Samkeppnisstaða Íslands í samfélagi þjóðanna - Ræða

- Erindi Utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar á Iðnþingi 15. mars 2002 - (Talað orð gildir)

Ég vil byrja á að þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa Iðnþing ársins 2002. Umrót undanfarinna mánaða hefur haft víðtæk áhrif í alþjóðasviðskiptum. Það er vart til það ríki eða það fyrirtæki sem ekki hefur orðið fyrir barðinu á afleiðingum hryðjuverkanna þann 11. september s.l. Í þessu umróti er ríkari ástæða en oftast áður að huga að samkeppnisstöðu Íslands sem mun marka velmegun okkar og framtíð umfram flest annað.

Ég vil byrja á að þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa Iðnþing ársins 2002. Umrót undanfarinna mánaða hefur haft víðtæk áhrif í alþjóðasviðskiptum. Það er vart til það ríki eða það fyrirtæki sem ekki hefur orðið fyrir barðinu á afleiðingum hryðjuverkanna þann 11. september s.l. Í þessu umróti er ríkari ástæða en oftast áður að huga að samkeppnisstöðu Íslands sem mun marka velmegun okkar og framtíð umfram flest annað.

Samkeppnisskilyrði og hnattvæðingin
Frjáls og opin milliríkjaviðskipti eru forsenda þeirrar hagsældar sem við búum við hér á landi.

Stjórnvöld og atvinnulífið eru samherjar í að skapa þær aðstæður. Fyrir atbeina stjórnvalda hafa atvinnulífinu verið búin skilyrði til að selja framleiðslu sína hindrunarlaust á erlenda markaði, flytja inn meginþorra vara án takmarkana, fá hingað til lands vinnuafl, fjárfesta erlendis og svo mætti lengi telja.

Viðskipti milli landa eru háð reglum sem eiga sér stoð í samningum margra ríkja sín í milli. Þeir eiga það sammerkt að færa útflutningsfyrirtækjum tækifæri til sóknar á erlendum mörkuðum og er ætlað að stuðla að frjálsum viðskiptum. Þetta er í raun grundvöllur hinnar svonefndu hnattvæðingar sem er forsenda sóknar íslensks atvinnulífs.

WTO
Alþjóðaviðskiptastofnunin gegnir sífellt stærra hlutverki í að skapa þessa umgjörð greiðari og opnari viðskipta milli ríkja en aðildarríki hennar eru nú 144.

Þau hafa nýverið samþykkt að hefja nýja viðræðulotu með það að markmiði að greiða enn frekar fyrir alþjóðaviðskiptum.

Þó vissulega sé ýmislegt við ýmsa þætti alþjóðavæðingar að athuga þá er það óumdeilt að frjálsari viðskipti skila sér beint til neytenda. Nýlega kom fram hjá fjármálaráðherra Bandaríkjanna að áhrif stofnunar WTO og NAFTA hafi leitt til þess að árstekjur 4 manna fjölskyldu í Bandaríkjunum hafi aukist um allt að 2000 dollara.

Í takt við aukið vægi annarra atvinnugreina en sjávarútvegs aukast hagsmunir okkar af því að stofnunin nái fram markmiðum sínum um greiðari alþjóðaviðskipti. Þetta skiptir m.a. máli fyrir hátækniiðnaðinn og lyfjaiðnaðinn sem eru að festa rætur hér á landi.

Á vettvangi WTO hefur Íslandi tekist að ná fram tollalækkunum á íslenskar vörur. Má t.d. nefna að í nýlegum samningum við Kína um aðild að WTO náði Ísland fram lækkunum á 51 vöruflokki. Nú standa yfir viðræður við Rússland um aðild að WTO þar sem Ísland vonast til að ná einnig fram verulegum lagfæringum.

Til þess að nýta sem best þau tækifæri sem skapast í komandi viðræðulotu er mikilvægt að atvinnulífið skilgreini hagsmuni sína á erlendum mörkuðum því það er forsenda þess að samningarnir skili ávinningi. Okkur er nauðsynlegt að vita hvar skóinn kreppir.

Fríverslunarsamningar
Sérstakir fríverslunarsamningar eru viðbót við og ganga lengra en samningar WTO. EFTA hefur á undanförnum árum gert verulegt átak í gerð slíkra samninga. Nú eru senn í gildi samningar við 18 ríki vítt og breitt um heiminn. Þeir eiga það allir sammerkt að skapa útflutningsgreinum forskot á mörkuðum þessarra ríkja og tryggja fulla fríverslun með fisk og taka því framar samningum okkar við ESB.

