• Vilmundur Jósefsson formaður SI

Ræða Vilmundar Jósefssonar formanns SI

Samtök iðnaðarins eru að slíta barnsskónum enda þótt þau standi á gömlum merg. Tíu starfsár eru að baki og þetta 11. Iðnþing markar því með sanni þau tímamót.

Samtök iðnaðarins

Samtök iðnaðarins eru að slíta barnsskónum enda þótt þau standi á gömlum merg. Tíu starfsár eru að baki og þetta 11. Iðnþing markar því með sanni þau tímamót. Á þessum 10 árum hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp og móta starfið samtímis því sem Samtök Iðnaðarins hafa beitt sér af krafti fyrir bættum hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum. Þetta hefur verið skemmtilegt og ögrandi verkefni því að á þessum sömu tíu árum má segja að íslenskt atvinnulíf hafi að mörgu leyti tekið stakkaskiptum.

Starf Samtaka Iðnaðarins hefur verið farsælt og vel hefur tekist að sinna fjölbreyttum og oft á tíðum gerólíkum þörfum og óskum félagsmanna. Hafa ber í huga að innan raða Samtaka iðnaðarins eru 24 fagfélög og 277 fyrirtæki með beina aðild, samtals 1.123 rekstraraðilar. Félagsmenn Samtaka iðnaðarins koma því úr öllum greinum iðnaðarins, frá handverki til stóriðju, frá þeim smæstu til hinna stærstu.

Almenn ánægja félagsmanna

Í viðhorfskönnun, sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins í síðasta mánuði voru félagsmenn spurðir hvort þeim þætti Samtök iðnaðarins standa sig vel eða illa þegar á heildina væri litið. Langflestir, eða 64%, töldu Samtökin standa sig vel eða mjög vel en aðeins 7% töldu að þau stæðu sig illa. Þó að ekki sé hægt annað en vera stoltur og ánægður með þá einkunn, sem félagsmennirnir gefa, er greinilega svigrúm til þess að gera enn betur. Nýkjörin stjórn og starfsmenn Samtaka iðnaðarins munu setja sér það markmið.  

Stakkaskipti í atvinnulífinu

Þegar hagtölur og hagsaga eru skoðuð fer ekki  milli mála að íslenska hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum tíu árum. Hagvöxtur hefur aukist og á rætur að rekja til fjölbreyttari atvinnustarfsemi. Ástæðurnar fyrir þessari umbyltingu eru margþættar en tengjast fyrst og fremst hinu breytta starfsumhverfi fyrirtækja sem hefur fylgt EES-samningnum. 

Í iðnaði hafa áhrifin komið fram með velgengni stórfyrirtækja á borð við Pharmaco, Össur, Marel og Íslenska erfðagreiningu, á sviði lyfja, lækningatækja, tölvustýrðra framleiðslutækja, líftækni og upplýsingatækni. Hátæknigreinar iðnaðar hafa verið í mikilli sókn og hlutdeild þeirra í framlagi iðnaðar til verðmætasköpunar hefur aukist á 10 árum úr um 3% í 16%. Stærsta stökkið í verðmætasköpuninni  er í upplýsingatækniiðnaði sem og í  lyfja og lækningatækjaframleiðslu þar sem hlutdeildin fór úr 0,6% í 3,4%. Það er gleðilegt að Íslendingar beisla í auknum mæli tækniframfarir og skapa með þeim ný verðmæti. 

Þessi þróun er einnig jákvæð vegna fjölda vel launaðra starfa sem verða til í slíkri starfsemi. Þá hefur þjónustustarfsemi ýmiss konar einnig verið í mikilli sókn. Íslenska hagkerfið er nú orðið mun áþekkara því sem þekkist í nágrannalöndum okkar í Evrópu.  

Hlekkir hugarfarsins

Hlutdeild einstakra atvinnugreina í verðmætasköpun þjóðarbúsins hefur breyst mikið frá árinu 1993 fram til þessa dags. Iðnaðurinn gegnir lykilhlutverki í verðmætasköpun þjóðarinnar. Það sýnir glöggt fimmtungur landsframleiðslunnar og ekki síður að meira en fimmti hver vinnandi maður starfar í iðnaði. Þá hafa aðrar atvinnugreinar á borð við verslun, ferða- og fjármálaþjónustu eflst mjög á sama tíma. 

Þó að þessar staðreyndir blasi við er eins og þeir, sem ráða ferðinni í stjórnmálum og fjölmiðlum, vilji ekki trúa þeim. Viðfangsefni stjórnmálamanna og fjölmiðla snúast fyrst og fremst um landbúnað og sjávarútveg og svo mjög að í huga flestra verður til alröng mynd af íslensku samfélagi. Hvað skyldi vera búið að staglast mikið á línuívilnun og vanda sauðfjárbænda? Er nema furða þótt allir trúi því að upphaf og endir tilveru okkar sé blessuð sauðkindin og þorskurinn. Framlag fiskveiða og vinnslu til landsframleiðslunnar er 12,8% og þar starfa 6,7% vinnuaflsins. Landbúnaðurinn skilar 1,6% til landsframleiðslunnar og þar starfa 3,7% fólks. 

