Samsetning atvinnulífsins og líklegar breytingar næsta áratug

- Útdráttur úr erindi Páls Skúlasonar rektors HÍ á Iðnþingi 2003 -

Páll ræddi m.a um stjórnkerfið, hagkerfið og grundvallarþætti hinnar lifandi mannveru sem væri skynjandi, hugsandi og skapandi. Stjórnkerfið væri kerfi þjóðríkisins en rökvísi stjórnmálanna fælist í réttlæti og lýðræði. Fyrirtækin treystu á rökvísi viðskipta- og efnahagslífs en markmið þess væri arðsemi. Menntastofnanir stæðu vörð um rökvísi menningar og félagslífs og menntunin væri afurð þeirra. Þá vék háskólarektor m.a. að tengslum menntastofnana, þ.á m. Háskóla Íslands, og fyrirtækja.

Páll Skúlason rektor HÍ á Iðnþingi 2003Páll ræddi m.a um stjórnkerfið, hagkerfið og grundvallarþætti hinnar lifandi mannveru sem væri skynjandi, hugsandi og skapandi. Stjórnkerfið væri kerfi þjóðríkisins en rökvísi stjórnmálanna fælist í réttlæti og lýðræði. Fyrirtækin treystu á rökvísi viðskipta- og efnahagslífs en markmið þess væri arðsemi. Menntastofnanir stæðu vörð um rökvísi menningar og félagslífs og menntunin væri afurð þeirra. Þá vék háskólarektor m.a. að tengslum menntastofnana, þ.á m. Háskóla Íslands, og fyrirtækja.

„Í HÍ starfa nú um 1800 kennarar sem flestir hafa aðalstarf annars staðar í þjóðfélaginu. Árlega koma yfir 12 þúsund nemendur á námskeið sem Endurmenntun Háskóla Íslands stendur fyrir og fleira starfsfólk fyrirtækja tengist menntakerfinu bæði sem nemendur og kennarar. Auk þess tengjast mörg rannsóknaverkefni nemenda og kennara fyrirtækjum þannig að bilið milli skóla og fyrirtækja fer stöðugt minnkandi.

Hnattvæðingin einkennir samtímann og hún hefur í för með sér menningarlegar, pólitískar og efnahagslegar breytingar. Með henni hefur orðið bylting í tengslum og samskiptum og aukin eftirspurn eftir menntuðu vinnuafli. Þá hefur skapast markaður fyrir kennslu og rannsóknir. Hnattvæðingunni hefur einnig fylgt rótleysi. Spurningin er hvort við, sem áhorfendur, getum séð heiminn sem heild. Hnattvæðingin hefur einnig haft öryggisleysi í för með sér. Við veltum því líka fyrir okkur hvernig við getum tryggt tilveru okkar í ótryggum heimi. Áhersla á mannauð hefur aukist en öryggisleysi starfsfólks hefur aukist að sama skapi vegna sífelldra breytinga. Störfum fólks fylgir spenna, álag og áreiti og leiðindi, kvíði og tómleiki sækja að.

Nemendum í Háskóla Íslands hefur fjölgað til muna á undanförnum árum. Brautskráðum nemendum hefur fjölgað úr 880 árið 1997 í 1128 í fyrra. Nemendur í Háskóla Íslands eru nú rösklega 8000 af um 14000 alls á háskólastigi eða um 57%. Verði árlegur vöxtur næstu 10 ár sá sami og meðaltal síðastliðinna 5 ára verða nemendur á háskólastigi 33.700 og þar af 19.200 í Háskóla Íslands.

Við sama vöxt verða 23% vinnuafls á Íslandi háskólamenntuð eftir 10 ár. Þeim, sem hafa aflað sér háskólamenntunar, hefur fjölgað úr 11% í 16% á tíu árum en þeim, sem hafa lokið starfs- og framhaldsskólanámi, hefur hins vegar fækkað úr 47 í 42%. Til samanburðar eru 23% Evrópubúa á aldrinum 35-39 ára nú með háskólapróf en aðeins 16% þeirra sem eru á aldrinum 55-59 ára.

Um helmingur fjölgunar vinnuaflsins kemur úr röðum háskólamenntaðra manna og kvenna eða um 10.600 manns á sl. tíu árum en þeim, sem hafa lokið starfs- og framhaldsskólanámi, hefur fjölgað um 2.500 manns. Þeim, sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun, hefur fjölgað um 9.100 á sama tíma. Við sama vöxt verða háskólamenntaðir starfsmenn rösklega 41.000 að tíu árum liðnum.

Meginverkefni næstu tíu ára verður að tryggja atvinnu fyrir æ betur menntað vinnuafl. Annars verða Íslendingar eftirbátar annarra þjóða og menntafólk flyst af landi brott. Skapa þarf raunverulegt þekkingarþjóðfélag á Íslandi. Framlag Háskóla Íslands verður m.a. uppbygging Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Þekkingarþorp eru þyrpingar rannsóknafyrirtækja sem byggja brú milli háskóla og atvinnulífs og auka verðmætasköpun í samfélaginu með því að skapa vettvang og meningu sem eflir nýsköpun og bætir samkeppnishæfni þekkingarfyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla í alþjóðlegu samhengi.

Flestir, sem starfa í vísindagörðum, eru háskólamenntaðir. Í Svíþjóð fjölgaði starfsmönnum í vísindagörðum um 35 þúsund frá árinu 1994 – 2000. Um helmingur fyrirtækja í vísindagörðum verður til við nýsköpun eða hefur þar rekstur. Vaxandi atvinnu er að fá í hugmynda- og hönnunargreinum. Heilsteypt mennta- og rannsóknaumhverfi skapar skilyrði fyrir öfluga þróun í fjölmörgum greinum s.s. á sviði líftækni, upplýsingatækni, sjávarútvegs, heilsu-og heilbrigðisþjónustu, menningar og mennta. Vaxandi atvinna skapast einnig í menntun og menningarstarfi. Íslenskt fræðastarf skapar mikla möguleika t.d. fyrir menningartengda ferðaþjónustu, nám fyrir útlendinga og menningu sem atvinnugrein.

Hvað skiptir máli fyrir okkur sem þjóð, fyrir okkur hvert og eitt og fyrir okkur sem andlegar verur? Við eigum að einbeita okkur að því að skapa gagnsætt og lýðræðislegt stjórnkerfi, alþjóðlegri og öflugri fyrirtæki, auðugri og fjölbreyttari mennta- og menningarstofnanir. Þar með eru aðstæður fyrir fleiri og meiri ævintýri í atvinnu- og menningarlífi á Íslandi.“

Að lokum brá Páll upp mynd af þyrpingu vísindagarða sem hugmyndin er að reisa í Vatnsmýrinni og benti á að ef fyrstu leigjendur gæfu sig fram núna væri hægt að byrja að byggja í haust og þá gætu fyrstu byggingarnar verð tilbúnar eftir rúmt ár.

Glærur Páls á PDF sniði