Fyrir Alþingi liggja nú þrír nýir samningar, við Króatíu, Makedónu og Jórdaníu.

Viðræðum lauk nýverið um samning við Singapúr og viðræður standa yfir undir forystu Íslands við Chile þar sem Íslendingar hafa þegar fest sig í sessi á afmörkuðum sviðum. Við gerum okkur einnig vonir um að samningum ljúki við Kanada á næstunni.

Fyrir dyrum standa viðræður við t.d. Suður Afríku sem ætla má að sé vaxandi markaður.

Aðrir samningar
Utan ramma fjölþjóðlegra samninga sem ég hef nefnt stendur fjöldi tvíhliða samninga sem eiga það sammerkt að styðja enn frekar við útflytjendur og þá sem kjósa að fjárfesta á erlendri grundu. Má hér nefna fjárfestingasamninga við ríki eins og Kína og Lettland og samninga við um 30 ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun. Áfram verður haldið á þessari braut en allt eru þetta samningar sem styrkja í sessi þann ávinning sem viðskiptasamningarnir fela í sér og eru forsenda þess að fyrirtæki byggi upp frekari starfsemi.

EES-samningurinn
Ég hygg að enginn efist um að mikilvægasti samningur okkar af þessu tagi er EES-samningurinn.

Ljóst er að innri markaður EES er okkar mikilvægasti markaður. Hann munu væntanlega mynda 28 ríki frá árinu 2004 með fimm hundruð milljón íbúa. Nauðsynlegt er að tryggja stöðu okkar sem best á þessum markaði þar sem ætla má að mikilvægi hans aukist í takt við aukna hagsæld í nýjum aðildarríkjum.

Með EES-samningnum og aðild okkar að innri markaðnum hafa í raun öll landamæri verið brotin niður innan svæðisins. Fjárfestingar milli landa á svæðinu eru að mestu frjálsar, fjármagn er í frjálsu flæði svo og vörur og fólk. Aðildarríki innri markaðarins eru í innbyrðis samkeppni, fyrirtæki á innri markaðnum keppa án tillits til landamæra og svo mætti lengi telja. Því er enn mikilvægara en ella að stjórnvöld tryggi að hér á landi séu allar aðstæður jafnfætis því sem best gerist á EES-svæðinu.

Íslensk fyrirtæki hafa í auknum mæli tileinkað sér þetta frelsi í fjárfestingum og fjármagnsflutningum. Fleiri og fleiri koma starfsemi sinni fyrir í öðrum EES-ríkjum eða verðandi EES-ríkjum í mið og austur Evrópu; einkum með því að fjárfesta þar í starfandi félögum.

Þessi útrás er mikið fagnaðarefni. Á sama tíma hljótum við þó að spyrja okkur hvort umhverfið hér á landi sé með þeim hætti að vænta megi þess að fjárfestingar beinist hingað til lands. Það verðum við að tryggja þar sem það er meginforsenda þess að við fáum nýtt orkuauðlindir og skapað nauðsynlega fjölbreytni í atvinnulífinu.

Áhrif alþjóðasamninga
Þessir samningar tryggja íslenskum fyrirtækjum kjör á erlendum mörkuðum sem eru sambærileg við það besta sem gerist, þeir tryggja að tollum og öðrum viðskiptahindrunum sé rutt úr vegi; þeir eru grundvöllur frjálsra viðskipta. Ef einungis er horft til þess svæðis sem myndað er af EES-samningnum, EFTA samningnum og fríverslunarsamningunum er um að ræða 37 ríki með 700 milljónir íbúa.

Vissulega er það undir fyrirtækjunum komið hvernig tækifæri af þessu tagi eru nýtt. Það er hins vegar hlutverk stjórnvalda að vera þeim stoð og stytta svo þau megi sem best nýta þau tækifæri sem þessir samningar bjóða.

