Hvernig fáum við erlend fyrirtæki til landsins og hvað er á því að græða?

- Útdráttur úr erindi Þórólfs Árnasonar borgarstjóra á Iðnþingi 2003 -

Þórólfur sagði m.a. að í nokkur ár hefði verið talað um að alþjóðavæða íslenskt atvinnulíf en einhvern veginn hefðu kandidatar ekki staðið í biðröðum eftir að fá að leggja fé í það. Í fjölda ára hefði helsta fjárfesting erlendra aðila falist í orkufrekum framkvæmdum og það væri yfirleitt hið besta mál en nú beindust sjónir manna frekar að meiri alþjóðavæðingu í íslensku atvinnulífi og hvað við getum gert til að laða að erlenda fjárfestingu jafnt í smáu sem stóru.

Þórólfur Árnason borgarstjóri á Iðnþingi 2003Þórólfur sagði m.a. að í nokkur ár hefði verið talað um að alþjóðavæða íslenskt atvinnulíf en einhvern veginn hefðu kandidatar ekki staðið í biðröðum eftir að fá að leggja fé í það. Í fjölda ára hefði helsta fjárfesting erlendra aðila falist í orkufrekum framkvæmdum og það væri yfirleitt hið besta mál en nú beindust sjónir manna frekar að meiri alþjóðavæðingu í íslensku atvinnulífi og hvað við getum gert til að laða að erlenda fjárfestingu jafnt í smáu sem stóru.

„Ég hef nýlokið verkefni sem stóð í 5 ár þar sem erlendur aðili kom að fjárfestingu hér á landi, byggði upp og hætti öllu sínu fé og seldi svo á góðu verði. Um margt mætti líta á það sem vel heppnaða þátttöku erlendra aðila í íslensku efnahagslífi. Við þurfum að spyrja okkur: Af hverju skyldi erlendur aðili vilja fjárfesta hér?

Hinn erlendi fjárfestir hugsar fyrst um sig eins og flestir sem eiga peninga. Hann þarf að gæta að því að áformin falli að fram-tíðarstefnu hans og sjá til þess að það, sem við höfum að bjóða, falli það vel að rekstri hans að hann batni. Hann vill sjá arðbæra framleiðslu, sölumennsku eða þjónustu en síðast en ekki síst örugga útleið því að enginn vill fjárfesta í fyrirtæki ef hann getur ekki sloppið út. Þá þarf að hafa löggjöf um frítt flæði fjármagns og fyrirtækið þarf að vera markaðshæft og seljanlegt sem er mikilvægt þegar hugað er að því að laða að erlenda fjárfestingu.

Erlendur fjárfestir, sem hugleiðir að leggja fé í íslenskt fyrirtæki, spyr margra spurninga. Hann kynnir sér m.a. stjórnmála- og lagaumhverfið hér á landi og hvort það samrýmist alþjóðlegum reglum, sé öruggt, gagnsætt og einsleitt fyrir alla? Hann kannar hvort hann fær leyfi til að gera það sem hann vill í markaðsmálum og svo mætti lengi telja. Ég held að þeir innlendu aðilar, sem hafa leitað eftir erlendu fjármagni, séu oft á frumkvöðlastiginu, t.d. hugbúnaðarfyrirtæki og nýiðnaður ýmiss konar. Ég held að þessi fyrirtæki þurfi oft að staldra við og spyrja: Hvernig stöndum við okkur sjálfir? Erlendur viðskiptaaðili, sem vill skoða mál, skoðar söguna. Hann spyr hvernig sá innlendi aðili, sem vill draga að fjármagn, hafi staðið sig og hvort hann hafi haft fókus í því sem hann er að gera. Hversu vel hefur honum haldist á hugmyndinni. Er hann ennþá þar sem hann ætlaði að vera? Getur hann staðið við viðskiptaáætlunina sem hann sýndi í bankanum fyrir einu til tveimur árum?

