Kosningar og Iðnþing 12. mars 2004

- Auglýst eftir tilnefningum til trúnaðarstarfa -

Ákveðið hefur verið að halda Iðnþing 12. mars 2004 í veislusalnum Versölum að Hallveigarstíg 1. Í tengslum við Iðnþing fara fram þrennar kosningar, þ.e. kosið er til formanns, stjórnar- og ráðgjafaráðs Samtaka iðnaðarins og til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins.

Ágæti félagsmaður,

Ákveðið hefur verið að halda Iðnþing 12. mars 2004 í veislusalnum Versölum að Hallveigarstíg 1. Í tengslum við Iðnþing fara fram þrennar kosningar, þ.e. kosið er til formanns, stjórnar- og ráðgjafaráðs Samtaka iðnaðarins og til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins.

Með bréfi þessu er auglýst eftir tilnefningum til þessara trúnaðarstarfa. Tilnefningar verða að hafa borist eigi síðar en 11. febrúar nk. til skrifstofu Samtaka iðnaðarins.

Um kjör formanns, stjórnar og ráðgjafaráðs

Í 9. kafla laga Samtaka iðnaðarins segir:

Stjórn SI skipa átta menn, formaður og sjö meðstjórnendur. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn, en meðstjórnendur til tveggja ára og ganga því þrír þeirra út annað árið en fjórir hitt. Við kjör meðstjórnenda hljóta þeir þrír eða fjórir sem flest atkvæði hljóta, kosningu sem stjórnarmenn til tveggja ára. Þeir sex sem næstir koma að atkvæðafjölda taka sæti í ráðgjafaráði til eins árs. Þeir, ásamt formanni SI, stjórnarmönnum og fulltrúum starfsgreinahópa mynda ráðgjafaráð sem koma skal saman minnst einu sinni á ári.

Hver félagsaðili hefur atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2003. Hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði.

Sérstök athygli skal vakin á því að lög SI gera ráð fyrir að þau iðngreina- og meistarafélög, sem gerst hafa aðilar að SI fyrir hönd félagsmanna sinna, fari með atkvæðisrétt þeirra. Vilji einstök félög hins vegar hafa þann hátt á að einstakir félagsmenn þeirra fari með sín atkvæði sjálfir er nauðsynlegt að tilkynna það skrifstofu SI eigi síðar en 11. febrúar nk.

Ítrekað skal að allir félagsmenn hafa rétt til setu á Iðnþingi og eru kjörgengir í formanns- og stjórnarkjöri óháð því hvort meistara- eða iðngreinafélög, sem þeir eru aðilar að, fara með atkvæði fyrir þeirra hönd.

Um kjör til fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins

Í 15. kafla laga Samtaka iðnaðarins segir:

Kjör fulltrúa SI í fulltrúaráð SA fer fram á Iðnþingi. Þátt í þeim kosningum geta tekið aðildarfyrirtæki SI að því marki sem þau hafa ekki ákveðið að tilnefna eigin fulltrúa skv. lögum SA þar um. Þeir sem óska eftir að vera í kjöri skulu senda kjörnefnd SI tilkynningu um framboð sitt minnst 20 dögum fyrir Iðnþing. Berist færri framboð en nemur fjölda þeirra sem kjósa á, skal kjörnefnd gera tillögu til stjórnar SI um skipan í fulltrúaráð SA. Þann lista skal leggja fram til samþykktar á Iðnþingi.

Ekki er endanlega ljóst hve marga fulltrúa SI skal kjósa en þeir eru nú 31. Fyrirtæki, sem geta og vilja tilnefna sína fulltrúa beint í ráðið, verða að tilkynna það til skrifstofu SA fyrir 15. febrúar nk. í samræmi við lög SA.

Eigi síðar en hálfum mánuði fyrir Iðnþing verða sendir út atkvæðaseðlar ásamt leiðbeiningum um tilhögun kosninganna.

ATH! Á bakhlið þessa bréfs er listi yfir núverandi stjórn og kosna ráðgjafaráðsfulltrúa Samtaka iðnaðarins.

Fyrir hönd kjörstjórnar

______________________

Jón Steindór Valdimarsson
aðstoðarframkvæmdastjóri