Staða Íslands í samfélagi þjóðanna - Hvar verðurm við árið 2013?

- Útdráttur úr erindi Þorvaldar Gylfasonar prófessors á Iðnþingi 2003 -

„Til að vita hvert við stefnum verðum við að vita hvar við stöndum nú? Hvernig mælum við framleiðni og lífskjör og hvernig hafa skattar og skuldir þróast? Svarið er að við stefnum fram á við á flestum sviðum. Ég tel einnig að við stefnum inn í Evrópusambandið með evrunni og öllu saman löngu fyrir árið 2013,“ sagði Þorvaldur í upphafi erindis síns.

Þorvaldur Gylfason prófessors á Iðnþingi 2003„Til að vita hvert við stefnum verðum við að vita hvar við stöndum nú? Hvernig mælum við framleiðni og lífskjör og hvernig hafa skattar og skuldir þróast? Svarið er að við stefnum fram á við á flestum sviðum. Ég tel einnig að við stefnum inn í Evrópusambandið með evrunni og öllu saman löngu fyrir árið 2013,“ sagði Þorvaldur í upphafi erindis síns.

„Stöðumatið leiðir mig að þeirri niðurstöðu að m.a. af efnahagsástæðum sé okkur nauðsynlegt að ganga til samstarf við ESB þjóðirnar. Nýjustu tölur um landsframleiðslu á mann á sl. ári, sem eru hinn viðtekni mælikvarði á þann árangur sem þjóðir hafa náð í efnahagsmálum, sýna okkur að Ísland er vel fyrir ofan meðallag en á því verður að hafa nokkurn fyrirvara. Sumar eignir okkar hafa rýrnað. Þar má nefna fiskistofnana sem hafa rýrnað verulega undangenginn mannsaldur. Við höfum einnig vanrækt mannauðinn með því að verja ekki nægu fé til menntunarmála.

Samkvæmt nýjustu tölum frá OECD eða hagstofunni verja Íslendingar um 6% af landsframleiðslunni til menntamála en aðrar Norður- landaþjóðir verja milli 7 og 8% af landsframleiðslu til þeirra mála. Þriðji fyrirvarinn varðar erlendar skuldir. Við höfum náð þessari stöðu langt fyrir ofan stöðu OECD landanna með því að safna gríðarlegum skuldum. Uppsveiflan, sem varð í efnahagslífinu 1996 –2000, var að miklu leyti knúin áfram af erlendu lánsfé. Fjórði og síðasti fyrirvarinn er ekki síst mikilvægur. Þar er skemmst frá því að segja að við þurfum að hafa miklu meira fyrir því að halda uppi háum tekjum hér á landi en þjóðirnar í kringum okkur. Við þurfum einfaldlega að vinna meira til að ná endum saman. Þessi mikla vinna er tímafrek og gerir sum okkar að lakari foreldrum, lélegri kjósendum og svo mætti áfram telja.

Þetta stafar fyrst og fremst af rangri stjórnarstefnu mörg ár aftur í tímann. Við höfum vanrækt menntamálin og það er skammgóður vermir því að sú vanræksla er ekki góðs viti um hagvöxt fram í tímann. Hér á landi er mikil misskipting menntunar milli landshluta. Hlutfall þeirra sem hafa aflað sér æðri menntunar er miklu hærra á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi og þá slagsíðu þarf að leiðrétta. Þetta er eitt brýnasta verkefni í byggðamálum að minni hyggju. Við leysum ekki vanda byggðanna með því að bora göng. Við reynum að efla byggðirnar með því að efla og bæta menntun fólksins sem býr hringinn í kringum landið.

Ef við tökum landsframleiðsluna og deilum upp í hana með vinnustundafjölda í stað þess að deila í hana með starfsmannafjöldanum þá kemur í ljós að landsframleiðsla á hverja vinnustund, sem er skásti mælikvarði á framleiðni og lífskjör, er nálægt botni OECD landa. Tekjur eru ekki allt. Við verðum að skoða fyrirhöfnina sem að baki býr. Mér sýnist að hér sem um að kenna landlægri óhagkvæmni sem hefur legið eins og mara á efnahagslífi landsins um langt árabil.