Flest bendi til þess að Íslendingar ofmeti hlut og mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslífinu stórkostlega. Það er hættulegt vegna þess að þar með miðast orð og athafnir okkar við þessar ranghugmyndir. Það er brýnt viðfangsefni að leiðrétta þennan misskilning og efla þekkingu stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennings á samsetningu atvinnulífisins. Það er til dæmis harla sérkennilegt að þegar hugsanlega aðild Íslands að ESB ber á góma er upphaf og endir þeirrar umræðu ávallt hagsmunir sjávarútvegsins. Þetta er afleiðing þess að í hugum flestra er samasemmerki á milli þeirra hagsmuna og þjóðarhagsmuna.

EES-samningurinn tíu ára

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er ótvírætt  langmikilvægasti og víðtækasti samningur sem Íslendingar hafa gert frá því að þeir tóku við stjórn eigin mála úr höndum Dana. Samningurinn færir  Íslandi  aðgang að sameiginlegum innri markaði Evrópusambandsins fyrir vörur, þjónustu, fjármagn og vinnuafl. Íslenskum lögum og reglum hefur þurft að breyta í mikilvægum atriðum og þær breytingar hafa staðið í tíu ár. Því má segja með nokkrum sanni að ótrúlega stór hluti lagasetningarvaldsins á Íslandi sé nú í höndum ESB og aðildarríkja þess en ekki Alþingis.

Einstakt tækifæri fyrir Ísland

Færa má sterk rök fyrir því að EES-samningurinn eða hliðstæða hans hefði ekki getað orðið til fyrr en raun bar vitni og sömuleiðis að sambærilegur samningur verði sennileg aldrei gerður aftur. Með EES-samningnum fóru EFTA-ríkin þrjú eins nálægt því að verða aðilar að ESB og hugsast gat. Ísland naut þess að vera í réttum félagsskap á réttum tíma. Þegar samningurinn var gerður var EFTA öflug samtök ríkja sem voru efnahagslega mikilvæg og meðal stærstu viðskiptalanda ESB. Erfitt var að hugsa sér sameiginlegan innri markað í Evrópu án þeirra. Það var erfið tilhugsun bæði fyrir ESB og EFTA-ríkin. Sá hængur var þó á að flest EFTA-ríkjanna, Austurríki, Finnland, Sviss og Svíþjóð voru hlutlaus. Á þessum tíma töldu þau pólitískt óhugsandi að gefa upp hlutleysi sitt og ganga í ESB. Við þessum vanda var ESB að bregðast með tilboði sínu um EES-samninginn. Sé staða Íslands skoðuð í  þessu ljósi er auðvelt að átta sig á því að hér naut Ísland þess að vera í hópi ríkja sem ESB vildi leggja mikið á sig til að ná náinni samvinnu við. Tengslin við Ísland voru naumast eftirsóknarverð nema í þessu samhengi.  

Alþingi í vafa

Það var hvorki sjálfgefið né sátt um að stíga þetta skref á sínum tíma. Rétt er að rifja upp að sitt sýndist hverjum um ágæti samningsins og sumir spáðu miklum hrakförum og neikvæðum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnu- og mannlíf ef af honum yrði. Afstaða stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna til samningsins var alls ekki á einn veg. Eftir á að hyggja er ótrúlegt til þess að hugsa að ekki mátti tæpara standa að frumvarpið um Evrópska efnahagssvæðið yrði að lögum þegar það var til lokaafgreiðslu í Alþingi þann 12. janúar 1993. Já sögðu 33, nei sögðu 23 og 7 sátu hjá.

Flestir sannfærðir um ágæti EES

Það var framfaraspor fyrir Íslendinga að samþykkja EES-samninginn. Það er rækilega staðfest í dag eftir tíu ára reynslu. Þetta sýnir viðhorfskönnun Gallups sem var gerð í upphafi árs fyrir Samtök iðnaðarins. 

Almenningur var spurður tveggja spurninga. Hvorki meira né minna en 72% telja að áhrif samningsins á íslenskt samfélag hafi verið jákvæð og rúm 65% að áhrifin hafi verið jákvæð á eigin lífskjör. Aðeins 11% töldu að áhrifin á samfélagið og eigin lífskjör væru neikvæð. 

Félagsmenn Samtaka iðnaðarins voru sömuleiðis spurðir tveggja spurninga. Við spurningunni um áhrif samningsins á íslenskt samfélag sögðu 82% þau vera jákvæð og 56% að áhrifin hafi verið jákvæð á rekstrarumhverfi eigin fyrirtækis. Þeir sem töldu áhrifin á samfélagið neikvæð voru tæp 7% en 14% töldu áhrifin neikvæð á eigið fyrirtæki.