Það eru ekki síst tækifærin til framtíðar sem samningunum er ætlað að tryggja. Þeir opna markaði sem áður hafa verið lokaðir með tollum eða öðrum hindrunum. Það er t.d. ánægjulegt að geta þess að þar til fríverslunarsamningur við Mexíkó tók gildi var 35% tollur lagður á innflutning okkar á fiski til Mexíkó og því var útflutningur þangað enginn. Jafnskjótt og þessum tolli var aflétt tókst íslensku fisksölufyrirtæki að ná samningi um sölu á fiski fyrir 500 milljónir króna. Tollur af þeirri sölu hefði ella verið um 140 milljónir króna. Slíkir tollar skilja á milli feigs og ófeigs í viðskiptum. Vitaskuld höfum við hér tryggt forskot fyrir EFTA fyrirtækin. Þeir sem ekki hafa fríverslun búa enn við sama toll.

Það er ekki í öllum tilvikum sem árangurinn er mælanlegur með þessum hætti. Það er heldur ekki ævinlega markmiðið að geta mælt hann með svo áberandi hætti sem í þessu tilviki. Það er ekki síður mikilvægt að við höfum í huga hagsmuni sem mælast ekki hátt í þjóðhagsreikningum en geta hins vegar varðað einstök landsvæði miklu eða jafnvel einstök fyrirtæki.

Í þessu sambandi eru engin viðskipti of smá, ekkert fyrirtæki of lítið og ekkert landsvæði afskipt. Litlu tölurnar verða fljótt að stórum tölum og margt smátt gerir eitt stórt.

Utanríkisþjónustan og atvinnulífið
Við megum vel við una varðandi þann ramma sem hefur verið skapaður atvinnulífinu á sviði fríverslunar, þótt starfið haldi áfram.

Það er á hinn bóginn ekki svo á þessu sviði frekar en til sjós að það nægi að hafa landað aflanum; úr honum þarf að vinna verðmæti.

Utanríkisþjónustan er þjónusta við fólk og fyrirtæki. Uppbygging hennar undanfarin ár hefur haft að meginmarkmiði að styrkja þá þætti hennar er snúa að utanríkisviðskiptum og þar með þjónustu við útflytjendur.

Vissulega geta menn deilt um hve langt skuli ganga í að styrkja utanríkisþjónustuna í þágu atvinnulífsins. Íslenska utanríkisþjónustan er ekki umfangsmikil. Hins vegar er nauðsynlegt að hún sé í stakk búin til að veita eftir því sem kostur er sambærilega þjónustu og tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins er dæmi um þjónustu sem veitir útflytjendum mikilvæga aðstoð við að koma vörum og þjónustu á markað erlendis. Starfsemin hefur einnig þróast í takt við alþjóðavæðinguna með því að æ fleiri íslensk fyrirtæki leita nú aðstoðar við að tengjast fyrirtækjum á alþjóðavettvangi með samstarf og samruna í huga en ekki eingöngu útflutning. Endurspeglar þetta þörf íslenskra fyrirtækja á að stækka og eflast hraðar en áður og ná til stærri markaða. Vegna mikillar eftirspurnar stöndum við frammi fyrir nauðsyn þess að styrkja þennan þátt.

Það er ekki síður mikilvægt að okkur hefur tekist að virkja það net sendiráða og ræðisskrifstofa sem við höfum yfir að ráða á okkar mikilvægustu mörkuðum en þar starfa á mörgum stöðum sérstakir viðskiptafulltrúar með haldgóða staðarþekkingu.

Vissulega koma upp álitamál um túlkun og framkvæmd þeirra samninga sem ég hef nefnt. Í þeim er að finna ferli til að taka á slíkum málum. Reglulega hittast samningsaðilar og fara yfir mál. Hér er um að ræða ákjósanlegan vettvang til lausna á vandamálum sem koma upp í viðskiptum aðildarríkja. Full ástæða er til að hvetja fyrirtæki til að nýta sér þessa leið og vekja athygli ráðuneytisins á vandamálum af þessu tagi; án vitneskju um þau verða þau ekki tekin upp.

Hagvöxtur og útflutningur
Með sífellt opnari markaði verður mikilvægara að umgjörð atvinnulífsins hér á landi sé á við það besta sem gerist í samkeppnislöndum okkar.

Það er grundvallaratriði að okkur auðnist að skapa hér á landi hagstætt umhverfi fyrir fjárfestingar sem styrki enn frekar stoðir útflutnings og stuðli um leið að áframhaldandi hagvexti. Erfitt verður að viðhalda stöðu okkar í hópi fremstu iðnríkja heims nema hagvöxtur verði á næstu árum meiri en hann hefur verið síðustu tvo áratugi. Annað leiðir til lakari lífskjara hér á landi.

