignarskatt en einnig vörugjöld sem feli í sér tvöfalt kerfi neysluskatta. Samræmdar reglur eigi að gilda um innkaup ríkis og sveitarfélaga og arðsemi að ráða framkvæmdum. Þess verði að gæta að beita verklegum framkvæmdum til að draga úr sveiflum í stað þess að ýta undir þær.

Framtíðarsýn

Þá gat Vilmundur þess m.a. að á undanförnum árum hafi SI lagt talsverða vinnu í að móta iðnaðinum framtíðarsýn og Samtökin eigi að móta sér stefnu um það hvernig við viljum að íslenskt atvinnulíf líti út eftir 5 eða 10 ár en ekki hvernig við höldum að það líti þá út. Á mestu verðbólguárum síðustu aldar hafi lítið verið um áætlanagerð og efnahagsstjórnin hafi verið í samræmi við það með stöðugum inngripum til að mæta yfirvofandi neyðarástandi.

Stundum sé eins og við áttum okkur ekki á því hve mikið efnahagslífið hefur breyst. Ráðamenn þjóðarinnar tali jafnvel enn um að við lifum á fiskveiðum þó að fiskveiðar og fiskvinnsla séu aðeins um 10% af landsframleiðslu ársins 2000 og að hlutur sjávarafurða hafi verið 38% af útflutningstekjum vöru og þjónustu það ár en ekki 80% eins og flestir halda.

Heimatilbúinn vandi

Vilmundur sagði að árin 1994 - 2000 hefðu verið lengsta hagvaxtarskeið sögu íslenska lýðveldisins og við vildum trúa því að verðbólga, gengisfellingar, gjaldþrot og atvinnuleysi heyrðu sögunni til og flutum því sofandi að feigðarósi. Laun og annar kostnaður hafi hins vegar hækkað langt umfram framleiðniaukningu og umfram það sem keppinautar okkar búa við. Samkeppnisstaða okkar hafi því versnað til muna og gífurlegur viðskiptahalli fylgt í kjölfar aukinnar neyslu. Vaxtahækkanir sem komu of seint kyntu undir verðbólguna fremur en draga úr henni. Efnahagsvandinn sé heimatilbúinn og við verðum sjálf að koma okkur út úr honum og fagnaði því samkomulagi sem tókst milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í desember sl. og hvatti félagsmenn SI til að gæta fyllsta aðhalds í öllum rekstri sínum því að mikið væri í húfi að ná tökum á verðbólgunni.

Samkeppnismál og einkavæðing

Þá gerði formaðurinn samkeppnismál að umtalsefni. Íslenski markaðurinn sé smár og fákeppni og jafnvel einokun einkenni hann á mörgum sviðum s.s. flutningum, olíusölu, tryggingum og bankastarfsemi en slíkt væri aldrei til góðs. Slík fyrirtæki eigi ekki að brjóta upp heldur auka eftirlit með þeim og enn mikilvægara sé að greiða fyrir erlendri samkeppni og fjárfestingu á þessum sviðum til að tryggja nauðsynlega samkeppni sem bráðvantar í íslensku atvinnulífi. Þá verði að tryggja að umhverfi viðskiptalífsins lúti sömu reglum og annars staðar í Vestur-Evrópu. Fyrr getum við ekki vænst þess að ná bærilegum tökum á fákeppni og einokun á Íslandi.

Vilmundur sagði að á undanförnum árum hefði dregið nokkuð úr ríkri þátttöku ríkis- og sveitarfélaga en hvergi nærri nóg. Taka verði á þeim málum af miklu meiri festu en hingað til. Allur slíkur rekstur s.s. bankakerfið, Landssíminn og ÁTVR sé miklu betur kominn í höndum einkaaðila sem beri á honum fulla ábyrgð.

Iðn- og tæknimenntun hornreka

Þá vék Vilmundur máli sínu að iðn-og tæknimenntun sem hann telur hornreka í íslensku skólakerfi. Tölvu-og hátækniiðnaður hafi að vísu vaxið hér hröðum skrefum undanfarin ár en við stöndum ekki öðrum þjóðum ekki á sporði í framleiðni á klukkustund og starfs-, iðn- og tæknimenntuðu fólki fari fækkandi. Við byggjum ekki upp tæknivæddan iðnað án þess að mennta fólk til starfa þar.

