Stjórnvöld styðji tækniþróun og nýsköpun

Ræða iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Iðnþingi föstudaginn 15. mars 2002

Ráðherra gat þess m.a. að óvenjumörg þingmál væru nú á vettvangi iðnaðar-og viðskiptaráðuneytis. Þeirra á meðal eru nýskipan opinbers stuðnings við vísindi og nýsköpun, tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir næstu fjögur ár, Kárahnjúkavirkjun og álver Norals á Reyðarfirði og þróun vaxtamála síðustu misseri.

Valgerður Sverrisdóttir á Iðnþingi 2002Ráðherra gat þess m.a. að óvenjumörg þingmál væru nú á vettvangi iðnaðar-og viðskiptaráðuneytis. Þeirra á meðal eru nýskipan opinbers stuðnings við vísindi og nýsköpun, tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir næstu fjögur ár, Kárahnjúkavirkjun og álver Norals á Reyðarfirði og þróun vaxtamála síðustu misseri.

Öllum atvinnugreinum verði þjónað jafnt

Þrjú frumvörp lúta að stefnumótun stjórnvalda um stuðning við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun atvinnulífsins. Ráðherrann sagði . m.a. að ekki færi milli mála að þar væri á ferðinni veigamikil breyting á málaflokki sem snerti mjög marga, einkum þau fyrirtæki sem stunda rannsóknir, vöruþróun og nýsköpun og fella megi í flokk þeirra fyrirtækja sem bera uppi vaxtarbrodda atvinnulífsins. Því væri mikilsvert að þessi breyting yrði atvinnulífinu gæfuspor

Framkvæmdir við virkjanir

Tilgangur frumvarps til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar er að afla lagaheimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun sem sé nauðsynleg vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi sem áformað er að ráðast í á næstu árum. Ráðherrann telur að þær framkvæmdir hafi veruleg áhrif á þjóðfélagið í heild og mjög mikil á samfélagið á Mið-Austurlandi. Mikilvægt sé að haft sé í huga að þessi verkefni muni leiða til þess að samfélag, sem nú einkennist af stöðnun og samdrætti í atvinnulífinu, eigi þess kost að breytast í samfélag uppgangs og athafnasemi.

Markmiðið að jafna búsetuskilyrði

Ráðherrann sagði meginmarkmið stefnu í byggðamálum næstu ár m.a. þau að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks eftir búsetu, stuðla að eflingu sveitarfélaga, byggja upp trausta byggðakjarna, auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína og skapa fjölbreytta kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl og auka fjölbreytni í atvinnulífi, jafna starfsskilyrði.

Samkeppni í framleiðslu og sölu rafmagns

Vonir standa til að frumvarp til orkulaga verði að lögum á þessu vori en það felur í sér endurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku.

Frumvarpið byggðist að sögn ráðherra á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hefðu verið að ryðja sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. þar er horfið frá einokun eins og unnt er en þess í stað markaður grunnur að markaðsbúskap. Í því felist að samkeppni verði komið á í framleiðslu og sölu rafmagns. Frá ársbyrjun 2004 ættu allirað geta valið þann raforkusala sem þeir vilja eiga viðskipti við.

Stefna í byggðamálum

Fyrir tveimur árum bættust byggðamál á könnu iðnaðarráðuneytisins. Stærsta verkefnið í þeim málaflokki hefur verið gerð tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum næstu fjögur ár. Helstu markmið áætlunarinnar eru m.a.að draga úr mismun lífskjara og afkomumöguleika fólks milli byggðarlaga, stuðla að eflingu sveitarfélaga, byggja upp trausta byggðakjarna og auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Meðal annars er stefnt að því að láta gera heildarathugun á hver sé raunverulegur munur á starfsskilyrðum fyrirtækja og sjálfstætt starfandi atvinnurekenda eftir landssvæðum.

Engin einhlít skýring á auknum vaxtamun sl. ár

Í lok ræðu sinnar sagðist ráðherrann geta tekið undir áhyggjur Samtaka iðnaðarins af háum vöxtum enda séu þeir að sliga mörg skuldsett heimili og fyrirtæki. Á síðasta ári hefði verið gerð könnun á álagningu bankakerfisins á síðustu árum og niðurstaðan væri sú að vaxtamunur bankakerfisins hefði lækkað ár frá ári í 6 ár en á fyrri helmingi síðasta árs hefði hann hins vegar aukist án þess að á því væri einhlít skýring. Til að lækka vexti hér á landi skipti mestu máli að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og ráða niðurlögum verðbólgunnar. Von sín væri sú að vaxtamunurinn minnkaði með aukinni samkeppni bankanna atvinnulífinu til hagsbóta.

Ræða iðnaðar- og viðskiptaráðherra í heild