Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra
- Útdráttur úr ræðu á Iðnþingi 14. mars 2003 -
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra kom víða við í ræðu sinni á Iðnþingi. Hún gat þess m.a. að þau liðlega þrjú ár, sem hún hefði gegnt starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefði samkeppnisstaða atvinnulífsins verið viðvarandi úrlausnarefni og það skipti sig miklu að þau mörgu mál sem grunnur hefði verið lagður að nái að skila þeim ávinningi sem að var stefnt.
„Fyrir réttri viku lauk eignarhaldi ríkisins á bönkunum. Sú sala var síðasti áfangi í sölu gömlu ríkisbankanna en það ferli hófst með hlutavæðingu ríkisbankanna og endurskipulagningu fjárfestingarlánakerfisins árið 1997. Umhverfi fjármagnsmarkaðarins hefur einkennst af hröðum breytingum og harðnandi samkeppni. Sala ríkisins mun eflaust skerpa þá samkeppni með bættri þjónustu fyrir okkur öll og lækkandi vöxtum. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa reyndar verið einstaklega dugleg að endurskilgreina starfsemi sína og sækja á erlenda markaði í auknum mæli. Sókn bankanna er ákaflega mikilvæg fyrir útrás íslensks atvinnulífs.
Sala Landsbanka, Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hefur skapað ríkissjóði yfir 50 milljarða króna og andvirðið verið notað til að greiða erlendar skuldir og til ýmissa verkefna innanlands, s.s. samgöngubóta og atvinnuþróunar. Það hefur m.a. gert kleift að ráðast í veigamikil verkefni til eflingar búsetu á landsbyggðinni. Markmið byggðaáætlunar er að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi m.a. með því að efla menntun og nýsköpun. Byggðastefnan verður að taka mið af nýjum straumum og stefnum í vísindum og tækni, alþjóðavæðingunni og margbreytilegum þörfum íbúanna. Lögð hefur verið áhersla á að stunda markvisst atvinnuþróunarstarf um allt land en til að það verði árangursríkt þarf að tengja saman sem flesta þætti atvinnulífsins, s.s. svo sem menntun, samfélagslega þjónustu, orkumál og samgöngur svo að nokkuð sé nefnt.
Lögð hefur verið áhersla á að bæta stoðkerfi atvinnulífsins sem hefur til þessa verið nokkuð fastbundið atvinnugreinum. Stoðkerfið hefur á sama hátt verið rígbundið verkaskiptingu ráðuneytanna og það hefur hamlað viðleitni til að styðja við nýsköpun. Stofnsetning nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri í desember hefur það markmið að bæta úr þessu. Iðntæknistofnun með IMPRU í fararbroddi verður bakhjarl starfseminnar. Miðstöðin mun sinna öllum sem þangað leita óháð atvinnugreinum. Á vegum hennar verða rekin stuðningsverkefni fyrir frumkvöðla og fyrirtæki í rekstri og veitt þjónusta fyrir atvinnuþróunarfélögin.
Með undirritun samnings við Alcoa um byggingu álvers í Reyðarfirði er nær þrjátíu ára barátta Austfirðinga í höfn. Þar er á ferðinni langstærsta einstaka verkefnið sem lýtur að því að efla byggð. Áhrifanna mun gæta víðar því að störfum mun fjölga um 1100 alls á landsvísu og útflutningur aukast um 10 –14% eftir að framkvæmdum lýkur. Þá liggur fyrir að verksmiðja Norðuráls verði stækkuð en eftir fulla stækkun verða 500 – 650 manns við störf í álverinu. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif og styrkja búsetu á Vesturlandi enn frekar.
Nýsköpun atvinnulífsins með tilkomu þekkingarverðmæta er ekki síður mikils virði en stóriðjuframkvæmdir. Ekki verður þó horft fram hjá því að nýsköpunin hefur átt erfitt uppdráttar síðustu þrjú árin vegna skorts á áhættufjármagni í kjölfar samdráttar sem hófst fyrir þremur árum. Einkafjárfestar hafa haldið að sér höndum og geta Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til virkrar þátttöku í nýjum félögum er lítil um þessar mundir. Von mín er sú að fyrirsjáanlegar efnahagsbætur í tengslum við stóriðjuna eigi eftir að auka bjartsýni og framfarasókn nýsköpunar.
Aðkoma ríkisins að stuðningi við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun hefur verið mótuð á nýjan leik með tilkomu Vísinda- og tækniráðs. Búast má við nýrri og ákveðnari stefnumótun af hálfu ríkisins við eflingu nýsköpunar og sprotafyrirtækja ekki síst með tilkomu Tækniþróunarsjóðs sem er sérstaklega ætlað að styðja við frumstig nýsköpunar. Það er mér mikið kappsmál að þessi nýi sjóður geti látið til sín taka strax á næsta ári. Hvað varðar atvinnuþróun næstu tíu árin sýnist mér að atvinnulífið standi á þrem meginstoðum. Sjávarútvegur og fiskvinnsla munu áfram gegna veigamiklu hlutverki og ál verður næstmikilvægasta útflutningsvara okkar. Þriðja meginstoðin verður væntanlega framleiðsla og útflutningur þekkingarafurða og þekkingarþjónustu. Ég er þeirrar skoðunar að þekkingariðnaðurinn fari vaxandi og eftir tíu ár verði krafturinn þar mestur.
Ég óska Samtökum iðnaðarins til hamingju með 10 ára afmælið og alls hins besta á komandi árum og þakka einstaklega ánægjulegt samstarf á kjörtímabilinu.“