Hágengisstefnan brennur mjög heitt á öllum sem keppa við innflutning og stundum útflutning - ekki bara í iðnaði og þjónustu heldur einnig í sjávarútvegi. Gengi íslensku krónunnar hefur að jafnaði verið of hátt skráð mjög lengi að mínum dómi. Þetta hefur staðið vexti utanríkisviðskipta Íslendinga fyrir þrifum. Hágengið bitnar á iðnaði og útflutningi og við sjáum þess nú stað í auknu atvinnuleysi og hætta er á að það eigi enn eftir að aukast á næstu misserum þótt aðsteðjandi stóriðja vegi að nokkru leyti á móti. Annar þáttur vandans er fákeppni sem markar íslenskt efnahagslíf og þrýstir enn á verðlag og vexti þannig að vara og þjónusta eru enn dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum og lánsfé er miklu dýrara en það þyrfti að vera. Forgangsatvinnuvegir halda áfram að vera þungir á fóðrum hvor á sinn hátt og það heldur niðri lífskjörunum í landinu þannig að þjóðartekjur á hverja vinnustund eru miklu lægri en þær þyrftu að vera.

Þá vil ég nefna skort og langvarandi vanrækslu í tveimur mikilvægustu málaflokkum þjóðlífsins sem eru heilbrigðismál og menntamál. Það er ekki bara skortur á fé sem stendur þeim málum fyrir þrifum heldur einnig skortur á frjálsari hugsun t.d. í að leyfa markaðsöflunum að ryðja sér frekar til rúms en þeim hefur verið leyft fram að þessu.

Á undanförum árum hefur skattbyrðin snarþyngst á Íslandi og meira en í nokkru öðru OECD landi á árunum 1985 til 2002 að Grikklandi einu undanskildu. Skattbyrðin á Íslandi er nú svipuð og á Evrópusambandssvæðinu. Af þessu leiðir að almenningur á heimtingu á að vanrækslunni og fjársveltinu í heilbrigðis- og menntamálum linni.

Síðasta atriðið varðar erlendar skuldir. Heildarskuldir þjóðarbúsins við útlendinga hafa tvöfaldast sl. sjö ár. Þær nema nú 125% af landsframleiðslu. Langtímaskuldir hafa einnig aukist verulega og eru komnar upp undir 100% af landsframleiðslu. Þær eru venjulega besti mælikvarði á þróun erlendra skulda en það er ekki lengur hægt á Íslandi því að menn hafa verið að taka skammtímalán í mjög stórum stíl og þau nema nú 30% af landsframleiðslu. Samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum námu þær næstum 140 milljörðum króna um sl. áramót sem er næstum fjórum sinnum meira en gjaldeyrisforðinn. Það er ein grundvallarregla í góðri hagstjórn að láta skammtímaskuldir aldrei fara upp fyrir gjaldeyrisforðann. Þessi regla hefur verið vanrækt á Íslandi og hún sendir mjög óholl skilaboð til þeirra sem versla með erlendan gjaldeyri á mörkuðum hvort heldur hér heima eða í útlöndum. Það ber brýna nauðsyn til að grynnka á þessum skuldum og byggja upp gjaldeyrisforðann svo að skuldir komist niður fyrir hann á ný. Þá hafa skuldir heimilanna nífaldast á undanförum árum. Ef gengið er of hátt – eins og núna – hlýtur að koma sá dagur að gengið kolfalli og þá mun vaxtabyrðin þyngjast til muna.

Hvað þurfum við að gera til að auka framleiðni og bæta lífskjör? Við þurfum að styrkja innviði hagkerfisins með því að gera skipulagsbreytingar sem ekki má draga lengur að gera. Veiðileyfagjald og umbætur í menntamálum gegna þar lykilhlutverki í mínum huga. Við þurfum einnig að efla hagakvæmni og heilbrigða samkeppni inn á við og utan úr heimi. Ég held að reynsla undangenginna ára sýni okkur að besta og tryggasta leiðin til þess sé einmitt að ganga í ESB til að njóta skjóls af þeirri heilbrigðu samkeppni sem einkennir evrópskt efnahagslíf. ESB-þjóðirnar eru félagsskapur sem við eigum heima í jafnvel þótt einstök atriði í reikningsdæmum, sem menn reiða fram, líti þannig út að við gætum þurft að taka einhverja áhættu með aðildinni. Stöðumatið, sem ég hef gert, sýnir að eina leiðin til þess er að efla samkeppni er með því að ganga í ESB.“

Glærur Þorvaldar á PDF sniði