EES er ótraust fley

Þó að EES-samningurinn hafi ótvírætt verið til góðs fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag í heild sannfærast æ fleiri um að hann fullnægi ekki lengur kröfum og þörfum Íslands og Noregs. Fyrir því liggja margvísleg rök, til að mynda  þau að einsleitni milli EES og ESB er ekki lengur tryggð vegna örra breytinga á viðfangsefnum ESB. Ennfremur er ógerlegt að gæta íslenskra hagsmuna vegna þess að Ísland er áhrifalaust við undirbúning og setningu reglna  en síðast en ekki síst er nauðsynlegt að taka upp evru í stað krónu.  

Þetta er þó ekki nema hluti rakanna. Hin snúa að sjálfri tilvist samningsins. Í mínum huga er hún í meira lagi ótraust. Þar má nefna að nær öll Evrópuríki hafa valið ESB sem samstarfsvettvang sinn, að tillit og þolinmæði gagnvart þeim, sem standa utan ESB, fara þverrandi og einhliða vilji Íslands til að halda lífi í EES mun til lengdar engu skipta. Það má lítið út af bregða til þess að samningurinn sé í uppnámi. Það kom berlega  í ljós í samningaviðræðum um stækkun EES í fyrra.  

Lending náðist ekki fyrr en Norðmenn greiddu fyrir samningum með því að reiða fram fúlgur fjár og borga aðgöngumiðann fyrir sig og Ísland í leiðinni. Lærdómurinn, sem Norðmenn virðast draga af þessum viðræðum, stækkunarferlinu og stöðu sinni í Evrópusamstarfinu, er að aðild að ESB sé óhjákvæmileg en áhugi á aðild fer hraðvaxandi í Noregi. Ekki tók betra við þegar furstinn í Liechtenstein neitaði að skrifa undir og tók samninginn í gíslingu.

Framtíðin verður að vera trygg 

Það er óviðunandi fyrir Íslendinga að eiga framtíð sína undir ákvörðunum Norðmanna, þolinmæði ESB eða duttlungum Liechtensteina. Það eru draumórar einir að Ísland eitt og sér geti náð viðunandi tvíhliða samningum við ESB. Þeir tímar eru liðnir þegar Ísland gat náð sínu fram með tilstyrk bandamanna innan EFTA og NATO.  

Íslendingar verða að horfast í augu við þá staðreynd að eina leiðin, sem er fær til þess að Íslendingar og íslenskt atvinnulíf njóti jafnstöðu í samfélagi Evrópuþjóða, er að ganga í ESB. Þessi leið er ekki eingöngu sú eina færa. Hún er einnig sú skynsamlegasta.

Reynslan er ólygnust

Hvert skref, sem við höfum stigið í átt til aukinnar Evrópusamvinnu, hefur reynst okkur heilladrjúgt þótt heimsendaspámenn fari á stjá við hvert þeirra. Umræður um aðild Íslands eru hér engin undantekning. Þessu til viðbótar hefur staða efnahagsmála hverju sinni áhrif á afstöðuna til aðildar að ESB. Það þykjumst við sjá í þeim könnunum sem við höfum gert undanfarin ár. Stuðningur við aðild að ESB fer nú vaxandi að nýju, bæði meðal almennings og okkar félagsmanna, frá því Gallup gerði könnun fyrir okkur fyrir ári. Ekki er marktækur munur á þeim félagsmönnum sem eru hlynntir aðild og þeim sem eru andvígir en þeir eru um 43% í hvorri fylkingu. Sé hins vegar spurt hvort taka eigi upp aðildarviðræður við ESB eru 67% félagsmanna þeirrar skoðunar og 63% almennings. Hér er viljinn býsna ótvíræður og þess vegna ætti ekki að vera neitt hik á íslenskum stjórnvöldum að fara þessa leið. Það er ekki eftir neinu að bíða. 

Sjálfur er ég hissa á því að ekki skuli nema 55% félagsmanna hlynntir því að taka upp evru og 37% því andvígir. Það kemur reyndar í ljós að marktækur munur er á svörum eftir stærð fyrirtækjanna. Stuðningur við evru er meiri meðal þeirra stærri eða um og yfir 60% og andstaðan rúm 30%. Hjá smærri fyrirtækjunum er stuðningurinn um 47% en andstaðan um 43%. Þessar niðurstöður sýna þó að mínu mati glöggt að engum blöðum er um það að fletta að íslenska krónan er ekki hátt skrifuð hjá íslenskum iðnaði.

Háir vextir og hátt gengi plaga iðnaðinn

Í febrúar 2003 lækkaði Seðlabankinn vexti og fram eftir árinu var atvinnulífið uppi með kröfur um vaxtalækkanir.  Þegar fram í sótti fór umræðan reyndar meira að snúast um það hvort eða öllu heldur hvenær þyrfti að hækka vexti enn á ný.   Samtök iðnaðarins héldu opinn fund um hátt gengi krónunnar í júní. Niðurstaða frummælenda var að meira aðhald þyrfti í opinberum fjármálum til þess að hamla á móti þörfinni fyrir hærri vexti og þar með enn hærra gengi krónunnar.   