Forsenda þess að ná því markmiði er sterk samkeppnisstaða Íslands. Til að styrkja hana er okkur nauðsynlegt að horfa til ýmissa þátta. Við verðum að viðhalda hagstæðu og stöðugu raungengi krónunnar og í því efni er almennur stöðugleiki í efnahagsmálum lykilatriði.

Í þessu samhengi er afar brýnt að við horfum til stöðu okkar gagnvart okkar stærsta markaði sem er EES-svæðið. Ekki er einungis mikilvægt að vera hluti af sameiginlegum markaði 500 milljóna manna heldur ekki síður að hafa áhrif á þau samkeppnisskilyrði sem sköpuð eru á þeim markaði. Eitt af því sem mestu máli skiptir er að fyrirtæki og einstaklingar búi við sambærilegan fjármagnskostnað.

Evran
Á meginþorra innri markaðar ESB er nú í gildi sameiginlegur gjaldmiðill og sameiginleg gengisstefna. Með fullri gildistöku evrunnar hefur stórum áfanga verið náð í samstarfi aðildarríkja ESB á innri markaðnum.

Flest bendir til að þau aðildarríki ESB sem enn standa utan evrunar verði hluti hennar innan fárra ára. Við þær aðstæður færu 2/3 hlutar útflutnings Íslands til evrusvæðisins og um leið er ljóst að evran léki stórt hlutverk í íslensku efnahagslífi.

Evran felur í eðli sínu í sér að ríkjum eru settar skorður um stjórn efnahagsmála. Tilteknum aðgerðum eins og í gengismálum yrði ekki lengur beitt til að jafna sveiflur.

Vissulega má í ljósi sögunnar halda því fram að í evrunni fælust hættur fyrir Ísland. Efnahagskerfi Íslands hefur verið sveiflukennt sem byggist ekki síst á því að samsetning útflutnings er einhæf; stærsta uppsprettan er afrakstur eins atvinnuvegar. Með markvissri uppbyggingu annarra atvinnuvega undanfarin ár, aukinni hagræðingu í sjávarútvegi og skilvirkari fiskveiðistjórnun hefur dregið verulega úr þessari tilhneigingu.

Evran og Ísland
Þó Ísland sé ekki aðili að evrunni verður ekki komist hjá því að við metum stöðu okkar gagnvart henni.

Það er t.d. mikilvægt að meta hvort evran og þróun hennar á innri markaðnum kunni að verka letjandi á fyrirtæki til fjárfestinga hér á landi.

Það sem bent hefur verið á sem meginávinning af að taka þátt í evrunni er að vextir hér á landi lækka og verða á svipuðu stigi og á evrusvæðinu.

Í upphafi er eðlilegt að vara við því að eina lausnin til lækkunar vaxta sé aðild að evrunni. Vissulega stefnum við að því að vaxtastig okkar sé ekki óhagstæðara en á evrusvæðinu. Það er þó samdóma álit flestra að aðstæður geri það að verkum að vextir verði ávallt hærri hér en á evrusvæðinu.

Það er einnig nauðsynlegt að vara við því að einfalda hlutina í þessu efni. Einkum á það við þegar metið er hver ávinningurinn yrði af lækkun vaxtakostnaðar.

Nefnd sem skilaði mér í byrjun árs 1999 skýrslu um alþjóðavæðinguna og hugsanleg áhrif hennar á utanríkisviðskipti Íslands er nú að yfirfara skýrsluna í ljósi breyttra aðstæðna.

Í tengslum við starf hennar hefur Þjóðhagsstofnun áætlað að við upptöku evru hér á landi kunni raunvaxtastig að lækka um 11/2-2 prósentustig sem myndi á ársgrundvelli valda lækkun vaxtagreiðslna um 15 milljarða króna eða svo. Af þeirri lækkun féllu 2/3 hlutar falla til heimilanna eða um 10 milljarðar króna eða sem nemur um 140 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Ekki er síður mikilvægt að horfa til afleiddra áhrifa evrunnar. Þar má nefna að lækkun vaxtakostnaðar hefur veruleg áhrif á framleiðslustig hér á landi þar sem lækkun vaxta hefur m.a. áhrif til aukningar á fjárfestingu sem eykur framleiðni vinnuafls. Gera má ráð fyrir að lækkun vaxtastigs hefði í för með sér hækkun landsframleiðslu um 2% innan tveggja áratuga umfram það sem annars yrði. Miðað við 2,5-3% árlegan hagvöxt yrði landsframleiðslan um 25 milljörðum meiri en ella eftir 20 ár.