Fjárfestirinn spyr margra spurninga um innviði fyrirtækisins: Hefur hið íslenska fyrirtæki byggt upp tæknilegt grunnkerfi eða tæknilega þekkingu og fagmennsku? Hefur það byggt upp skipulag og verkferla? Er rekstraráætlun fylgt? Eru mannauðsstjórnun, hugbúnaður og starfsmannamál í lagi? Hver er starfsmannastefnan? Hvernig laðar fyrirtækið að sér gott starfsfólk? Hvaða vöruþróun mun halda áfram að skapa viðkomandi fyrirtæki framtíðartekjur? Var fyrirtækið kannski búið til utan um eina viðskiptahugmynd sem verður aldrei meir? Vöruþróunin þarf að taka breytingum og geta uppfyllt væntingar fjárfestanna sem koma að verkinu.

Því miður höfum við oft verið of bjartsýn þegar við höfum farið á fjörur við erlenda fjárfesta og ekki talað um vandamálin. Alltaf eru einhver óveðursský í sjónmáli og betra að tala um þau fyrirfram og hafa raunsæjar framtíðarvæntingar. Síðan þarf að horfa mjög vel inn í samkeppnisumhverfi framtíðarinnar. Sem dæmi má nefna lagasetningu, breytt viðhorf og þriðja eða jafnvel fjórða aðila á markaði. Aðalatriðið er að vita hver staðan er, skoða gróft og vera snöggur að álykta. Ef við erum ekki góð sjálf hvernig í ósköpunum ætlum við að sannfæra einhvern annan um að fjárfesta í okkur?”

Erlendum fjárfesti fylgir þekking og ný sýn. Honum fylgir hæfni til að vinna á erlendum mörkuðum og ég er handviss um að þau útrásarfyrirtæki íslensk, sem hafa náð árangri erlendis, hafa ekki síst gert það af því að þau hlusta. Það má læra mikið af þeim sem maður vinnur með. Honum fylgir vinnuálag og agi. Það hefur lengi verið þekkt að vinnuferlar, stundvísi og hröð ákvarðanataka hafa ekki beinlínis verið sérgrein okkar Íslendinga. Þetta fylgir erlendu fjármagni sem hingað kemur en einnig bankaskilyrði og rekstrarkröfur. Erlendur viðskiptabanki Tals verðlaunaði fyrirtækið í hverjum ársfjórðungi þegar það náði betri árangri. Þeir lækkuðu vextina óumbeðið. Þannig að agi, sem kom með bankaskilyrðunum, bætti rekstur okkar. Þegar ég reyndi að útskýra stjórnarfarið og hvernig flokkarnir væru sögðu þeir: „I couldn’t care less.“ Þeim stóð algerlega á sama en vildu að þeir yrðu varaðir við þegar eitthvað væri að.

Þeir hafa engan áhuga á íslensku samfélagi og er alveg sama hvar á landinu fyrirtækið er skráð en þeir vilja ekki koma á einokun. Þeir vilja að fyrirtækið sé rekið áfram af samkeppni. Þeir verða að fá uppgjör í erlendri mynt og gera enga ríka kröfu um stöðugleika í gengi gjaldmiðils. Þeir vilja ekki ríkisafskipti en þeir vilja reglur, eitthvað sem þeir vita af og þekkja.

En hvað getum við gert? Mitt svar er sterkt höfuðborgarsvæði. Það er útvörður atvinnusjálfstæðis Íslendinga. Ef við getum ekki skapað fólki vinnu í Reykjavík þá tekst okkur ekki að fara með það eitthvað annað. Það fer bara sjálft – til London, Parísar eða Rómar. Við verðum að bæta innviði rekstrar okkar á öllum stigum, jafnt í opinberum sem einkarekstri. Við verðum að einbeita okkur að því sem tengist sér-stöðu okkar, þekkingariðnaði, líftækni og því sem tengist orkugeiranum og ferðaþjónustu. Við eigum að nýta fámennið og það hraða stjórnkerfi sem hér er. Ég tel að sértækar aðgerðir séu mjög hættulegar en vil ekki útiloka þær. Erlendir fjárfestar vilja nákvæmlega það sama og við, þ.e. öflugt íslenskt og fjölbreytt atvinnulíf. Þeir vilja að við alþjóðavæðumst og kunnum að umgangast erlenda aðila, bæði kaupendur og seljendur og njótum þess besta í hvoru tveggja.“

Glærur Þórólfs á PDF sniði