Iðnaðurinn og aðrar samkeppnisgreinar hafa undanfarin missiri borið sig illa undan háum vöxtum og háu gengi krónunnar. Stjórn peningamála hefur verið aðhaldssöm og ef til vill aðhaldssamari en ella vegna þess að áhrif vaxtanna hafa minnkað með greiðari aðgangi landsmanna að erlendu fjármagni. Háir vextir bitna mest á heimilum og fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni. Heimilin finna fyrir háum vöxtum af eigin lánum og fyrirtækin eiga erfitt uppdráttar vegna hás raungengis. Þótt vextir hafi lækkað undanfarin missiri frá því að þeir voru hæstir, hafa erlendir vextir lækkað meira og vaxtamunurinn síst minnkað. Þá eru væntingar um að gengi krónunnar haldist hátt næstu árin vegna innflæðis fjármagns vegna stóriðju- og virkjanafram­kvæmda.

Framleiðslan flyst úr landi

Nýtt hágengisástand frá miðju ári 2002 hefur strax haft þau áhrif að draga úr útflutningi á iðnaðar­vörum. Hin hliðin á sama peningi er að framleiðsla flyst úr landi. Af einhverjum ástæðum þykir það  fréttnæmara þegar fyrirtækin flytja úr landi með framleiðslu sína en þegar innfluttar vörur flæða inn í landið eða íslensk fyrirtæki missa markaðshlutdeild erlendis.

Miklar launahækkanir

En það er ekki eingöngu vegna hárra vaxta og gengis sem framleiðsla flyst úr landi.  Aðallega er um að ræða vinnuaflsfreka framleiðslu sem krefst ekki mikillar menntunar.  Þetta þarf engan að undra í ljósi þess að árin 1995 til 2003 varð 30% kaupmáttaraukning á Íslandi á almennum markaði og jafnvel enn meiri hjá opinberum starfsmönnum og bankastarfsmönnum.  Þetta er margföld kaupmáttaraukning miðað við önnur lönd.  Til samanburðar jókst kaupmáttur um 8% á OECD svæðinu í heild. Við þessar aðstæður er eðlilegt að framleiðsla flytjist til svæða þar sem laun eru lægri. 

Um síðustu helgi tókust kjarasamningar sem vonandi marka stefnuna fyrir þróun launamála næstu fjögur árin. Því er ekki að leyna að þar er teflt á tæpasta vað og enn haldið áfram á þeirri braut að laun hækki hér umfram það sem gerist innan OECD ríkja. Gera má ráð fyrir um 2% kaupmáttaraukningu á ári, sem setur fyrirtækjunum þröngan starfsramma. Þau verða því að auka framleiðni á hvern starfsmann um a.m.k. 2% til að bera ekki skarðan hlut frá borði. Það verður erfitt verkefni og ekkert má út af bregða hvorki hjá fyrirtækjunum sjálfum né í ytri aðstæðum þeirra.

Vöxtur á heimamarkaði

Þrátt fyrir erfiða samkeppnisstöðu tók innlend velta iðnaðar við sér eftir um 7% samdrátt árið 2002. Raunvöxtur veltu í iðnaði er áætlaður um  8% árið 2003. Ástandið í einstökum greinum hefur þó verið misjafnt. Það er erfitt í samkeppnisgreinum þótt finna megi ánægjuleg dæmi um góðan vöxt.  Hins vegar er mestur vöxtur á heimamarkaði í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og má búast við að nýbyrjað ár verði svipað hvað þetta varðar.

Hófleg bjartsýni í iðnaði

Í síðasta mánuði gerði Gallup könnun fyrir Samtök Iðnaðarins um væntingar í iðnaði fyrir komandi mánuði og misseri. Hugmyndin er sú að gera framvegis könnun af þessu tagi í upphafi hvers árs. Segja má að hófleg bjartsýni einkenni niðurstöðurnar. Meirihluti aðspurðra  gerir ráð fyrir einhverri fjölgun starfsmanna, aukinni veltu og auknum hagnaði. Flestir telja þó litlar breytingar framundan. Um 26% gera þó ráð fyrir samdrætti í fjárfestingum á þessu ári miðað við árið í fyrra en 17% gera ráð fyrir aukningu. Langflestir gera hins vegar ráð fyrir að fjárfestingarnar verði svipaðar. Þegar spurt var almennt um horfur í efnahagslífinu sögðu 40% þær góðar og sama hlutfall taldi þær verða betri um mitt þetta ár en 48% töldu þær verða betri um næstu áramót en um þessar mundir.