Þessu til viðbótar er einnig nauðsynlegt að horfa til þess að áhætta sem lántakendur á erlendum markaði búa við í dag yrði ekki lengur fyrir hendi. Ekki er heldur óvarlegt að ætla að staða Íslands sem vænlegs fjárfestingakosts styrkist.

Þetta eru grundvallaratriði við mat á okkar samkeppnisstöðu til framtíðar. Nauðsynlegt er að halda áfram athugunum á þessum þáttum og er mér kunnugt um að Seðlabankinn vinnur einnig að könnun á þessum atriðum og er niðurstöðu að vænta innan tíðar.

Umræður um hugsanlega aðild
Nú á sér stað mikil umræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er gagnleg og nauðsynleg umræða sem varðar grundvallaratriði, mikilvægustu framtíðarhagsmuni Íslands. Hún snertir fullveldi, samkeppnishæfni, kaupmátt, byggðamál, vöruverð, auðlindanýtingu, félagsleg réttindi, öryggismál og áhrif á alþjóðavettvangi svo eitthvað sé nefnt.

Hinn sameiginlegi gjaldmiðill, evran, verður að mínu mati mesti áhrifavaldurinn í þessari umræðu. Evran er tekin upp vegna innri markaðarins sem við erum aðilar að. Evran hefur í för með sér hagræðingu fyrir einstaklinga og fyrirtæki og styrkir samkeppni á markaðnum. Evran er hagstæð neytendum þar sem hún eykur samkeppni og gerir verðlag sýnilegra milli landa.

Stóra spurningin er hvort Ísland þoli til lengdar þá skertu samkeppnishæfni sem kann að fylgja því að standa utan evrunar. Erum við reiðubúin að taka þá áhættu að fyrirtæki horfi í meira mæli til evrusvæðisins til fjárfestinga? Erum við tilbúin að búa við hugsanlegan minni hagvöxt af þessum sökum til lengri tíma litið? Erum við tilbúin að sætta okkur við það að heimilin í landinu þurfi að bera meiri vaxtabyrði af þessum sökum?

Allt eru þetta spurningar sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Mikilvægt er að okkar sérfræðingar á Þjóðhagsstofnun og í Seðlabankanum leggi mat á þessa þætti.

Í mínum huga er ljóst að opin umræða verður að halda áfram eigi okkur að auðnast að taka skynsamlegar ákvarðanir um eigin framtíð á næstu misserum eða árum. Þar takast á kostir og gallar eins og í öllum öðrum stórum málum.

Þar er ykkar þekking og reynsla mikilvæg því kröftugur iðnaður skiptir sköpum um framtíðina.

Höldum vöku okkar
Á hefðbundnum mælikvörðum var Ísland lokað land fyrir 10-15 árum; jafnvel gjaldeyrir til ferðalaga var háður takmörkunum.

Markvissar aðgerðir hafa skapað forsendur fyrir þeirri sókn sem verið hefur í íslensku efnahagslífi undanfarin ár. Í því sambandi skiptir ekki síst máli að í öllum meginatriðum hefur útflutningsiðnaðurinn reynst samkeppnisfær á erlendum mörkuðum og tekist að nýta sér þá þróun sem orðið hefur með víðtækum alþjóðlegum samningum um viðskipti.

Að viðhalda þessari stöðu krefst þess að við höldum vöku okkar á öllum sviðum. Á það bæði við um fyrirtæki og stjórnvöld. Stjórnvalda er að skapa þær aðstæður að áfram verði eftirsóknavert að lifa og starfa í landinu. Við þurfum að gæta þess að staða okkar raskist ekki. Nýsamþykktar skattkerfisbreytingar eru liður í þeirri viðleitni. Í þessum efnum erum við Íslendingar eigin gæfu smiðir en ekki verður horft framhjá því að ytri aðstæður hafa sterk áhrif á efnahagslegar forsendur hér á landi. Því verðum við að fylgjast grannt með þróun mála og meta sífellt stöðu okkar í samkeppni þjóðanna. Þar skiptir Evrópa og innri markaðurinn mestu máli. Þar ræðst framtíð iðnaðarins, þar ræðst framtíð Íslands.