Smáþjóðum í Evrópusambandinu hefur vegnað vel

Vilmundur taldi athyglisvert að skoða hvernig fámennustu ríkjunum innan ESB hefur vegnað og hver viðhorf íbúa þeirra eru til aðildarinnar þegar við hugum að því hvar við viljum skipa okkur í sveit í samfélagi þjóðanna. Fámennustu ríkin eru Lúxemborg, Finnland og Danmörk. Þá kemur í ljós að yfirgnæfandi meirihluti Lúxemborgara og Íra telur að aðildin að ESB sé góð, 60% Dana eru jákvæð en 37% Finnar telja aðildina góða en álíka margir hvorki góða né slæma. Ekki sé annað að sjá en að þessum þjóðum hafi vegnað vel innan ESB og það megi staðfesta með nokkrum tölum. Hagvöxtur þeirra var rúm þrjú til tíu prósent á árunum 1997 til 2001, einu mesta vaxtartímabili sem orðið hefur á Íslandi en samt náðum við ekki sama árangri og flest þessi ríki Meðaltal stýrivaxta var á bilinu fjögur til fimm prósent en rúm 9 prósent hjá okkur, eða helmingi hærra. Vilmundur sagðist með þessu rökstyðja að það sé bábilja að halda því fram að aðild henti ekki smáríkjum. Þessar þjóðir hafi hvorki verið sviptar frelsi sínu né fullveldi hvað þá að helstu hagsmunir þeirra hafi verið fótum troðnir og það sé ekkert sem bendi til annars en að hið sama muni gilda um okkur.

Evran og óstöðug króna

Vilmundur sagði tilkoma evrunnar sem myntar um áramótin í 12 af 15 ESB löndum hafa verið stærsta skrefið sem stigið hafi verið í þá átt að auðvelda viðskipti á ESB svæðinu. Sameiginleg mynt auðveldi öll viðskipti en það sé vissulega áhyggjuefni fyrir okkur að njóta ekki gengisstöðugleika og lægri vaxta líkt og keppinautar okkar innan ESB. Veikur og óstöðugur gjaldmiðill fæli frá erlenda fjárfesta en varleg áætlun bendi til að við greiðum u.þ.b. 24 milljarða á ári í aukakostnað sem rekja megi til krónunnar. Það sé lífseigur misskilningur að Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum komi best að búa við allt aðrar leikreglur og starfskilyrði en aðrar þjóðir. Reynslan af EES samningnum sanni að okkur henti best að búa við skýrar leikreglur, stöðugt verðlag og gengi og eðlilegt vaxtastig en það fáum við ekki meðan við höldum í íslensku krónuna.

Þjóðin veit hvað hún vill

Í lokakafla ræðu sinnar skýrði Vilmundur frá niðurstöðum könnunar sem PriceWaterHouseCoopers gerði í febrúar um afstöðu Íslendinga til ýmissa atriða varðandi aðild að ESB. Þar sögðust 52% hlynnt aðild en 25% andvíg og hafði þeim sem eru hlynntir aðild fjölgað um 9 prósentustig á einu ári. 55% sögðust hlynnt því að taka upp evru en 33% andvíg, tæp 67% töldu það gott fyrir efnahag Íslands að ganga í ESB en rúm 90% sögðust hlynnt því að taka upp aðildarviðræður við ESB til að ganga úr skugga um hvað Íslendingum stendur til boða við aðild. Hver könnunin á fætur annarri sýni svo að ekki verði um villst hvað þjóðin vilji í þessum efnum og félagsmenn SI séu sömu skoðunar skv. könnun sem gerð var sl. haust.

Ekki eftir neinu að bíða

„Niðurstaða SI er sú að hefjast eigi handa enda ekki eftir neinu að bíða. Því fyrr sem við tökum af skarið því betra. Þá verður ljóst hvert við ætlum og hvaða árangri við þurfum að ná í efnahagsmálum til þess að taka upp evruna. Þetta mun hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið, örva fjárfestingar, auka stöðugleika og lækka vexti. við þurfum að vinna markvisst að því að uppfylla skilyrði fyrir aðild að efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Sú ákvörðun ein að sækja um aðild að Evrópusambandinu mun koma að miklu gagni í þeim efnum,“ sagði Vilmundur að lokum.

Ræða Vilmundar með gröfum (á PDF sniði).