Valdabrölt í bönkunum

Ár mikilla sviptinga í íslensku atvinnulífi er að baki.  Bankarnir hafa verið í aðalhlutverki í þessum sviptingum og virðist ekkert lát þar á.  Það er verulegt áhyggjuefni þegar bankarnir eru komnir á fulla ferð í  að berjast um völd og áhrif í stærstu fyrirtækjum landsins.  Það er rétt og eðlilegt að bankarnir grípi í taumana þegar fyrirtæki lenda í rekstrarvanda og einnig í umbreytingar­verkefnum í samvinnu við viðskiptamenn sína.  Hins vegar er óþolandi þegar þeir berjast um yfirráð í stærstu fyrir­tækjum landsins.  Flestir fögnuðu einkavæðingu ríkisbankanna og útrás bankanna á erlenda markaði er afar ánægjuleg.  Hitt er lakara að þessi stækkun bankanna og hagræðing virðist fremur skila sér í auknum hagnaði þeirra sjálfra en lægri vöxtum og lægri kostnaði viðskiptamanna þeirra.   

Samkeppni og samþjöppun

Samruni og stækkun íslenskra fyrirtækja er tvímælalaust af hinu góða.  Íslenskt atvinnulíf þarf að hagræða í rekstri til þess að vera samkeppnis­fært á opnum alþjóðlegum markaði. Í langflestum tilvikum er engin hætta á samkeppnisröskun af þessum sökum.  Í iðnaðinum er nánast á öllum sviðum hörku samkeppni við innfluttar vörur og jafnvel þjónustu.  Samtök Iðnaðarins hafa haft þá skoðun að stjórnvöld eigi ekki að stjórna því hvernig atvinnulífið þróast og inngrip á borð við bann við samruna fyrirtækja eigi ekki að koma til greina nema í algerum undantekningartilvikum þegar mikil hætta er á samkeppnis­röskun.

Markaðsráðandi fyrirtæki þurfa aðhald

Þarna togast á annars vegar þörfin fyrir öflug og betur rekin fyrirtæki og hins vegar þá skyldu stjórnvalda að tryggja samkeppni á markaði.  Það er hins vegar augljóst að samþjöppun á ýmsum sviðum verslunar og þjónustu er orðin meiri en góðu hófi gegnir.  Eftir á að hyggja má segja að þarna hafi menn sofið á verðinum.  Það getur verið bæði rétt og skynsamlegt að setja sérstakar reglur um markaðsráðandi fyrirtæki og hindra þau í að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Það hefur ekki verið gert en er löngu tímabært. Við megum ekki búa svo um hnútana að íslensk fyrirtæki megi ekki verða stór af því að íslenskur markaður er lítill.

Alþjóðavæðing nýtist smærri ríkjum best

Samanburður á áhrifum af frjálsum viðskiptum á innri markaði ESB og raunar af alþjóðavæðingunni í heiminum almennt,  virðist ótvírætt leiða í ljós að áhrifin eru alls staðar til góðs.  Það eru hins vegar smærri ríkin sem hagnast mest á frelsi í viðskiptum, skýrum leikreglum og stöðugleika í verðlagi og gengi.  Þetta ætti ekki að koma á óvart.  Stórþjóðir á borð við Þjóðverja, Breta og Bandaríkjamenn eru sjálfum sér nógar um flest.  Heimamarkaðurinn er stór og gjaldmiðillinn gjaldgengur um allan heim.  Hlutfall utanríkisviðskipta er lágt og fyrirtækin heima fyrir finna að sama skapi minna fyrir sveiflum milli gjaldmiðla heimsins. 

Þessu er öfugt farið með smærri ríki.  Þau hagnast meira af óheftum aðgangi að mörkuðum milljónaþjóða.  Óheftur flutningur fjármagns og frelsi til fjárfestinga kemur þeim fremur til góða en stórþjóðum.  Mest hafa þau ríki þó að vinna sem búið hafa við langvarandi óhagræði af verðbólgu og gengissveiflum.  Það eru smáríki Evrópu á borð við Finnland og Írland sem hefur tekist að nýta sér stöðugleikann og frelsi í viðskiptum til þess að stórauka hagvöxt sinn sem drifinn er áfram af vaxandi utanríkisviðskiptum.  Það er heilbrigður og varanlegur hagvöxtur.

Markaðir okkar eru evrópskir

Okkur Íslendingum hefur ekki tekist að auka utanríkisviðskipti og erlenda fjárfestingu sem hlutfall af landsframleiðslu undanfarinn áratug.  Við höfum ekki enn getað  nýtt aðganginn að innri markaði ESB til fulls.  Engu að síður hefur orðið mikil aukning á viðskiptum við aðrar þjóðir Evrópu frá gildistöku  EES samningsins. Árið 1993 fóru tæp 70% vöruútflutningsins til Evrópu. Þá þegar var Evrópa langmikilvægasta markaðssvæði okkar en þau viðskipti hafa enn aukist til muna því að árið 2003 fóru rúm 80% af vöruútflutningi okkar þangað. Fjórar af hverjum fimm krónum í tekjur af vöruútflutningi okkar koma nú frá Evrópu. Til samanburðar koma um 11% frá Bandaríkjunum, 3% frá Japan og um 6% frá öðrum ríkjum heims. Hlutfall útflutnings til Bandaríkjanna hefur dregist mikið saman undanfarin ár. Enginn þarf að efast um að Evrópa er langmikilvægasta markaðssvæði Íslendinga.

Stoðirnar þrjár

Það er sérstakt ánægjuefni að framundan er frekari uppbygging stóriðju hér á landi, þó að um hríð þrengi að samkeppnisgreinum vegna þessara framkvæmda.  Við sjáum fram á að innan örfárra ára byggist útflutningstekjur okkar á þrem nokkuð jafn öflugum stoðum:  Áli og iðnaðarvörum, sjávarafurðum og loks þjónustutekjum, vegna flutninga, ferða- og fjármálaþjónustu.  Þetta er grundvallar­breyting í íslensku atvinnulífi.  Þetta er ekki einhver fjarlæg framtíð heldur mun sú þróun eiga sér stað  á þessum áratug.

Frjáls för vinnuafls

Þegar tíu ný aðildarríki bætast í Evrópusambandið  stækkar EES-svæðið sem því nemur og þar með verður til sameiginlegur markaður 28 ríkja. Þessar breytingar verða 1. maí næstkomandi og að óbreyttu hefðu þær haft í för með sér frjálsa för launþega. Þótt flestar rannsóknir bendi til þess að lítil hætta sé á miklum flutningum milli landa hafa flest ríki ákveðið að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að torvelda frjálsa för. Það hafa íslensk stjórnvöld nýlega ákveðið að gera, a.m.k. til tveggja ára. Þessi afstaða er í góðu samræmi við afstöðu almennings og  félagsmanna okkar til málsins. Um fjórðungur er mótfallinn takmörkunum af þessu tagi en 2/3 styðja þær.

Þá afstöðu má skoða í ljósi þeirra stórframkvæmda sem nú standa yfir við Kárahnjúka og þess að atvinnuleysi hefur þrátt fyrir þær farið vaxandi. Atvinnuleysið nálgast 4%, sem er óvenju mikið og  langtímaatvinnuleysi fer vaxandi, ekki síst meðal ungs fólks. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni. Við henni verður að bregðast, ekki síst með stóraukinni áherslu á menntun.

Skapa verður mannauð

Framleiðni vinnuafls í iðnaði hefur vaxið hratt undanfarin ár. Fjármagn og tækni eru vissulega mikilvægir þættir í þeirri jákvæðu breytingu en um leið er sívaxandi áhersla lögð á að byggja upp mannauðinn. Framleiðni vinnuaflsins stendur þannig í samhengi við dýrmæt og flókin störf sem verða m.a. til vegna aukinnar menntunar og þjálfunar. Af þessum sökum leggja Samtök iðnaðarins áherslu á að íslenskt menntakerfi sé öflugt og sinni þörfum iðnaðarins fyrir menntun við hæfi. 

Skortur á verk- og tæknimenntuðu fólki

Því er ekki að leyna að Samtök iðnaðarins hafa af því verulegar áhyggjur að menntakerfið fylgi ekki eftir þeim öru breytingum sem nú eru að verða í atvinnulífinu.  Sérstaklega er ástæða til þess að óttast að framundan sé skortur á verk- og tæknimenntuðu fólki. Á næstu þremur árum telja fyrirtæki innan SI sig þurfa að bæta við hátt í 800 nýjum starfsmönnum með raungreina-, tækni- og verkfræðimenntun og um 2.200 starfsmönnum með iðn- og starfsmenntun. Þetta var meðal þess sem kom fram í könnun sem gerð var nú um sl. áramót meðal fyrirtækja innan SI þar sem þau voru spurð um eigin þarfir á þessu sviði í náinni framtíð.

Samtök iðnaðarins styrkja lektorsstöðu við THÍ

Tækniháskóli Íslands hóf starfsemi á sl. starfsári á grundvelli nýrra laga.  SI hafa stutt við bakið á skólanum, meðal annars sl. haust þegar óljóst var hvort skólinn fengi leyfi til að fjölga nemum í tæknigreinum. Nú í lok febrúar var undirritaður samningur um að SI kosti hálfa lektorsstöðu í tölvu- og upplýsingatæknifræði við THÍ til næstu þriggja ára. Meðal verkefna lektorsins er að byggja upp fjarkennslu fyrir iðnaðarmenn sem stunda nám í iðnfræði.  Mikil aðsókn hefur verið að fjarnáminu og full þörf á að auka möguleika iðnaðarmanna á að afla sér frekari menntunar.

Allt í plati

Sú verklega framkvæmd, sem einna sögulegust verður frá liðnu ár, hófst þó aldrei. Héðinsfjarðargöng, umdeild, óhagkvæm stórframkvæmd  var boðin út í maí sl. að undangengnu forvali. Öllum að óvörum lýsti samgöngu­ráðherra því yfir í fjölmiðlum síðar um sumarið að ákvörðun lægi fyrir um að hafna öllum tilboðum í verkið. Voru það fyrstu fréttir til bjóðenda um niðurstöðu útboðsins. Þá kom og fram í fjölmiðlum að ástæðurnar væru alls óháðar tilboðunum. Hætt væri við framkvæmdina eða henni frestað til að draga saman segl í opinberum útgjöldum og draga úr þensluhættu.  

Kærunefnd útboðsmála komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin væri ólögmæt. Þetta er ánægjuleg niðurstaða því  aðallir þekkja að á fyrri tíð hefði sjálfdæmi stjórnvalda um hagstjórn og nauðsyn kúvendinga í verklegum framkvæmdum getað gengið fram, án þess að fyrirtæki gætu nokkrum vörnum við komið - en þessi niðurstaða sýnir að stjórnvöld eru sjálf ekki hafin yfir lögverndaðar leikreglur á markaði. 

Útboð stöðugt algengari

Útboðsformið gegnir sífellt stærra hlutverki í íslensku atvinnulífi og viðskiptum almennt og þar er hart barist og mörg mál hafa risið fyrir kærunefnd útboðsmála vegna annmarka á framkvæmd útboða. Útboð eru ennfremur oft flókin á nýrri sviðum viðskipta eins og upplýsingatæknin er gott dæmi um. Úr þessum viðfangsefnum þarf að leysa þannig að formið þjóni því upphaflega markmiði að greiða fyrir hagkvæmni í viðskiptum.

Úrelt lög

Sjálf lögin um framkvæmd útboða nr.65/1993 þarfnast endurskoðunar.  Ekki síst þarf að herða reglur um bótaskyldu og senda skýr skilaboð til þátttakenda á markaði: Um leið og menn bjóða út til að ná hagstæðum samningum um kaup á vöru, verki eða þjónustu hafa þeir undirgengist fastar formreglur sem ekki er hægt að víkja frá, enda stafar hagkvæmni formsins einmitt af festu í framkvæmdinni. Ábyrgir viðskiptamenn taka útboðsformið alvarlega. Sýndarútboð plaga enn markaðinn og allt of mörg dæmi eru um mistök og óvönduð vinnubrögð á þessu sviði.  Dæmi um slíkt er að hætt er við útboð eða öllum tilboðum hafnað vegna formgalla eða mistaka af hálfu þeirra sem standa fyrir útboðum.  Kostnaðurinn af þessu lendir hins vegar á verktökunum sem lagt hafa í milljóna kostnað við tilboðsgerðina.

Margt áunnist

Þó að hér hafi verið dregin upp nokkuð dökk mynd af útboðsmark­aðinum er rétt að taka fram að margt hefur áunnist og eru ýmsar þær breytingar raktar í ársskýrslu SI sem hér liggur frammi.  Þar má sem dæmi nefna nýjar innkaupareglur Reykjavíkurborgar, nýjan útboðsstaðal (ÍST-30) og nýjar reglur um verðtryggingu lengri verksamninga. Samvinna SI við stærstu verkkaupa um innleiðingu gæðakerfis er að skila árangri og þess er ekki langt að bíða að krafa verði gerð um að allir bjóðendur í stærri verk starfi skv. slíkum kerfum. 

Óþarfar reglur

Við ósköpumst stundum yfir því reglufargani sem til okkar streymir frá Brussel. Oft rekumst við reyndar á að það, sem er af hálfu ESB sett fram sem tilmæli eða stefnumótun (directive), verður að tilskipun í íslensku þýðingunni.  Við tökum upp að þarflausu og hugsunarlaust alls konar reglur sem ekki eiga hér við og engin þörf er fyrir.  Lítið dæmi um þetta er að mörg fyrirtæki innan SI urðu fyrir verulegum óþægindum af nýjum rekstrarleyfum til landflutninga. Eftirlitið er byggt á lögum frá 2001 sem sett voru í flýti þá um vorið með skýrum yfirlýsingum þingmanna í samgöngunefnd um að hvorki eftirlitið né greiðsluskyldur myndu ná til iðnfyrirtækja. Framkvæmdin reyndist önnur og tregðulögmál kerfisins sterk gegn því að takmarka sig við rökrétt markmið löggjafarinnar.

Þjösnast áfram

Með lögunum var innleitt nýtt eftirlit og íþyngjandi eftirlitskerfi sem í framkvæmd Vegagerðar hefur verið látið bitna á iðnfyrirtækjum og verktakafyrirtækjum en ekki einungis eiginlegum flutningafyrirtækjum. Þrátt fyrir mikil og ítrekuð mótmæli Samtaka iðnaðarins hafa stofnanir framkvæmdavaldsins haldið upp ströngu eftirliti og refsað fyrir brot með sektargreiðslum. Málið fór svo langt að Samtök iðnaðarins, ásamt félagsmanni, fóru með málið fyrir dómstóla og höfðu þar sigur. Dómurinn leysir iðn- og verktakafyrirtæki undan þessu ólögmæta eftirliti. Í dómsniðurstöðunni felst að fyrirtæki í mjólkuriðnaði, sorphirðu eða jarðvinnuverktöku, sem starfsemi sinnar vegna flytja hráefni, úrgang eða annað, verða ekki löglega krafin um að leggja fram á skrifstofu Vegagerðarinnar ársreikninga sína til tveggja ára, rekstraráætlanir, sakavottorð og vottorð um réttar efndir opinberra gjalda, enda hefur það verið samdóma álit atvinnurekenda á þessum sviðum að gjaldtakan og eftirlitið sé hrein firra. Rétt er að geta þess að  umrætt eftirlit, sem samgönguráðuneytið hefur komið á með landflutningum á Íslandi, er byggt á ströngustu útfærslu á ESB-tilskipun. Þar  er þó gert ráð fyrir undanþágu þeirra ríkja sem kjósa, einkum þeirra sem ekki eru hluti af sameiginlegum landflutningamarkaði í Evrópu.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Samtök iðnaðarins bera hag Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrir brjósti enda varð hann til með samkomulagi ríkisins, iðnaðar og sjávarútvegs þegar fjárfestingar­lánasjóðir þeirra atvinnugreina voru lagðir niður. Þeir sjóðir höfðu orðið til með áratuga sérstakri skattlagningu á þær atvinnugreinar. Ríkið fékk í sinn hlut Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem það einkavæddi með ágætum hagnaði en atvinnulífið fékk Nýsköpunarsjóð í sinn hlut því að svo var búið um hnúta að fulltrúar atvinnulífsins fara þar með meirihluta í stjórn. Með þeim hætti hefur ríkisvaldið viðurkennt í verki að hagsmunir sjóðsins og atvinnulífsins séu tengdir órjúfanlegum böndum.

Endurskoða þarf stefnu NSA

Nýsköpunarsjóður hefur staðið frammi fyrir verulegum erfiðleikum vegna fjárskorts því að reynslan hefur leitt í ljós  að fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum eru 8 til 12 ár að skila sér ef fyrirtækjunum tekst á annað borð að ná verulegum árangri. Nýsköpunarsjóður hóf hins vegar starfsemi árið 1998 og á því enn langt í land með að sjá árangur síns erfiðis. Þá er að koma í ljós að það er óheppilegt að sjóður á borð við Nýsköpunarsjóð eigi jöfnum höndum að vera áhættufjárfestir, styrk-, lán- og ábyrgðarveitandi á sama tíma og honum er gert að varðveita eigið fé sitt og nota ávöxtun þess og langtíma áhættufjárfestinga til þess að standa undir starfsemi sinni og fjárfestingum. Það er tímabært að taka til rækilegrar endurskoðunar stefnu sjóðsins og jafnframt að stjórnvöld og lífeyrissjóðir horfist í augu við það að nýsköpun krefst fjármagns og þolinmæði. Stefna ber að því að Nýsköpunarsjóður verði hreinræktaður áhættufjárfestir sem fjárfestir í vænlegum nýsköpunar­fyrirtækjum framarlega á fjármögnunarferlinum en hætti styrkja- og lánastarfsemi. Þar eiga aðrir aðilar að hafa hlutverki að gegna.

Lýðræðisleg samtök

Frá upphafi hafa Samtök iðnaðarins lagt áherslu á að virkja félagsmenn við stefnumótun og stjórn Samtakanna. Á hverju ári er því kosið í leynilegri póstkosningu um formann, stjórn og hluta ráðgjafaráðs. Stefnumótunar­fundir hafa verið haldnir og niðurstöðurnar hafa verið leiðarljós okkar í starfinu.  Síðast var farið í slíka heildarstefnumótun árið 1998 en síðan hefur nýkjörin stjórn SI á hverju vori sett fram sínar áherslur með verkefnalista sem kynntur hefur verið og ræddur í stjórn og ráðgjafaráði.  Opinber birting stefnunnar bæði í fréttabréfi og á vefsetri SI hefur leitt til þess að enginn þarf að fara í grafgötur um helstu stefnumál okkar.   

Ný stefnumótun

Að venju tók ný stjórn stefnumál og verkefni SI til endurskoðunar skömmu eftir Iðnþing 2003.  Þessar áherslur í starfinu eru kynntar í ársskýrslunni sem hér liggur frammi en í tilefni af 10 ára afmæli Samtaka iðnaðarins og EES-samningsins er ársskýrslan óvenju stór í sniðum og helguð þessum tímamótum.  Að því er stefnt að nú með vorinu verði línurnar enn lagðar með nýrri stefnumótun til næstu ára.  Ég treysti enn sem fyrr á gott samstarf við félagsmenn og starfsmenn um þetta mikilvæga verkefni. Tilgangurinn er að hafa ávallt skýrar línur í starfinu til þess að vinna félagsmönnum og iðnaðinum í landinu sem mest og best gagn.

 

Takk fyrir.

Ræða Vilmundar á PDF sniði - með línuritum og gröfum